Skrift - handbók kennara

6 Inngangur Margir kunna að spyrja sig að því hvort þörf sé á að kenna nemendum skrift nú þegar margvísleg og fjölbreytt stafræn tækni er aðeins í seilingarfjarlægð innan og utan skólastofunnar. Hefur þessi kunnátta eitthvert gildi í víðara samhengi náms og menntunar í dag þar sem hægt er að rita texta á lyklaborð eða jafnvel með talgervli? Er tíma nemenda vel varið í að læra að draga til stafs og nota drjúgan tíma í að þjálfa skrift þar til hún verður læsileg og nýtist til miðlunar? Samkvæmt nýjum rannsóknum eru bæði stutta og langa svarið jákvætt. Því þarf skriftarkennslan að fá gott svigrúm innan stundarskrár og leggja þarf alúð við hana svo öll börn öðlist góða færni til að geta skrifað og skapað. Fyrir nokkrum árum hélt Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, þá Menntamálastofnun, rafrænar hringborðsumræður með kennurum víðs vegar að af landinu til að ræða stöðu og fyrirkomulag skriftarkennslu á tímum upplýsingatækni. Um þrjátíu áhugasamir kennarar mættu, unnið var í litlum hópum og niðurstöður teknar saman. Kennarar voru almennt sammála um gildi skriftarkunnáttu en mörgum fannst skorta heildstæðari nálgun eða ítarlegri leiðbeiningar í aðalnámskrá varðandi skriftarkennslu og kennslu í notkun lyklaborðs. Þeir bentu einnig á að skólar þeirra hefðu ekki sett sér skýra stefnu hvað þetta varðar og að dæmi væru um að tvenns konar og jafnvel þrenns konar skriftarnámsefni væri kennt sem kæmi í veg fyrir æskilega samfellu og stígandi í skriftarnámi nemenda. Eins virtist mat á skriftarfærni vera mjög handahófkennt og söknuðu kennarar þess að hafa ekki aðgang að betri leiðsögn vegna mats á skrift. Við gerð nýs námsefnis í skrift var lögð sérstök áhersla á að nýta þær upplýsingar sem fengust úr hringborðsumræðunum með kennurum og spegla þær í nýjum rannsóknum og aðferðafræði í skriftarkennslu. Vonandi mun efnið nýtast kennurum vel og leiða til heildstæðrar og markvissrar skriftarkennslu nemendum til hagsbóta.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=