Skrift - handbók kennara

17 3. Réttur halli á blaði Réttur halli á blaði hjálpar nemandanum að fylgjast með því sem hann skrifar og auðveldar skriftarhendinni að hreyfast þvert yfir blaðið. Halli blaðs á að vera sá sami og á skriftarhendinni en lausa höndin á að styðja við blaðið. Þannig á blaðið að halla aðeins til vinstri hjá rétthentum en til hægri hjá örvhentum. 4. Ástand skriffæra Vanda þarf valið á skriffærum sem notuð eru í skriftarkennslunni og hafa þarf í huga að sams konar skriffæri henta ekki endilega fyrir alla byrjendur í skrift. Huga þarf að lengd, lögun, þyngd og ummáli blýants og svo verður blýið að vera nógu mjúkt til að afraksturinn af vinnunni sjáist greinilega og vel. Nota þarf nógu langan blýant þannig að hann liggi vel yfir handargrófina og þrístrendir blýantar henta vel til að kenna gott grip því þannig snertir einn fingur hverja hlið blýantsins og gripið kemur nokkuð af sjálfu sér. Skriffæri nemenda þurfa ávallt að vera í góðu ástandi þannig að þau trufli ekki læsileika skriftar, flæði hennar né hafi áhrif á úthald nemandans. 5. Leiðréttingar Kröfur um leiðréttingar þurfa að taka mið af aldri nemenda og því hversu langt þeir eru á veg komnir í skriftarnámi sínu. Hjá ungum nemendum, sem eru rétt að ná tökum á stafdrætti, getur verið gott að láta þá einungis stroka út ef stafaformin eru ekki rétt eða ef bókstafirnir eru ekki rétt staðsettir með hliðsjón af hjálparlínum. Þetta kemur í veg fyrir að verkefnið verði ósnyrtilegt og ólæsilegt. Hjá eldri nemendum er hægt að gera meiri kröfur um leiðréttingar en þol nemenda fyrir þeim getur verið mismikið. Þar sem kennari þekkir nemendur sína best er það hans að meta hversu langt hann getur gengið í kröfum um leiðréttingar svo nemandi gefist ekki upp eða missi áhugann á viðfangsefninu. Gott og vandað strokleður er svo nauðsynlegt fyrir nemendur á öllum aldri. 6. Slökunaræfingar Þar sem skriftarþjálfun getur reynt bæði á líkama og sál getur verið gott að kenna nemendum einfaldar slökunaræfingar sem þeir geta gripið til ef þeir verða líkamlega þreyttir eða úthaldið er farið að minnka. Hafa þarf þó í huga að þjálfunarlotur mega aldrei vera svo langar að nemendur þurfi að grípa oft til slíkra æfinga. 7. Uppsetning og frágangur Góð uppsetning og snyrtilegur frágangur ýta undir læsileika texta og eru virðingarvottur við lesendur textans. Kröfur um hvort tveggja þurfa að taka mið af áherslum í skriftarkennslunni hverju sinni og þegar nægilegri færni er náð við stafdrátt geta kennarar farið að leggja meiri áherslu á þessi atriði. Það getur skipt nemendur verulegu máli að innan skólans séu samræmdar kröfur um skil á skriflegum verkefnum, hvort heldur sem þau eru handskrifuð eða unnin í ritvinnsluforriti. Skýrar og samræmdar kröfur leiða til betri nýtingar á tíma nemenda og aukins svigrúms til að sinna öðrum þáttum í námi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=