23 Stafahús Stafahúsið hjálpar nemendum að átta sig á stærðarhlutfalli há- og lágstafa og innbyrðis hlutfalli hvers bókstafs fyrir sig. Stafahúsið sýnir grunnlínu og miðlínu og línur sem afmarka lengd stafa með yfirleggi og/eða undirleggi. Á Skriftarvefnum er að finna stafahús sem hægt er að varpa á tússtöflu, nota með smarttöflu eða öðrum hætti sem hentar kennurum. Stafdráttsyfirlit Rannsóknir sýna að stafdráttsyfirlit getur verið mjög hjálplegt fyrir nemendur þegar þeir eru að læra stafdrátt bókstafanna og er í raun hjálplegra en munnlegar leiðbeiningar kennara. Rétt aðferð við stafdrátt er sýnd með örvum þar sem er auðveldara að muna sjónrænar vísbendingar með númeruðum örvum en munnlegar leiðbeiningar. Þar af leiðandi er betra að gefa nemendum tækifæri til að nota sjónrænar vísbendingar eins og stafahús og stafdráttsyfirlit heldur en að útskýra stafdráttinn munnlega við innlögn á bókstöfum. Það er því mikilvægt að kynna yfirlitið vel fyrir nemendum og kenna þeim að nýta sér það. Það er góð regla að prenta yfirlitið út fyrir hvern og einn nemanda þannig að þeir geti haft það við höndina á meðan þeir æfa sig. Í stafdráttsyfirlitinu sem fylgir efninu eru há- og lágstafirnir sýndir saman þar sem báðir tákna sama hljóðið. Stærðarhlutföllin eru einnig skýr þegar stóri og litli stafurinn eru sýndir saman. Lágstafirnir eru þó mun algengari í rit- og lesmáli og því er mikilvægt að leggja sérstaklega áherslu á kennslu og þjálfun þeirra. Hafa þarf líka í huga að nemendur eru fljótir að læra að bera kennsl á tákn við lestur en geta þurft meiri tíma og þjálfun til að endurheimta rétt bókstafsform til að læra að draga það rétt. Hugtök í skriftarnámi Í skriftarkennslu, líkt og annarri kennslu, er mikilvægt að kennarar noti orðaforða greinarinnar í þeim tilgangi að nemendur læri og tileinki sér hann. Þekking á hugtökunum gerir nemendum kleift að skilja fyrirmæli og útskýringar kennara, að taka þátt í samræðum um skrift og stafdrátt og um skriftarnámið sitt almennt. Hugtökin eru nokkuð mörg en grunnlína, miðlína, undirleggur, yfirleggur, krókur, hástafur og lágstafur, broddur og depill eru dæmi um hugtök sem verða snemma á vegi nemenda í skriftarnámi þeirra. Þessi hugtök, og fleiri, verða kennarar að gefa sér tíma til að fjalla um við nemendur sína. Skriftarkennsla örvhentra Kennarar þurfa alltaf að gera ráð fyrir að ákveðinn hluti nemendahópsins sé örvhentur og má áætla að um 10-13% nemenda séu örvhentir (McManus, 2002). Rannsóknir hafa sýnt að örvhent börn geti átt í meiri erfiðleikum með skrift, m.a. vegna taugafræðilegra frávika sem geta haft áhrif á hreyfiþroska (Darvik o.fl., 2018; Giagazoglou o.fl., 2001). Það er því mikilvægt að vanda vel til verka þegar kemur að skriftarkennslu og skriftarþjálfun örvhentra nemenda. Það getur verið mjög gott fyrir kennara að æfa sig að skrifa bæði með vinstri og hægri hendi til að þeir skilji betur við hvað örvhentir nemendur eru að kljást þegar þeir draga til stafs, t.d. með tilliti til halla á skriftarbók og beitingar handar. Með slíkum æfingum getur kennarinn líka gert sér betur grein fyrir hvað aðgreinir grip örvhentra frá gripi rétthentra.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=