30 Með jafningjamati er átt við það þegar nemendur meta framlag, frammistöðu eða verk annarra nemenda og veita þeim endurgjöf. Þetta er gert í þeim tilgangi að skoða þekkingu, skilning eða færni svo hægt sé að gera betur og skiptast á skoðunum varðandi það sem vel er gert. Rétt eins og við notkun sjálfsmats þurfa námsmarkmið að vera skýr og nemendur þurfa að fá góða þjálfun til að geta lagt sanngjarnt mat á frammistöðu félaga og til að geta nýtt sér mat félaga á eigin námi. Sú þjálfun er meðal annars fólgin í því að kenna nemendum orðfæri og aðrar bjargir sem gerir þeim kleift að nýta sér sjálfs- eða jafningjamat á árangursríkan hátt. Stöðumat og lokamat Þrátt fyrir að megintilgangur leiðsagnarnáms sé að nýta matsviðmið til ígrundunar á stöðu út frá viðmiðum á meðan nemandi er staddur í miðju vinnuferli sínu má nota þreparammana til að meta nemendur í lok vinnulotu, annar eða skólaárs. Lokamat gefur til kynna kunnáttu eða árangur nemenda við lok afmarkaðs viðfangsefnis eða námsáfanga og hefur þann megintilgang að veita upplýsingar um árangur náms og kennslu í lok námstíma. Því má segja að það hafi þann tilgang að kanna stöðu og framfarir sem hafa átt sér stað mögulega yfir lengri tíma eða frá einum tímapunkti til annars. Eðlilegt er að öll viðmið í matsramma séu undir þegar stöðu- eða lokamat er framkvæmt. Nánar er fjallað um námsmat á hverju þrepi fyrir sig á Skriftarvefnum. Þar má einnig finna matsramma í anda leiðsagnarmats sem kennarar geta notað til að meta nemendur en einnig gátlista sem nemendur geta notað við sjálfsmat og jafningjamat. Efninu fylgja jafnframt matsverkefni sem nota má sem hluta af stöðu- eða lokamati.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=