Sköpun - Ritröð um grunnþætti menntunar
SKÖPUN 50 keppni eða leikverkum. Um leið og þessir nemendur fá að njóta reynslu sinnar og færni þarf að gæta þess að aðrir sem ekki eru jafn sterkir á svellinu fái líka notið sín. Bregðast má við kynjaslagsíðu í námsvali eða nálgun og ýta undir nemendur með ýmsu móti. Til að hver og einn geti fundið sína fjöl og dýpkað kynni sín af margs konar námi í skapandi greinum er mikilvægt að börn eigi kost á fjölbreyttu og metnaðar- fullu námi innan skóla og utan. Margir skólar gæta þess líka vel að gera framlagi nemenda á þessu sviði hátt undir höfði. Víða koma nemendur reglulega saman, jafnvel í hverri viku, til að njóta samvista og koma fram. Nemendur þurfa að sýna ábyrgð við undirbúning og þeir þjálfast í að tjá sig og túlka efni á sviði. Sums staðar er söngur í öndvegi en einnig má æfa saman leikþætti eða samtöl, lesa upp ljóð og sögur, flytja frumsamið efni, dansa, fara í leiki, kynna íþróttir, leika á hljóðfæri, beina athygli að handverki og sýna myndverk. Hafa strákar og stelpur ólíkar hugmyndir um sköpun? Með einfaldri aðferð má fá nemendur til að velta fyrir sér áhuga á sköpun eftir einstaklingum og kyni. Nemendur eru beðnir að skrá á tvo miða hvers konar skapandi vinnu þeir vilja helst fást við, eitt atriði á hvorn. Þeir koma upp, segja frá og festa upp miðana, stelpur til vinstri, strákar til hægri. Niðurstöðurnar má ræða frá ýmsum hliðum, meðal annars kynjahalla og uppruna staðalímynda. Þessu má fylgja eftir með leik þar sem nemendur skrifa á tvær blöðrur atriði sem þeir telja að standi í vegi fyrir skapandi starfi í skólanum. Blöðrurnar má binda við ökkla og biðja nemendur að ryðja hindrunum úr vegi með því að sprengja blöðrurnar hver fyrir öðrum. Í lokin má varpa fram spurningum um hvernig nemendur telja að efla megi skapandi starf í skólanum svo og spurningum sem lúta að kynjahalla og uppruna staðalímynda í tengslum við listir og sköpun, ræða hag af því að vinna gegn þeim og kalla eftir hugmyndum um hvernig standa mætti að því. Önnur leið er að beina sjónum út á við. Nemendur gætu skoðað verk karla og kvenna í listalífi og umfjöllun um þau. Rýna má í verkin, kynningu á þeim eða leita uppi gagnrýni um myndlistarsýningar, tónleika, tónlistarútgáfu, skáldverk, leiksýningar, dans eða kvikmyndir og greina með kynjagleraugum. 41 Einnig mætti skoða áhugaverðar sýningar og listaverk sem hefur sérstaklega verið beint gegn staðalmyndum. 42
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=