Skrift - handbók kennara

19 1. Rétt formgerð skriftar Til þess að skrift verði læsileg þarf formgerð hennar að halda sér. Stöðugleiki hvað hana varðar skiptir máli fyrir flæði og fimi við skrift þar sem hún byggir á skýrt mótuðum grunnformum sem hafa sterkt innbyrðis samræmi. Gott samræmi í stafagerð er forsenda læsileika og mikilvægt að nemendur þrói ekki handahófskenndan stafdrátt og form sem þeir lærðu mjög ungir, annaðhvort heima eða í leikskóla. 2. Réttur stafdráttur Eins og áður hefur komið fram hefur skriftarnám töluverða þýðingu fyrir börn sem eru að ná tökum á lestri. Rannsóknir sýna að öryggi við stafdrátt, eða það að kunna að draga stafinn alveg rétt, skiptir miklu máli. Börn með undirliggjandi lestrarvanda eiga oft erfitt með að festa í minni bókstafstákn og viðeigandi hljóð. Hjá þessum börnum getur góð og vönduð skriftarkennsla skipt sköpum þar sem hvert barn fær tíma til að þjálfa bókstafsformin þar til fullkominni sjálfvirkni er náð. Þess vegna er það mikilvægt að lögð sé áhersla á að hver stafur sé alltaf dreginn með sama hætti og að tækifæri til þjálfunar séu næg. Í ítalskri skrift er lögð áhersla á að stafdráttur hefjist alltaf uppi (með örfáum undantekningum) sem m.a. er forsenda þess að hægt sé að tengja hana og ná þannig fram aukinni fimi við skrift. 3. Hjálparlínur Hjálparlínur eru nauðsynlegar til að kenna rétt hlutföll bókstafanna s.s. hæð þeirra, muninn á hástöfum og lágstöfum og lengd undirleggja og yfirleggja út frá grunnlínu. Túlkun á þessu matsviðmiði er ekki alltaf sú sama þar sem eðli og fjöldi hjálparlína breytist eftir því sem skriftarnáminu vindur fram. Þegar metið er samkvæmt þessu viðmiði þurfa kennarar að hafa þær kröfur í huga sem þeir gera hverju sinni út frá matsverkefninu (fjórar hjálparlínur eða ein?) og veita umsögn í samræmi við þær. 4. Broddur, depill og tvídepill Það er löng hefð fyrir því að tala um að setja punkt, tvípunkt eða kommu yfir viðeigandi stafi en punktar og kommur eru í raun og veru greinarmerki sem hafa þann tilgang að stýra lestri svo merking texta komist rétt til skila. Því er réttara að tala um brodd, depil og tvídepil (ö) en þessi merki hafa áhrif á hljóð bókstafanna og mikilvægt að nemandinn læri strax að staðsetja þau rétt. 5. Bil milli orða innan málgreinar (og bil milli bókstafa innan orða) Í Skrift 1a og Skrift 1b eru nemendur studdir með hjálparpunktum sem aðstoða þá við að staðsetja upphaf orða og málsgreina rétt enda ekki farnir að tengja skrift sína ennþá. Á þrepi tvö er punktunum fækkað og þá þarf að minna nemendur á að hafa hæfilegt bil á milli bókstafa innan orða. Einn kostur tengdrar skriftar er þó sá að bil bókstafa innan orða kemur meira af sjálfu en þegar ótengd skrift eða prentskrift er notuð. Það er því ekkert viðmið á þrepi tvö sem snýr að hæfilegu bili milli bókstafa innan orða en vera má að í einhverjum tilvikum sé nauðsynlegt að minna nemendur á að huga að þessu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=