20 6. Tengingar Tengd skrift hefur ýmsa kosti umfram prentaða skrift og hafa margar þjóðir farið þá leið að kenna hana frá upphafi skólagöngu. Í þessu námsefni er lögð rík áhersla á að nemendur nái góðum tökum á grunnatriðum rétts stafdrátts en fari að tengja strax á þrepi 2. Allur undirbúningur í 1. bekk, eða á þrepi 1, þarf að miða að því að nemendur öðlist fullt öryggi við réttan stafdrátt og geti notað orku sína til að læra að tengja á þrepi 2. Í Skrift 2 er lögð áhersla á að hver tenging sé þjálfuð mjög vel enda mikilvægt að taka af allan vafa um það hvernig tengt er í og úr öllum bókstöfum. Ítarlegt yfirlit um tengingar er að finna í kennsluleiðbeiningunum fyrir þrep 2. Innlögn þarf að vera mjög góð, endurtekin og tækifæri til þjálfunar mörg. Hafi nemendur þörf fyrir að þjálfa einstaka tengingar betur geta kennarar nýtt sér Skriftarsmiðjuna sem er á Skriftarvefnum (og á námsgagnavef MMS) til að útbúa verkefni. 7. Greinarmerki: Spurningar- og upphrópunarmerki Nemendur hafa snemma þörf fyrir að nota spurningar- og upphrópunarmerki í frjálsri ritun og því eru þetta fyrstu greinarmerkin sem lögð er áhersla á að kenna þeim. Eins og í tilviki punkts í lok málsgreinar þarf að kenna nemendum að á eftir spurningarmerki eða upphrópunarmerki kemur stór stafur. 8-10. Hlutföll bókstafa Í viðmiðum 8-10 og 12 (sjá töflu 4) birtist ákveðin stígandi varðandi stærðarhlutfall bókstafa. Í skriftarþjálfuninni er gert ráð fyrir stigminnkandi stuðningi þar sem hjálparlínum er fækkað í þjálfun og námsmati eftir því sem nemandinn verður færari að skrifa. Með aukinni þjálfun má gera ráð fyrir að heildaryfirbragð skriftarinnar verði sífellt jafnara eftir því sem nemendur ná betri tökum á innbyrðis stærðarhlutfalli skriftarinnar. Fyrir vikið verður hún áferðarfallegri og læsilegri. 11. Ritun annarra greinarmerkja Í 3. og 4. bekk eru margir nemendur farnir að spreyta sig á ritun samtala í frjálsri ritun og sumir farnir að reyna sig við greinarmerkjasetningu beinnar ræðu sem er kennd á þrepi 3. Þar er einnig gert ráð fyrir að nemendum sé kennt að skrifa kommur og nota þær, t.d. í einfaldri upptalningu. 12. Hlutfall bókstafa – enginn stuðningur af hjálparlínum Í námsefninu er smám saman dregið úr notkun hjálparlína eftir því sem nemendur verða færari í skrift. Á þrepi 4 er gert ráð fyrir því að innbyrðis hlutfall bókstafanna verði orðið nokkuð gott og að nemendur geti skrifað læsilega skrift án hjálparlína. 13. Samræmi í halla skriftar Samræmdur halli á skrift eykur til muna læsileika og áferðarfegurð skriftarinnar. Æskilegur skriftarhalli er sá sami hjá rétthentum og örvhentum og gert ráð fyrir að ítölsk skrift halli til hægri. Bæði líkamsstaða og halli á bók eða blaði hefur áhrif á halla skriftar og því þarf að huga að þessu þegar ná á fram réttum halla á skrift.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=