7 Um efnið Námsefnið skiptist í fjögur þrep og er gert ráð fyrir að skriftarkennsla fari fram þar til nemendur hafa öðlast læsilega rithönd og skrift þeirra orðin fyrirhafnarlaus og fullkomlega sjálfvirk. Hvenær það gerist ræðst meðal annars af gæðum kennslu og tækifærum nemenda til þjálfunar. Skörun er á milli fyrstu þriggja þrepanna þar sem ungir nemendur eru misfljótir að ná tökum á undirstöðuatriðum skriftar en fjórða þrepið teygir sig upp á miðstigið. Við útgáfu nýs námsefnis í skrift er lög áhersla á að efnið sé sem heildstæðast og að kennarar hafi greiðan aðgang að handbók um kennslufræði skriftar, kennsluleiðbeiningum, matsviðmiðum, matsleiðum, nægu þjálfunarefni og öðrum nauðsynlegum verkfærum. Þessi gögn, ásamt fleirum, verða aðgengileg á Skriftarvefnum en þar hafa kennarar einnig aðgang að Skriftís letrinu sem þeir geta notað til að útbúa viðbótarverkefni ef þörf krefur. Þar sem vefir bjóða upp á mikinn sveigjanleika við útgáfu á efni eru kennarar hvattir til að hafa samband ef verkfæri vantar eða ef þeir fá góðar hugmyndir varðandi skriftarkennslu sem gætu gagnast fleirum. Ítalíuskrift – hálftengd skrift Það hefur ekki tekist að sýna fram á með rannsóknum að ein skriftargerð hafi yfirburði umfram aðra. Því er ekki farin sú leið að kynna til sögunnar nýja formgerð skriftar heldur byggja ofan á þá kunnáttu og þekkingu sem þegar er fyrir hendi innan grunnskólans. Áfram verður lögð áhersla á að kenna nemendum tengda skrift en hún hefur ýmislegt sér til ágætis umfram skrift sem er ótengd eða prentuð. Ítalíuskriftin, eins og hún er útfærð hér, fer í raun bil beggja og er hálftengd skrift, lipur skrift sem þolir töluverðan skriftarhraða án þess að tapa læsileika sínum. Hægt er að þróa mjög áferðarfallega rithönd út frá henni sé áhugi nemenda fyrir hendi og tækifæri til þjálfunar mörg. Ein rök fyrir því að kenna tengda skrift eru þau að bókstafir sem eru mjög útlitslíkir í prentskrift, t.d. p-d-b, eru nokkuð ólíkir í tengdri skrift og því ruglast nemendur síður á þeim við ritun. Önnur rök eru þau að bil á milli orða í tengdri skrift eru miklu skýrari en bil milli prentaðra orða þar sem bilið, bæði milli bókstafa og orða, getur verið of mikið. Fjöldi rannsókna styðja kennslu tengdrar skriftar í tilviki nemenda sem glíma við erfiðleika á málsviði og nemendum, sem glíma við áttunarvanda, finnst tengd skrift auðveldari og fljótlegri. Hún virðist einnig leiða til betra vöðvaminnis og ýtir því frekar undir rétta stafsetningu orða sem getur verið gagnlegt fyrir nemendur með lestrarvanda. Loks virðist tengd skrift bjóða upp á betra flæði og hraða við ritun þar sem ónauðsynlegt er að lyfta blýanti í sífellu eins og gert er við ritun með prentaðri skrift (Semeraro o.fl., 2019). Í nýju skriftarefni hefst þjálfun tengdrar skriftar á 2. þrepi (2.-3. bekkur) þegar grunnformum við stafdrátt er náð en líklegt er að hjá flestum verði það við upphaf 2. bekkjar. Með því að hefja slíka þjálfun snemma er líklegra að nemendur festist síður í ótengdri skrift og tileinki sér þá tengdu. Tengd skrift er fyrir augum nemenda í þjálfunarefni strax á 1. þrepi svo þeir venjist því að sjá hana frá upphafi.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=