11 10 Skrift 2a Skrift 2a skiptist í nokkur þemu; kynning á stafafjölskyldum, stafafjölskyldur án tenginga, allar stafafjölskyldur æfðar saman án tenginga, tengingar kynntar og æfðar í gegnum stafafjölskyldur, tenging algengra orða og að síðustu er reglan um engar tengingar úr hástöfum kynnt. Í töflu eitt á blaðsíðu 4 má sjá yfirlit yfir hvernig á að tengja hvern og einn bókstaf. Bls. 4–5: Kynning á stafafjölskyldum Á fyrstu blaðsíðunum í Skrift 2a er ritun lágstafa æfð í gegnum stafafjölskyldur. Þær æfingar ættu að duga flestum nemendum til að festa stafdrátt betur í minni ef einhverju er ábótavant. Ef mat kennara leiðir hins vegar í ljós að einhverju sé verulega ábótavant varðandi stafdrátt þá má alltaf bæta við æfingum, til dæmis æfingum í að skrifa einstaka bókstafi, krotæfingum og fleiru en á Skriftarvefnum er ýmiss konar ítarefni sem ætlað er til þjálfunar og hægt er að prenta út. Á Skriftarsmiðjunni geta kennarar útbúið texta með skriftís letri á hjálparlínur og prentað út. Þar eru einnig hugmyndir að aukaæfingum til að þjálfa tengingar. Stafafjölskyldur eru kenndar í tengslum við lágstafina. Híbýli stafafjölskyldna hafa tengingu við grunnform skriftarinnar og í sumum tilfellum þær handahreyfingar sem beita þarf til að skrifa stafina sem tilheyra hverri fjölskyldu. Hugtök: hjálparlínur, yfirlína, miðlína, grunnlína, undirlína, depill, broddur, leggur, yfirleggur, undirleggur, bogi, belgur og tengikrókur. Innlögn Stafdráttur hverrar stafafjölskyldu fyrir sig er sýndur á töflu og ætti kennari að draga athygli nemenda að sameiginlegum einkennum hverrar fjölskyldu og jafnvel að varpa myndum af híbýlum fjölskyldnanna upp á vegg. Þannig eru auknar líkur á að ná sameiginlegri athygli allra nemenda. Kennari getur einnig verið með stóra útklippta bókstafi og lagt þá ofan á hvern annan til að sýna nemendum hvað sé líkt með bókstöfunum og þá sérstaklega þegar verið er að skoða hvað sé líkt með bókstöfum innan hverrar stafafjölskyldu. Þá er líka hægt að nota liti og skrifa stafina ofan í hvern annan með mismunandi litum. Þegar kennari rifjar upp stafdrátt hvers bókstafs er gott að nota orðaforða skriftarinnar og orða hvert skref stafdráttarins. Sem dæmi þegar stafurinn l er kynntur þá segir kennari: „Við notum hjálparlínurnar og byrjum við yfirlínuna og drögum stafinn niður í gegnum miðlínuna og stoppum á grunnlínu þar sem við gerum lítinn tengikrók.“ Að tala sig í gegnum stafdráttinn er ekki síst til þess fallið að vera fyrirmynd varðandi notkun orðaforða skriftarinnar. Eftir kynningu á hverri stafafjölskyldu eiga nemendur að spora ofan í bókstafi og vinna verkefni sem tilheyra hverri fjölskyldu fyrir sig. a-fjölskyldan (a - á - d - g - q - u - ú - y - ý) á það sameiginlegt að vera ýmist með lágan legg, háan legg eða undirlegg hægra megin sem dregið er til síðast. Úr bókstöfum sem eru ekki með undirlegg er gerður tengikrókur sem er notaður til að tengja í næsta bókstaf. Bókstafir sem eru með undirlegg eru ekki með tengikrók. b-fjölskyldan (b - p - þ - h - n - m - k - r) einkennist af því að stafdráttur allra bókstafa í þessari fjölskyldu hefst á vinstri legg sem ýmist byrjar við miðlínu eða yfirlínu. Þrír bókstafir í þessari fjölskyldu eru með belg: b, þ og p. Fjórir bókstafir eru með hægri legg en úr honum er gerður tengikrókur: h, n, m og k. Að lokum ber að kynna bókstafinn r sem hefur sama stafdrátt og form og bókstafurinn n nema að hann stoppar rétt undir miðlínu. l-fjölskyldan (l - i - í - j - f - t) á það sameiginlegt að allir stafirnir byggja á beinum línum en auk þess eru þrír þeirra með smá sveigju eða boga ýmist efst eða neðst: f, t og j. Vekja skal athygli á því að yfirleggur stafsins t er styttri en á öðrum bókstöfum sem eru með yfirlegg. o-fjölskyldan (o - ó - ö - ð - c - e - é - æ - s) á það sameiginlegt að byggja á bogadregnum, bugðóttum og hringlaga hreyfingum. Frá bókstöfunum o, ó og ö má segja að bókstafurinn ð sé rökrétt framhald þar sem haldið er áfram úr sporöskjulaga hringnum upp í yfirlegginn og á endanum er þverstrikið skrifað sem myndar nokkurs konar x fyrir ofan belginn. Dregið er á sama hátt til stafanna c, e og é þar sem byrjað er á bogadreginni línu frá miðlínu niður á grunnlínu og síðan er litlum belg bætt við e og é auk þess sem broddur er settur yfir é. Bókstafurinn æ byggir hins vegar bæði á a-fjölskyldu og o-fjölskyldu þar sem byrjað er á að skrifa bókstafinn a með bogadreginni línu neðst í stað tengikróks sem er þá eins og boginn neðst á e. Að lokum er litlum belg bætt við eins og á e. Hægt er að fara þá leið að kenna nemendum að bókstafurinn æ sé skyldur bæði a og e og er því frændi þeirra beggja. Bókstafurinn s er sá stafur o-fjölskyldunnar sem er ólíkastur öllum hinum þar sem byrjað er á boga efst og dregið niður í öfugan boga neðst. Hins vegar er hægt að skoða með nemendum að hvaða leyti s er líkt o með því að draga til stafsins s inni í o. Þá átta nemendur sig á að þeir eru að nota sömu boga efst og neðst í essinu eins og í o. x-fjölskyldan (x - z - v - w) einkennist af skástrikum og því að upphafsstaður allra bókstafanna er vinstra megin. Dregið er til stafanna frá vinstri til hægri. Það getur verið gaman að skoða bókstafina í x-fjölskyldunni með spegli til að átta sig á hvernig þeir speglast. Bls. 6-9: a-fjölskyldan Hugtök: yfirlína, miðlína, grunnlína, undirlína, leggur, yfirleggur, undirleggur, belgur, bogi, tengikrókur, broddur. Bls. 6 Innlögn Gott er að beina sjónum nemenda að stafdrætti bókstafanna í a-fjölskyldunni. Til a-fjölskyldunnar teljast a, á, d, g, q, u, ú, y og ý. Byrjið á að sýna nemendum stafdrátt bókstafanna a og á á töflu. Síðan er stafdráttur bókstafsins d sýndur og sjónum nemenda beint að því hvað er líkt með stafdrætti og útliti stafanna a og d en bókstafurinn d er í rauninni eins og a nema að haldið er áfram upp að yfirlínu til að gera yfirlegginn. Þá þarf að sýna nemendum að hvaða leyti bókstafurinn g er líkur bókstafnum a en í raun er það eina sem aðgreinir þessa bókstafi frá hvor öðrum að a situr á grunnlínu og endar á krók á meðan
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=