13 ólíkum bókstafsformum (Kiefer o.fl., 2015; Vinci-Booher og James, 2020) og greiðir fyrir myndun tengsla á milli bókstafs, hljóðs og orða. Mayer og fleiri (2020) komust að hinu sama að því viðbættu að skriftarþjálfun bætti einnig rýmisgreind nemenda. Niðurstöður yfirlitsrannsóknar Rays og samstarfsfólks hennar (2022) leiddu í ljós að áhersla á skriftarfimi (sjálfvirkni) gæti t.d. haft áhrif á grunnfærni í lestri eins og endurþekkingu bókstafsheita/hljóða og það að setja saman texta. Rúsínan í pylsuendanum er svo sú að börn sem hafa náð góðum tökum á umskráningu og skrift eru fljótari að ná tökum á lyklaborði en önnur. Þessar niðurstöður sýna fram á gildi skriftarkennslu fyrir lestrarnám en gefa okkur einnig vísbendingar um það að skynsamlegt getur verið að bíða með þjálfun í notkun lyklaborðs þar til börn hafa náð góðum tökum á skrift (Stevenson og Just, 2012). Einnig má hafa í huga að það er tilgangslítið að kenna börnum á lyklaborð fyrr en þau hafa raunverulega þörf fyrir kunnáttuna og geta beitt henni á merkingarbær viðfangsefni í námi. Gildi skriftar fyrir ritunarnám Ritun er nokkuð flóknari aðgerð en lestur þar sem það er meira krefjandi að fara frá málhljóði yfir í rittákn (ritun) en frá rittákni í málhljóð (lestur). Við lestur eru margar sjónrænar vísbendingar til staðar sem lesarinn getur nýtt sér við umskráninguna (s.s. lengd orðs, samhengi, fyrsta og síðasta hljóð orðsins og jafnvel mynd) en við ritun getur nemandinn einungis nýtt sér hljóðræna mynd orðs til að stafsetja það og skrá niður. Í stuttu máli sagt er auðveldara að bera kennsl á orð en að muna frá upphafi til enda hvernig það er skrifað. Við þekkjum það svo flest að við lesum miklu meira en við skrifum og því fáum við snemma miklu meiri þjálfun í að lesa orð en skrifa þau (Winkes, 2014). Þetta ýtir undir mikilvægi þess að þjálfa lestur og ritun jöfnum höndum við upphaf lestrarnáms. Eins og áður hefur verið vikið að hefur góð skriftarkennsla og þjálfun mikið vægi við upphaf lestrarnáms en áhrifin vara þó lengur en fyrstu árin í grunnskóla. Það er mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að ná góðum tökum á læsilegri skrift og verða skriftarfimir, jafnvel þó að á miðstig grunnskólans sé komið. Markmiðið er alltaf það að skriftin verði læsileg og sjálfvirk þannig að hún nýtist til miðlunar. Ef hún er hins vegar fyrirhafnarmikil og þarf mikið svigrúm í vinnsluminni nemandans getur hún reynst dragbítur á mótun texta í huganum þar sem flæðið í hugsun og texta rofnar. Erfiðleikar við skrift geta einnig leitt til þess að nemandinn er ekki fær um að nálgast textagerðina á skipulegan hátt (Limpo og Alves, 2018). Hæg og fyrirhafnarmikil skrift, sem reynir á líkama og vinnsluminni, slök skriftarkennsla og skortur á hvatningu í umhverfi getur því breytt textagerð í erfiða, fyrirhafnarmikla og jafnvel sársaukafulla aðgerð og jafnframt leitt til neikvæðs viðhorfs til ritunar og tiltrúar nemanda á eigin ritunargetu (Santangelo og Graham, 2016; Alves o.fl., 2019). Ólæsilegur texti getur svo haft áhrif á viðhorf kennara til gæða og úrvinnslu hugmynda í texta sem og almennrar ritfærni nemanda þar sem merking textans kemst ekki almennilega til skila (Graham o.fl., 2011). Það er því ekki að ástæðulausu að skriftin er einn af lykilþráðum góðrar ritunarhæfni sem enn þarf að huga vel að í íslenskukennslu, sérstaklega á yngsta og miðstigi.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=