Skrift 1b

72 Til kennara Í námsefninu Skrift 1a og Skrift 1b er lögð áhersla á að skriftarkennsla og þjálfun verði ríkari þáttur í stafainnlögn og fái þar meira svigrúm. Auk skriftarþjálfunar er unnið með hljóðgreiningu, rím, lestur og ritun ásamt skemmtilegum þrautum sem æfa sporun, skriftarhreyfingar, grunnform, fínhreyfingar o.fl. Áður en byrjað er á þessari bók þarf kennari að fara vel yfir inngangsopnu bókarinnar með nemendum til að skoða og útskýra hlutverk humlunnar, hvaða fyrirmæli hún gefur og hvað táknin þýða. Í nemendabók eru tvær gerðir sjálfsmats, annars vegar sjálfsmatsverkefni þar sem ritun há- og lágstafa er æfð og metin út frá ákveðnum markmiðum og hins vegar meistaralína þar sem lögð er áhersla á að nemendur meti vinnu sína út frá öllu því sem þeir hafa lært í skriftarnáminu. Með sjálfsmati er leitast við að efla vitund nemenda um markmið skriftarþjálfunar og hvetja þá til að hafa markmiðin í huga við vinnu sína. Sjálfsmatsverkefni er á síðu tvö með hverjum bókstaf sem þarf að fara vel yfir með nemendum. Humlan Blær nefnir atriði á fyrri síðu sem nemendur eiga að hafa sérstaklega í huga við vinnu sína. Síðan eiga þeir að meta hversu vel þeim gekk að æfa sig í að skrifa há- og lágstafi út frá þeim atriðum sem humlan nefndi. Meistaralínu þarf einnig að kynna vel en þar eiga nemendur að leggja sig sérstaklega fram um að muna eftir öllu sem þeir hafa lært í skrift og nota þekkingu sína til að skrifa vandaða og fallega stafi, orð eða málsgreinar. Nemendur geta valið sér bókstaf, orð eða málsgrein úr æfingunum til að skrifa í meistaralínu. Þegar nemendur hafa lokið við að skrifa í meistaralínu eiga þeir að meta frammistöðu sína með því að lita stjörnur. Skrift 1 – kennsluleiðbeiningar eru á vef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, midstodmenntunar.is, þar sem sjá má tillögur að innlögn með hverjum bókstaf og útskýringar á þjálfunaræfingum og verkefnum. Skrift - handbók kennara má nálgast á midstodmenntunar.is en þar eru gagnlegar upplýsingar um kennslufræði skriftar, markmiðasetningu, námsmat og fleira. Skriftarvefurinn er hagnýtur safnvefur fyrir kennara þar sem finna má fjölbreytt verkfæri til skriftarkennslu. Á vefnum eru meðal annars gagnlegar upplýsingar um mat á skrift, upplýsingar vegna nemenda sem þurfa aukinn stuðning í skriftarnámi sínu og góð ráð til foreldra ef þjálfa á skrift heima.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=