Skrift - handbók kennara

22 Skriftarkennslan Góð skriftarfærni er einn af mörgum og mikilvægum þráðum góðrar ritunarhæfni og eins og áður hefur verið komið inn á er skriftarnám mikilvægur þáttur þegar verið er að kenna börnum undirstöðuatriði í lestri. Skriftarkennsla þarf því að fá verðskuldað svigrúm innan stundatöflu þar sem innlögn er vönduð, tækifærin til þjálfunar mörg og endurgjöf og stuðningur veittur í gegnum reglubundna eftirfylgni. Gildi krotæfinga og sporunar Í skriftarkennslu byrjenda getur verið gott að gera fjölbreyttar þjálfunaræfingar sem þjálfa grófhreyfingar, fínhreyfingar, skriftarhreyfingar og samhæfingu augna og handa. Þetta geta verið æfingar eins og að spora á borð, skrifa á töflu, spora í sand, leira, spora ofan í línur og ýmiss konar krotæfingar. Slíkar þjálfunaræfingar geta verið gagnlegar til að treysta undirstöður handstjórnar og líkamsbeitingar en samkvæmt Santangelo og Graham (2016) kemur þessi undirbúningur ekki í staðinn fyrir skriftarþjálfunina þar sem viðfangsefnið er t.d. réttur stafdráttur og tengingar. Krotæfingar hafa þann tilgang að þjálfa handstjórn og æfa þá vöðva sem notaðir eru þegar skrifað er. Í krotæfingum getur ýmist falist að krota frjálst, t.d. með því að teikna hár á tröllkarl, að fylgja mynstri og halda áfram með það eða æfa sig að gera krákustíga. Punktablöð, rúðustrikuð blöð og línustrikuð blöð er hægt að nota á fjölbreyttan hátt til að æfa handstjórn, t.d. með því að láta nemendur tengja á milli punkta, draga línur á milli horna á rúðum eða gera krákustíga á milli lína. Tilgangur sporunaræfinga er að þjálfa grunnformgerð skriftarinnar og auka öryggi við stafdrátt. Með því að láta nemendur spora grunnform bókstafa, stafafjölskyldna og tengingar fá þeir tækifæri til að átta sig á réttri aðgerðaröð og öðlast öryggi varðandi það hvernig rétt er að bera sig að. Sporunaræfingar leggja því grunninn að réttum stafdrætti og tengingum og eru því ekki síður mikilvægar en skriftaræfingarnar sjálfar. Í nemendaefninu og kennsluleiðbeiningum sem því fylgir er hugtakið þjálfunaræfingar notað yfir fjölbreyttar æfingar sem hafa það að markmiði að: ◾ þjálfa fínhreyfingar ◾ þjálfa handstjórn ◾ þjálfa skriftarhreyfingar ◾ þjálfa nákvæmni við stafdrátt ◾ æfa lestur og ritun algengra og einfaldra orða Þjálfunaræfingar eru ekki aðeins til þess fallnar að ná framangreindum markmiðum heldur er þeim einnig ætlað að vera skemmtilegt uppbrot frá beinni skriftarþjálfun.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=