Smásagnarsmáræði

100 - Smásagnasmáræði En svo var það þegar hún mamma þín kom í heiminn. Ég man það eins og það hefði gerst í gær. Hamslaus hríðarbylur æddi yfir holt og hæðir. Hross stóðu í höm í dalnum. Kindur grófust í fönn í múlanum. Í hríðinni var pabbi, einn á ferð. Aðeins örvinglaðir lögðu í slíkan veðurofsa. Hann teymdi hesta sína. Þeir þokuðust áfram, skref fyrir skref. Þrekaðir og máttfarnir, en áfram samt. Lopavettlingarnir voru klakaðir, jakkinn sem ísbrynja, þykk ullarhúfa ofan í augum. Líf og dauði dönsuðu saman þessa nótt. Hann þekkti leiðina, hljóp hana sem strákur, rölti þar sem unglingur og flutti eftir henni nauðsynjar sínar, sem bóndi. Hann þekkti hvern stein og hverja þúfu. Aldrei hafði hann þó lent þar í jafn hatrömmu veðri og þessa nótt. Aldrei hafði hann þurft jafn sárlega á aðstoð að halda. Það var um langan veg að fara, yfir illfærar heiðar og tvær ár, saklausar sprænur sem gátu breyst í skaðræðisfljót við slæmar aðstæður. En hvað gat hann gert? Hann varð að halda áfram. Lífið sjálft var í húfi og nornir spunnu örlagavefi úr ævimyndum þessa fólks. Auðvitað hélt fólk að hún myndi deyja, að nú væri loks komið að því. Barnið myndi áreiðanlega deyja. Þau dóu öll, þessi litlu börn. Við vorum fimmtán og sautján ára, stelpukjánar, gengum um gólf, æddum ýmist út eða inn bæjargöngin, stöldruðum við, störðum út um gluggaboruna í eldhúsinu. Hríðin úti … ópin inni svo óbærileg. Sársaukavein og stunur …varla að tíminn liði.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=