Smásagnarsmáræði

14 - Smásagnasmáræði Þú ert Erlendur, góðan daginn Auðveldasta leiðin til að útskýra bókmenntagreiningu er að líkja henni við lögreglurannsókn á vettvangi glæps. Þegar þú lest bók ertu í raun Erlendur lögreglumaður. Þú mætir á staðinn og reynir að gera þér grein fyrir hvað gerðist. Í fyrstu tekurðu eftir augljósum staðreyndum sem blasa við þér, en eftir því sem þú gefur þér meiri tíma til að rannsaka finnurðu óvæntar vísbendingar sem leynast í skúmaskotum. Smám saman geturðu gert þér grein fyrir hvaða glæpur hefur átt sér stað – hvað gerðist og hvers vegna; hver framdi glæpinn, af hverju hann gerði það og hvar hann er hugsanlega að finna. Hið sama gildir í bókmenntagreiningu. Þú kemur auga á alls kyns smáatriði og skrifar þau niður á blað.Með því öðlast þú heildarmynd sem gerir þér kleift að greina söguna og segja eitthvað á þessa leið: „Þessi smásaga fjallar í raun um bla bla og bla bla og líka ble ble og blí blí.“ Bókmenntagreining snýst nefnilega ekki um að endursegja atburðarás sögunnar; hún snýst um að finna það sem liggur á bak við atburðarásina, finna það sem enginn sér. Og það get ég sagt þér í fullri hreinskilni að því fylgir mikil og djúp ánægja að lesa smásögu vel og vandlega, jafnvel oftar en einu sinni, og komast svo loksins að því um hvað hún fjallar í raun og veru.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=