Skrift 1a og 1b - Kennsluleiðbeiningar

6 Sporunaræfingar Tilgangur sporunaræfinga er m.a. sá að þjálfa grunnform bókstafanna og að hjálpa nemendum til að fá tilfinningu fyrir réttum stafdrætti. Með hverjum nýjum bókstaf er gott að láta nemendur æfa sig í að spora bæði hástaf og lágstaf með fingri, t.d. í sand eða með málningu á pappír. Hægt er að skipta sandi úti fyrir hrísgrjón, sagógrjón eða annan skemmilegan efnivið. Eftir sporunaræfingar með fingri æfa nemendur sig að spora og skrifa bókstafina með blýanti í skriftarbókina. Ítarlegri upplýsingar um gildi sporunar- og krotæfinga er að finna í handbók um notkun námsefnisins, Skrift – handbók kennara. Stafahúsið Notkun stafahússins er einkar gagnleg þar sem það getur hjálpað nemendum að átta sig á hlutföllum bókstafsforma, stærðarhlutfalli stafa með undir- og yfirleggi og muninum á stærð há- og lágstafa svo dæmi séu tekin. Í stafahúsinu eru kjallari, hæð og ris en þetta eru hugtök sem flestir nemendur ættu að þekkja. Út frá húsinu er einnig gott að ræða lykilhugtök eins og grunnlína, miðlína, yfirlína, stafabelgur, undirleggur og yfirleggur. Mynd og tengiorð Þegar nýr bókstafur er tekinn fyrir má sjá mynd og tengiorð á vinstri síðu sem tengjast hljóði bókstafsins. Eins og í Lestrarlandinu þá á upphafshljóð myndarinnar að minna nemendur á hljóð bókstafsins og hjálpa þannig til við að tengja saman útlit og hljóð. Í þessu efni var ákveðið að bæta við orðmyndinni sjálfri þar sem sum börn eru farin að lesa dálítið en orðið er skrifað með tengdri skrift til að nemendur venjist því að sjá og lesa hana snemma í lestrar- og ritunarnámi sínu. Fyrir ofan hvern nýjan bókstaf eru sporunaræfingar sem eru góður undirbúningur fyrir stafdráttinn. Hljóðavinna, þjálfun í lestri og ritun sjónræns orðaforða Í námsefninu eru viðbótarverkefni sem styrkja hljóðkerfis- og hljóðavitund nemenda. Þetta er góð viðbót fyrir þá sem þurfa að efla þessa grunnfærni og tengir saman skriftarþjálfun, stafainnlögn og hljóðavinnu. Jafnframt er lögð áhersla á að vinna með algeng orð sem mynda grunninn að sjónrænum orðaforða nemenda. Orðin sem valin voru til þjálfunar koma fyrir í orðalistum með 150 algengustu orðunum í íslensku og mynda hátt hlutfall ritaðs texta. Í sumum tilfellum hafa ekki verið lagðir inn nógu margir bókstafir til að hægt sé að nota orð af orðalistanum en í þeim tilfellum eru einföld orð kynnt til sögunnar sem innihalda bókstafi sem þegar hafa verið æfðir í námsefninu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=