Skrift - handbók kennara

28 Námsmat í skrift Við mat á skriftarfærni nemenda munu atriði, sem snúa að læsileika skriftar, hafa mest vægi eins og áður segir. Gert er ráð fyrir því að viðmið sem snúa að vinnubrögðum séu ávallt höfð til hliðsjónar við þjálfun skriftar, nemendur reglulega minntir á þau enda stuðla góð vinnubrögð að læsilegri skrift og koma í veg fyrir að nemendur þreytist. Góð skriftarfimi, sem felst í nákvæmri og sjálfvirkri skrift sem hamlar ekki textagerðinni, tekur svo við þegar nemendur hafa náð tökum á atriðum sem falla undir læsilega skrift. Á Íslandi er ekki hefð fyrir því að meta skriftarfimi nemenda enda auðvelt að sjá hvenær skortur á skriftarfimi háir nemendum við textagerð. Þó getur verið gagnlegt að hafa aðgang að einhvers konar mati sem getur gefið til kynna hvort, og að hvaða marki, íhlutun hefur borið árangur. Á Skriftarvefnum er að finna hugmyndir að því hvernig framkvæma má mat á skrift og er matið útfært með áherslur hvers þreps í huga. Þar er að finna matsramma fyrir kennara sem gefa kost á nokkuð ítarlegu mati á stöðu og framvindu nemenda. Einnig má nálgast einfalda matslista sem hægt er að nota við sjálfsmat eða jafningjamat. Leiðsagnarnám Í aðalnámskrá grunnskóla kemur fram skýr áhersla á notkun leiðsagnarnáms. Í námskránni er lögð áhersla á að nemendur fái regluleg tækifæri til að velta eigin námi fyrir sér, setja sér markmið og vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í námsmati (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2011; 3.1). Þar sem það tekur nemendur langan tíma að ná tökum á læsilegri skrift þurfa þeir góða kennslu, næga þjálfun, reglulega og skýra endurgjöf. Því varð niðurstaðan sú að námsmatið fyrir læsileika skriftar yrði útfært í anda leiðsagnarnáms. Í leiðsagnarnámi er lögð áhersla á að notkun á niðurstöðum námsmats, og ígrundun stöðu út frá viðmiðum, sé í raun mikilvægari en niðurstöður sjálfs námsmatsins. Þannig verða niðurstöðurnar vegvísir sem beina námi nemenda fram á við með því að leggja til næstu skref í kennslu og hvaða markmið nemendur þurfa að setja sér í átt að auknum árangri (Nanna K. Christiansen, 2021). Tilgangurinn með náminu verður jafnframt augljósari og nemandi færari um að axla ábyrgð á því sjálfur. Leiðsagnarnám snýr þess vegna að því að hjálpa nemendum að gera sér grein fyrir markmiðum náms og hvar þeir eru staddir á vegferð sinni í átt að tiltekinni færni eða hæfni með því að beita raunhæfu sjálfsmati. Erna Ingibjörg Pálsdóttir (2011) og Nanna Kristín Christiansen (2021) hafa skrifað um notkun leiðsagnarnáms og leiðsagnarmats í kennslu og við námsmat. Hér verður aðeins fjallað um nokkur lykilatriði eins og endurgjöf, notkun fyrirmynda, sjálfsmat og jafningjamat en kennarar eru eindregið hvattir til að kynna sér umfjöllun þeirra Nönnu Kristínar og Ernu þurfi þeir nánari upplýsingar um eðli og nálgun í anda leiðsagnarnáms í kennslu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=