Sköpun - Ritröð um grunnþætti menntunar

Grunnþættir menntunar 19 Oft er litið svo á að sköpunarferlið sé samsett úr tveimur þáttum. Annar þátturinn felur í sér að kanna eðli hluta og gaumgæfa tengsl, kalla fram marga möguleika, nota ímyndunaraflið til að sjá nýjar og frumlegar leiðir og tengja saman óvænta hluti. Að sýna forvitni og leita eftir áhugaverðum möguleikum af vakandi athygli; þyrla upp margs konar hugrenningum, leiðum, tilfinningum og kveikjum; gera tilraunir og kanna sviðið. Hinn þátturinn felur í sér að taka skref til baka, virða fyrir sér verkið, sjá gildi þess miðað við það sem þegar hefur verið gert, setja hlutina í samhengi og velja úr það sem er áhugavert, nýtilegt, frumlegt eða skemmtilegt; að sjá hverju rétt sé að hafna og hvernig eigi að halda áfram, að horfa gagnrýnum augum á hugmyndina eða verkið. Oftast þarf að fara mörgum sinnum í gegnum hvorn þátt fyrir sig og slípa verkið þar til það er fullgert. Í sköpun sveiflast hugurinn milli margs konar hugs- ana; stundum eru þær ómeðvitaðar og byggjast á innsæi, flæði, óreiðu og ímynd- unarafli. Svo eru aðrar sem reyna meira á rökhyggju og aðferð, þekkingu og tækni, gagnrýna og skipulega hugsun. Framkvæmdin sjálf gerir líka kröfur til okkar, hún getur kallað á mikla þjálfun í ákveðnum leiðum eða aðferðum, góðan efnivið, verkfæri og verklag, þekkingu á viðfangsefninu, svigrúm, leiðsögn og stuðning. Hægt er stuðla að sköpun með ýmsum ráðum og leggja þar tiltekin skref eða ferli til grundvallar. Hins vegar er tæpast hægt að ýta undir eða kenna sköpun eina og sér án tillits til viðfangs. Sköpunin er samofin lífi og starfi og snýst um ótal úrlausnarefni. Oft byggist hún líka á þekkingu, sjónarmiðum, aðferðum og leiðum sem marka tiltekið svið, hvort sem um er að ræða dans, myndlist, smíðar, leiklist, matreiðslu, byggingarlist, textíl, móðurmál eða tónlist. Stundum leita skólar til listamanna eða ráðgjafa af ýmsu tagi eftir samstarfi um skapandi viðfangsefni. Í einu slíku tilviki var keppikeflið að láta nemendur, sem margir bjuggu við litlar væntingar og takmörkuð tækifæri heima fyrir, finna til aukinnar ábyrgðar á eigin menntun. Eitt af því sem lá fyrir í skólanum var að reisa nýja kennslustofu og spurt var hvort ekki mætti leyfa nemendum að kljást við þetta verkefni. Eftir töluverðar vangaveltur ákváðu nemendur að nýja stofan ætti að vera í aflagðri farþegaflugvél fyrir utan skólann. Allir unnu saman. Sjötti bekkur átti í bréfaskiptum við yfirvöld, fann eyðu- blöðin á netinu, aflaði sér upplýsinga og fékk tilskilin leyfi hjá bæjaryfirvöldum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=