Skrift 2a - kennsluleiðbeiningar

7 6 Hugtök í skriftarkennslu og skriftarnámi Í öllu námi þurfa nemendur að tileinka sér fjöldann allan af hugtökum til að verða færir um að ræða um námið sitt. Þar er skriftarnámið engin undantekning og óhjákvæmilegt að hugað sé markvisst að því að kenna nemendum lykilhugtök strax í byrjun til að tryggja að þeir skilji leiðbeiningar kennara og geti nýtt sér endurgjöf. Hugtök sem notuð eru í tengslum við kennslu og þjálfun á hverri opnu nemendaefnis eru nefnd sérstaklega í upphafi leiðbeininga með hverju þema nemendaefnis. Þetta eru hugtök eins og leggur, undirleggur, yfirleggur, belgur, bogi, depill, broddur, tengikrókur, grunnlína, miðlína, undirlína, yfirlína, krókur, hástafur og lágstafur. Yfirlit yfir stafdrátt allra bókstafa Á fyrstu opnu í nemendabókunum er stafdráttur allra bókstafa, bæði hástafa og lágstafa sýndur. Á yfirlitinu eru örvar sem sýna röð aðgerða við stafdrátt en fjöldi örva ræðst af því hversu margar blýantsstrokurnar eru og hversu oft þarf að lyfta skriffæri til að mynda bókstafinn. Það er mikilvægt að kynna þessa opnu fyrir nemendum og benda þeim á að gott sé að fletta upp á henni ef þeir þurfa að rifja upp hvernig á að draga til einstakra bókstafa.​ ​ Vakin er athygli á því að bókstafirnir Áá, Íí, Óó, Úú, Éé, Ýý eru broddstafir og leggja skal áherslu á að byrja neðst á broddinum og draga hann upp frá bókstafnum. Ef dregið er frá staf og upp hefur nemandinn stafinn til viðmiðunar og broddurinn lendir þá fyrir ofan réttan staf en ekki á staf við hliðina eða langt fyrir ofan. Þannig eru einnig meiri líkur á því að broddur snúi rétt og að hann fái form eins og broddur en ekki eins og komma sem dregin er niður. Líkamsstaða Á blaðsíðu 1 í bókunum er mynd sem sýnir ákjósanlega líkamsstöðu við skrift. Eins og sést á myndinni er mikilvægt að húsögn séu í þeirri hæð að nemandinn geti haft iljar á gólfi og að olnbogar hvíli á borðplötunni án þess að sveigja sé á baki eða hálsi. Þá þarf einnig að huga að því að halli á blaði sé réttur sem auðveldar þeirri hendi sem skrifað er með að hreyfast þvert yfir blaðið. Þegar rétthentir skrifa þarf blaðið að hallast örlítið til vinstri en til hægri hjá þeim sem eru örvhentir. Að síðustu ber að leggja áherslu á að kenna nemendum rétt blýantsgrip og að leiðrétta gripið sé það rangt. Í Skrift – handbók kennara og á Skriftarvefnum má bæði lesa meira um blýantsgripið og finna skýringamyndir sem sýna rétt blýantsgrip. Humlan Blær og táknin Á blaðsíðum tvö og þrjú í báðum bókum nemendaefnis er humlan Blær kynnt til sögunnar. Humlan hefur það hlutverk að gefa fyrirmæli og að minna nemendur á markmið í sjálfsmatsverkefnum. Á þessum sömu síðum eru tákn sem sýna einföld fyrirmæli, t.d. um að draga línu, draga hring, merkja með krossi o.s.frv. Þjálfunaræfingar og þrautir Líkt og á þrepi eitt eru fjölbreyttar þjálfunaræfingar í Skrift 2 sem snúa meðal annars að því að þjálfa skriftarhreyfingar og tengingar. Tilgangur sporunaræfinga er meðal annars sá að þjálfa grunnform bókstafanna og að hjálpa nemendum að fá tilfinningu fyrir réttum stafdrætti og réttum tengingum. Ítarlegri upplýsingar um gildi sporunar- og krotæfinga er að finna í Skrift – handbók kennara. Með þrautum er ekki síst leitast við að brjóta upp námsefnið í þeim tilgangi að gera það meira spennandi og draga úr mögulegum leiða á skriftaræfingum. Flestar þrautirnar hafa það að markmiði að þjálfa stjórn á skriffærum, æfa fínhreyfingar og stafsetningu. Kennurum er í sjálfsvald sett hvort þeir vilji hvetja nemendur til að lita myndir eða nota liti við sporunar- æfingar. Að lita myndir getur verið góð æfing fyrir fínhreyfingar, blýantsgrip og handahreyfingar og því getur það verið góð viðbótaræfing fyrir þá sem þurfa. Þjálfun í stafsetningu og ritun sjónræns orðaforða Í námsefninu er lögð áhersla á að vinna með algeng orð sem mynda grunninn að sjónrænum orðaforða nemenda. Orðin sem valin voru til þjálfunar eru meðal 400 fyrstu orðanna í 1000 orða lista MMS á Læsisvefnum. Listinn byggir á tíðni orða í námsefni sem stofnunin hefur gefið út fyrir mið- og unglingastig. Í gegnum þau orð sem voru valin í Skrift 2a eru tvær stafsetningar- reglur kynntar til sögunnar. Annars vegar reglan um það að ekkert orð byrjar á ð og ekkert orð endar á þ og hins vegar reglan um að málsgrein hefst á stórum staf og endar með punkti. Í Skrift 2b er lögð áhersla á að nemendur æfi sig að skrifa orð sem byrja á hv- og algeng orð með y, ý og ey. Þar er einnig unnið með stafsetningu auk þess sem unnið er með greinarmerkin ? og ! Námsmat Líkt og í Skrift 1a og Skrift 1b fá nemendur reglulega tækifæri til að meta gæði vinnu sinnar. Það er ýmist gert í gegnum sjálfsmat eða svokallaða meistaralínu. Með sjálfsmati er leitast við að efla vitund nemenda um markmið skriftarþjálfunar hverju sinni og hvetja þá til að hafa þau í huga við vinnu sína. Sjálfsmatið hefur einnig þann tilgang að ýta undir áhuga nemenda á skrift með því að beina athygli þeirra að því hvernig þeir skrifa. Sjálfsmatsverkefnin eru þannig upp sett að humlan nefnir atriði sem nemendur þurfa að hafa sérstaklega í huga við vinnu sína hverju sinni. Nemendur eiga síðan að leggja mat á hversu vel þeim gekk að æfa sig í að skrifa með þessi atriði til hliðsjónar. Markmið sem nemendur meta í sjálfsmati eru eftirfarandi: • Að byrja efst á bókstöfunum. • Að halda rétt á blýanti.​ ​ • Að setja brodda á réttan stað. • Að setja depla á réttan stað. • Að láta lágstafina sitja á grunnlínu og ná upp í miðlínu. • Að nota hjálparlínur rétt og nákvæmlega. • Að hafa hæfilegt bil á milli stafa í orði. • Að hafa hæfilegt bil á milli orða í málsgrein. • Að tengja rétt á milli bókstafa þar sem það á við. • Að byrja málsgrein á stórum staf og ljúka henni með punkti. • Að nota spurningarmerki og upphrópunarmerki rétt.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=