Skapandi dans - Handbók fyrir kennara
24 Hvert er nafn mitt? Þessi leikur er tilvalinn fyrir hóp sem þekkist ekki vel; leikur- inn hristir hann saman. Nemendur dreifa sér um rýmið og reyna að fylla upp í allt auða svæðið í kennslustofunni. Allir ganga um rýmið og heilsa hver öðrum með handabandi, horfast í augu og segja hver öðrum nafn sitt. Þeir eiga síðan að bera nafn þess sem þeir tóku í höndina á. Dæmi: Kalli heilsar Lottu. Kalli segir við Lottu: „Kalli!“ Og hún svarar: „Lotta!“ Þá heitir Kalli Lotta og Lotta heitir Kalli. Kalli heilsar síðan Helga. Kalli segir: „Lotta!“ Helgi segir kannski: „Sara!“ enda er hann kominn með nýtt nafn. Þá heitir Kalli Sara og Helgi Lotta. Þegar Kalli hefur fengið sitt eigið nafn aftur sest hann niður, við vegg í kennslustofunni. Markmiðið er að allir fái sitt nafn aftur en til þess þarf hópurinn að vinna saman semheild. Nemendur vinna leikinn ef allir fá sitt eigið nafn aftur. Ef einhver gleymir því nafni sem hann fékk, sem er mjög líklegt, þarf hann að segja hátt og snjallt, glaður í bragði: „Ég gerði mistök!“ eða „Mér varð á!“ eða „Ég ruglaðist!“ Hópurinn á þá að klappa fyrir þeim aðila eins og hann hafi verið að vinna Nóbelsverðlaunin eða Óskarinn. Þá byrjar leikurinn upp á nýtt og allir aftur með. Ef nemendur eiga í erfiðleikum með að klára leikinn reynir kennarinn að stöðva hann og ræða við nemendur um hvort þeir geti fundið leið til þess, hvort þeir séu með einhver ráð. Ráð sem mætti stinga upp á er að um leið og nemendur hafa fengið nýtt nafn endurtaka þeir það í huga sér í sífellu þangað til þeir heilsa þeim næsta. Auðveldara er að vera sá sem byrjar að segja nafnið sitt. Aldursstig: 1.–10. bekkur Markmið æfingarinnar er að: − auka samvinnu nemenda. − breyta neikvæðri reynslu í jákvæða. − auka þekkingu nemenda á nöfnum samnemenda sinna.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=