Sköpun - Ritröð um grunnþætti menntunar

SKÖPUN 22 skrípi, langlokur, tungubrjótar, þulur, rím, djamm, spuni, keðjusöngvar, druslur (veraldlegir textar við sálmalög) og annað í þeim dúr geta gætt kennslustofuna óvæntu lífi og vakið alls konar hugrenningar. Uppistand og ljóðaslamm, laga- smíðar og lygasögur, öfugmæli og uppnefni, orðasull og söngvamall, það er af nógu að taka! Frumleiki Að vera frumlegur er að gera eitthvað nýtt sem ekki hefur verið gert áður eða að gera eitthvað gamalt með nýjum og ferskum hætti – að fara út fyrir mörk þess sem er þekkt eða hefðbundið og rífa sig úr viðjum vanans. Horfa má á hugtakið frumleika út frá einstaklingnum sjálfum og leitast við að meta hvort nemandinn sé að ögra sjálfum sér í verkefninu. Jafnvel þótt framlag hans sé ekki frumlegt eða frjótt í sögulegu eða samfélagslegu samhengi getur það haft mikið gildi fyrir tiltekinn einstakling eða hóp. Í nýsköpunarmennt er gjarnan miðað við að verk hafi nýsköpunargildi fyrir höfundinn, skólann eða samfélagið. Verkið getur haft þýðingu og búið yfir frumleika fyrir þann sem vinnur það, í skólanum þar sem það var unnið, í heimabyggð, á landinu öllu eða á heimsvísu! Til að ýta við ímyndunaraflinu getur verið gott að búa til þrönga ramma, jafnvel svo nemandanum sýnist ómögulegt að leysa verkefnið og sjái nánast enga leið til þess í fljótu bragði. Sem dæmi má nefna að búa til 10 ólík mynstur á einum klukkutíma með því einu að klippa í sundur og líma saman svartköflóttan efnisstranga. Að koma með tillögu að mörgum mismunandi uppskriftum sem byggjast eingöngu á hráefni úr heimabyggð. Að yrkja ljóð þar sem öll orðin byrja á a, að teikna með eins og hálfs metra langri bambusstöng, að leika búrhval, lýsa sögupersónu með hljóðum, stýra þjarki með einföldum skipunum eða mála mynd af myrkrinu. Safna má stikkorðum í þrjár skálar, persónum í eina, atburðum í aðra og stöðum í þá þriðju. Láta svo nemendur draga einn eða tvo miða úr hverri skál og búa til munnlega frásögn, semja leikrit, teikna myndasögu eða skrifa stutta spennusögu. Kennari ætti við undirbúning ekki að útiloka neitt fyrir fram heldur kalla fram í hugann sem flesta möguleika sem seinna má vega og meta.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=