Skrift 1a og 1b - Kennsluleiðbeiningar

4 Í þessu námsefni er lögð áhersla á að skriftarkennsla og þjálfun verði ríkari þáttur í stafainnlögn og fái þar meira svigrúm. Flestir nemendur geta auðveldlega lært að þekkja útlit og hljóð tveggja bókstafa á viku þannig að þeir geti lesið stafina og notað í einföld orð en öðru máli gegnir um það að læra að skrifa stafina. Til þess þurfa nemendur meiri leiðsögn, þjálfun, upprifjun og eftirfylgni. Stafainnlögn telst því í raun ekki lokið fyrr en nemendur þekkja útlit allra bókstafa, hljóð þeirra og geta dregið þá rétt til stafs á sjálfvirkan og nákvæman hátt. Þá eru þeir komnir með forsendur til að geta umskráð (lesið) og skráð (ritað) á árangursríkan hátt. Námsefnið er unnið út frá Aðalnámskrá grunnskóla 2011/2013 en í hæfniviðmiðun ritunar í íslensku kemur m.a. fram að við lok 4. bekkjar geti nemandi dregið rétt til stafs og skrifað skýrt og læsilega. Hugtök í skriftarkennslu og skriftarnámi Í öllu námi þurfa nemendur að tileinka sér fjöldann allan af hugtökum til að verða færir um að ræða um námið sitt. Þar er skriftarnámið engin undantekning og óhjákvæmilegt að hugað sé markvisst að því að kenna nemendum lykilhugtök strax í byrjun til að tryggja að þeir skilji leiðbeiningar kennara og geti nýtt sér endurgjöf hans. Hugtök sem notuð eru í tengslum við innlögn stafdrátts eru nefnd sérstaklega í upphafi leiðbeininga með hverjum og einum bókstaf. Þetta eru hugtök eins og hástafur, lágstafur, broddstafur, broddur, depill, belgur, undirleggur, yfirleggur, grunnlína, miðlína, undirlína og yfirlína. Yfirlit yfir stafdrátt allra bókstafa Fremst í nemendabókunum er stafdráttur allra bókstafa, bæði hástafa og lágstafa, sýndur. Á yfirlitinu eru örvar sem sýna röð aðgerða við stafdrátt en fjöldi örva ræðst af því hversu margar blýantsstrokurnar eru og hversu oft þarf að lyfta skriffæri til að mynda bókstafinn. Það er mikilvægt að kynna þessa opnu fyrir nemendum og benda þeim á að gott sé að flletta á hana ef þeir þurfa að rifja upp hvernig á að draga til einstaka bókstafa. Vakin er athygli á því að bókstafirnir (Áá, Íí, Óó, Úú, Éé, Ýý) eru broddstafir og leggja skal áherslu á að byrja neðst á broddinum og draga hann upp frá bókstafnum. Ef dregið er frá staf og upp hefur nemandinn stafinn til viðmiðunar og broddurinn lendir þá fyrir ofan réttan staf en ekki á staf við hliðina eða langt fyrir ofan. Þannig eru einnig meiri líkur á því að broddur snúi rétt og að hann fái form eins og broddur en ekki eins og komma, sem dregin er niður. Inngangur

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=