Skrift - handbók kennara

26 Markmið Búið er að gera ítarlegar tillögur að markmiðum skriftarkennslu á hverju þrepi í kaflanum um Efnisþætti í kennslu og mati á skrift á bls. 15-17. Í þessari kennsluáætlun eru tvö þeirra tilgreind en eins og segir í kaflanum um vinnubrögð getur þurft að hvetja nemendur reglulega til að styðjast við þau svo skriftin verði sem læsilegust og þeir þreytist síður. Innlögn Meginmarkmiðið með innlögn kennara er að veita nemendum einfalda, skýra og markvissa leiðsögn um lykilþætti skriftarkennslunnar: vinnubrögð, læsileika og síðar skriftarfimi. Kennarar ættu að temja sér stuttar innlagnir og afmarka vel það efni sem er til umfjöllunar í hverri innlögn. Við innlögn er gott að tryggja skilning nemenda með því að fá viðbrögð þeirra við því sem lagt var inn, til dæmis með því að spyrja spurninga sem krefja nemendur um að sýna skilning sinn á því efni sem er til umræðu. Við innlögn er mikilvægt að nota orðaforða skriftarinnar sem er tilgreindur í kennsluleiðbeiningum sem fylgir hverju þrepi námsefnisins. Þetta er til dæmis hægt að gera með því að nefna við hvaða línu á að byrja á bókstaf; við yfirlínu eða miðlínu, á hvaða línu bókstafurinn situr eða stendur og hvar eða hvernig stafdrætti lýkur, t.d. við undirlínu og með því að enda á krók o.s.frv. Það getur tekið orku frá vinnsluminni nemenda að hlusta eftir og muna orðalag við drátt bókstafanna og því ekki endilega mælt með að lögð sé áhersla á að nemendur geti endursagt ferlið við stafdráttinn. Hins vegar auðveldar það nemendum að skilja fyrirmæli og útskýringar kennara þegar kennarar temja sér að nota orðaforða skriftarinnar við innlögn. Þjálfun Rannsóknir hafa sýnt að tíðar, stuttar æfingalotur eru mun áhrifaríkari heldur en færri og lengri lotur. Æfingar tvisvar eða sjaldnar í viku skila ekki árangri. Gott er að miða við 10-15 mínútur einu sinni eða tvisvar á dag (Graham, 2010). Með stuttum og markvissum þjálfunarlotum má einnig koma betur til móts við þarfir úthaldslítilla nemenda en ef úthaldið er ekki til staðar getur verið gott að brjóta tímann niður í smærri einingar með stuttum pásum þar sem gerðar eru teygju- og/eða slökunaræfingar. Á meðan nemendur æfa skrift er mikilvægt að kennari gangi á milli og veiti þeim markvissa endurgjöf. Eftirfylgni Góðri innlögn fylgir markviss eftirfylgni þar sem kennari gengur um kennslustofuna, fylgist með æfingum nemenda, veitir jákvæða og uppbyggjandi endurgjöf og leiðbeinir eftir þörfum. Það er mjög mikilvægt að leiðrétta villur nemenda jafnóðum og kennarar koma auga á þær og leiðbeina og stýra nemendum í réttan veg. Þetta er sérstaklega mikilvægt á fyrstu árunum í skriftarnáminu sem og á forstiginu, þ.e. á meðan börnin eru enn í leikskóla og eru að byrja að handleika skriffæri. Það getur verið mjög erfitt að leiðrétta rangt grip og rangan stafdrátt þegar börnin hafa þegar tamið sér villuna og því nauðsynlegt að bregðast sem fyrst við.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=