Skrift - handbók kennara

8 Áherslur, efnisþættir og markmið Í aðalnámskrá er lögð áhersla á að nemendur læri skrift sem hluta af heildstæðu móðurmálsnámi enda er beiting hennar grunnforsenda þess að nemendur séu færir um að skrá hugsanir sínar á blað, að rita texta. Rannsóknir hafa sýnt að þrátt fyrir tilkomu stafrænnar tækni og miðla hefur hún enn mikið gildi fyrir læsisnám á fyrstu stigum sem og hagnýtt gildi í leik og starfi þegar fram í sækir. Efnisþættir skriftarkennslu eru í megindráttum þrír: Vinnubrögð: Góð vinnubrögð eru nauðsynleg til að tryggja að skrift verði læsileg, að nemandi geti komið sér upp góðri skriftarfimi og að heildaryfirbragð ritverks verði gott svo merking texta komist til skila. Læsileiki: Skrift er læsileg þegar t.d. gott samræmi er í mótun bókstafsforma, bil á milli bókstafa og milli orða innan málsgreina er hæfilegt og stafir sitja á línum. Læsileg skrift hefur ekki áhrif á lestrarhraða viðtakanda og fellur að almennum og viðteknum viðmiðum um góða handskrift. Skriftarfimi: Skriftarfimi lýsir sér í fyrirhafnarlausum, sjálfvirkum og nákvæmum stafdrætti sem gerir textasmiði fært að tjá hugsanir sínar á áreynslulausan hátt þar sem hann tekur ekki orku frá flóknari þáttum ritunarferlisins. Í töflu 1 má sjá ákvæði aðalnámskrár varðandi skrift (Menntamálaráðuneyti, 2024) en í töflu 2 má sjá hvernig þau eru útfærð í þrepin fjögur og hvernig þau skarast. Skörunin kemur til af því að nemendur ná ekki allir sömu færni á sama tíma en árangur getur meðal annars verið háður gæðum kennslu, tækifærum til þjálfunar og einstaklingsbundnum þroska nemanda. Því getur verið æskilegra að skipta efninu upp í þrep fremur en árganga þar sem það býður upp á meiri sveigjanleika fyrir nemendur. Gert er ráð fyrir að allir nemendur nái markmiðum fjórða þreps á grunnskólagöngu sinni. Tafla 1. Hæfniviðmið úr aðalsnámskrá grunnskóla er varða skrift og frágang. Í töflu 2 má sjá tvö til þrjú meginmarkmið sem leggja grunninn að áherslum í þessu námsefni og mati á skriftarfærni nemenda en þau byggja á áðurnefndum efnisþáttum skriftarkennslu. Þessi markmið geta nýst vel við gerð heildstæðrar skólanámskrár í skrift. Þau eru útfærð nánar í ítarlegri matsviðmiðum sem kennarar geta notað til að meta stöðu, framfarir og árangur nemenda, einkanlega hvað læsileika skriftar varðar. Við lok 4. bekkjar getur nemandi Við lok 7. bekkjar getur nemandi Við lok 10. bekkjar getur nemandi ▶dregið rétt til stafs og skrifað skýrt og læsilega og á lyklaborð, ▶miðlað texta í gegnum sjálfvirka og læsilega skrift og fyrirhafnarlausan innslátt á lyklaborð; gengið frá texta samkvæmt fyrirmælum, ▶vald á ólíkum leiðum til að miðla rituðu máli og valið þá leið sem hentar tilgangi og lesendum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=