Sköpun - Ritröð um grunnþætti menntunar

Grunnþættir menntunar 13 Fyrir einstaklinginn Með því að vera skapandi í störfum sínum og tómstundum, hvert svo sem starfið er, getur fólk öðlast fullnægju og lífsgleði. Og hver og einn hefur tækifæri til að finna hæfileikum og sérstöðu sinni farveg. Slökkviliðskonan, áhugamálarinn, tölvunarfræðingurinn, prjónakarlinn, táknmálstúlkurinn, spretthlauparinn, rit- stýran eða bakarinn; allir geta haft bæði gagn og gaman af sköpun í leik og starfi. Fyrir flesta skiptir miklu að finna fjölina sína og þroska með sér þá hæfileika sem hver og einn býr yfir, sama á hvaða sviði þeir eru. Sú óánægja og togstreita sem getur grafið um sig þegar fólk fær ekki að blómstra í því sem það gerir best getur leitt til flókinna vandamála. Getur verið að deyfð og depurð eigi sér stundum rætur í því að fólk finnur ekki það sem vekur áhugann og gleðina og finnst það ekki hafa burði til að bera sig eftir því? Amma kenndi mér að prjóna. Prjón var kennt í grunnskóla og það skipti mig miklu að geta búið eitthvað til með höndunum. Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla var hins vegar eins og fótunum hefði verið kippt undan mér. Ég gat ekki notað það sem ég elskaði að gera. Það voru engir framhaldsskólar sem lögðu áherslu á að vinna með höndunum. Það var ekki fyrr en ég fór í framhaldsnám í New York sem ég náði mér á strik aftur og þá varð það í gegnum prjónið sem ég varð fyrirmyndarnemandi á ný. Ég vann öll verðlaun sem hægt var, fékk mitt fyrsta starf af því að ég kunni að prjóna. Það að prjóna hefur komið mér í gegnum lífið og gert mig að því sem ég er í dag. Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður Ég held að leiklist, tónlist, dans, öll listvinna með krökkum geti jafnvel bjargað mannslífum. Á hverju ári sé ég krakka, sem ekki hafa staðið vel að vígi námslega eða félagslega, blómstra í leiklistinni. Þá uppgötva þau hæfileika sem þau vissu ekki að þau hefðu. Þau gersamlega breytast. Sjálfsmatið eykst, sjálfsskilningurinn eykst. Allir krakkar hafa einhverja hæfileika en það er spurning um að hjálpa þeim að finna þá. Og ég hef séð að krakkarnir sem eru mest í leiklistinni hjá mér bæta sig í öðru námi líka. Og það hefur komið á óvart. En um leið og áhuginn kviknar eykst þér kraftur til að takast á við önnur viðfangsefni. Sigríður Birna Valsdóttir, leiklistarkennari í grunnskóla

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=