Skrift - handbók kennara

27 Í skriftarkennslu er mikilvægt að fylgjast vel með hvernig hverjum og einum nemanda gengur að temja sér réttan stafdrátt, góðar vinnustellingar, snyrtileg vinnubrögð og rétt grip. Kennarinn þarf að vera hreyfanlegur um stofuna til að geta minnt nemendur á og veitt markvissa endurgjöf, villuleiðréttingu og stýringu eftir þörfum hvers og eins. Ef skrift er æfð í stöðvavinnu er mælt með að kennari sé til staðar á stöðinni til að fylgja æfingum eftir og veita þá endurgjöf sem þarf. Varast ætti að líta á skriftartíma sem stund þar sem nemandi æfir sig og kennari les fyrir nemendur eða sinnir öðrum verkum. Til að ná góðu flæði og tengingu á milli kennslustunda er alltaf gott að rifja upp hvað var æft síðast og um hvað var fjallað í síðustu innlögn. Upprifjun er ekki síður mikilvæg til að festa þekkingu betur í minni en endurtekning er ekki síður mikilvæg í skrift en öðru námi. Námsmat Samkvæmt kennsluáætluninni, og í námsefni nemenda, er gert ráð fyrir reglulegu sjálfsmati þeirra. Slíkt sjálfsmat er mikilvæg leið til að fá nemandann til að velta vöngum yfir eigin frammistöðu og getur verið grundvöllur fyrir samræðu milli kennara og nemenda um gengi og framvindu í skriftarnámi. Eins og áður segir er gert ráð fyrir því að nemendur taki stöðuna og meti vinnu sína reglulega í námsefninu en í næsta kafla, og á Skriftarvefnum, er fjallað nánar um námsmat í skrift.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=