24 Munurinn á gripi rétthentra og örvhentra felst í því að grip á vinstri hendi er hærra svo að fingur skyggi ekki á línuna sem skrifað er á. Auk þess hallar skriffærið meira í vinstra gripi en því hægra. Til að koma í veg fyrir að örvhentir nemendur temji sér að leggja vinstri hönd fyrir ofan bókina og beygi úlnlið í óþægilega stöðu þegar skrifað er, þarf að aðstoða þá við að finna þægilega vinnustöðu sem þvingar hvorki hönd, úlnlið né fingur. Jafnframt þarf að hjálpa þeim með staðsetningu bókar/blaðs og réttan halla á skriftarbókinni. Það er best gert með því að láta blaðið halla til hægri. Ef það reynist nemendum erfitt að hafa höndina fyrir neðan skriftarlínuna er mikilvægt að kenna þeim að halla blaðinu til vinstri til að létta álagi á liðamót. Örvhentir nemendur eiga að staðsetja skriftarbókina vinstra megin við miðlínu líkamans. Sjá einnig umfjöllun um réttan halla á blaði bls. 17. Skriftarkennsla fjöltyngdra barna með annað ritmálsletur Þegar nemendum af erlendum uppruna er kennd skrift þarf að hafa í huga að ef til vill hafa þeir ekki þekkingu á latnesku letri eða íslenska stafrófinu og hafa aldrei séð bókstafi eins og æ, þ eða ð. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að leggja áherslu á að kenna stafdrátt frá grunni og vinna með hljóð bókstafanna samhliða skriftarþjálfun, óháð aldri nemenda. Einnig þurfa kennarar að hafa í huga að það gæti reynst nemendum erfitt að tileinka sér nýja leturgerð sem byggir á latnesku letri ef þeir hafa áður lært aðra leturgerð heldur en ítalíuskriftina sem kennd er hér á landi. Þetta á sérstaklega við um stálpaða nemendur sem hafa lært og skrifað aðra skrift í mörg ár. Í slíkum tilvikum verða kennarar að meta hvort það sé nauðsynlegt að kenna nemendum nýja leturgerð ef þeir kunna nú þegar að draga til allra bókstafa, hafa náð góðri skriftarfimi og skrifa læsilega með þeirri leturgerð sem þeir lærðu í upphafi. Ef nemandinn vill læra ítalíuskrift ber að hafa í huga að miklar líkur eru á að það muni draga verulega úr skriftarhraða nemandans til að byrja með (National Handwriting Association, 2023). Skriftarþjálfun heima Þrátt fyrir að reikna megi með að skriftarþjálfun fari að mestu leyti fram í skólanum má vera að einhverjir kennarar vilji senda nemendur heim með þjálfunarefni til að leyfa forsjáraðilum að fylgjast með framvindu skriftarnámsins. Til að forsjáraðilar geti sinnt þjálfunarhlutverkinu þurfa þeir að fá leiðsögn og stuðning svo þeir viti hvernig þeir eiga að bera sig að og til að tryggja að nemendur fái sömu skilaboð í skóla og heima. Á Skriftarvefnum má finna upplýsingar og einfaldar leiðbeiningar fyrir forsjáraðila sem kennarar geta sent með heim ef æfa á skriftina heima. Kennsluáætlun – tillaga Eins og allir kennarar vita er hægt að fara mismunandi leiðir að sama marki. Það sem er þó mikilvægast er fullvissa kennarans um að sú leið sem hann velur að fara sé árangursrík fyrir nemendur hans. Í töflu 7 er tillaga að kennsluáætlun eða grunnsniðmát sem styðjast má við þegar skipuleggja þarf skriftarkennslu. Áætlunina má svo aðlaga út frá nemendahópum og eftir því sem reynslan safnast í sarpinn. Öll vönduð kennsla byggir á skipulagðri og vel ígrundaðri kennsluáætlun þar sem leitast er við að hámarka árangurinn af kennslunni.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=