15 Efnisþættir í kennslu og mati á skrift Góð leið til að fjalla um eðli og inntak efnisþátta í skriftarkennslu er að skoða hvaða atriði liggja til grundvallar mati á þáttunum. Í þessum kafla verður fjallað ítarlegar um hvern þátt fyrir sig út frá matsviðmiðum sem ætti að gefa kennurum skýra mynd af því sem taka þarf fyrir í kennslu og þjálfun nemenda í skrift. Eins og áður segir eru efnisþættir kennslunnar vinnubrögð, læsileiki skriftar og skriftarfimi. Vinnubrögð Góð vinnubrögð eru nauðsynleg til að tryggja að skrift verði læsileg, að nemandi geti komið sér upp góðri skriftarfimi og að heildaryfirbragð ritverks verði gott svo merking texta komist til skila. Til dæmis skiptir líkamsstaða og rétt grip sköpum fyrir skriftarfimina og val á skriffæri og notkun á strokleðri sömuleiðis fyrir læsileika skriftarinnar. Þar sem erfitt er að meta stöðu vinnubragða hjá nemendum við formlegt mat er gert ráð fyrir að lögð sé áhersla á að góð vinnubrögð séu viðhöfð við alla skriflega vinnu, í öllum námsgreinum. Í töflu 3 má sjá yfirlit yfir viðmið sem falla undir góð vinnubrögð við skrift. Gert er ráð fyrir því að þau séu þau sömu fyrir öll þrep en kröfur þurfa að vera í samræmi við aldur og þroska nemenda hverju sinni. Eins og áður segir er ekki gert ráð fyrir því að vinnubrögð séu nauðsynlega hluti af námsmati í skrift heldur að nemendur séu sífellt minntir á nýta sér góð vinnubrögð þegar skrifað er. Tafla 3. Matsviðmið vegna vinnubragða í skrift. Þrep 1-4 1 Líkamsstaða nemanda við skrift er góð. 2 Grip nemanda á skriffæri er rétt. 3 Nemandi styður við blaðið/bókina og halli blaðs/bókar er þægilegur. 4 Skriffæri nemanda er í góðu ástandi. 5 Nemandi notar strokleður við leiðréttingar. 6 Nemandi nýtir sér slökunaræfingar eftir þörfum. 7 Uppsetning og frágangur er í samræmi við fyrirmæli kennara/námskrá skóla.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=