Skapandi dans - Handbók fyrir kennara
9 Samantekt Þau fræði sem hér hefur verið rætt um virðast samtengd á einn eða annan hátt. Þeir fræðimenn sem skoðaðir hafa verið hafa sótt innblástur hver til annars en líkaminn og færni hans er meginviðfangsefni þeirra allra, ásamt mikilvægi hreyfingar og hvernig hún mótar skilning okkar á umheiminum. Hreyfing er okkur lífsnauðsynleg, hún gerir okkur kleift að skilja heiminn, okkur sjálf og aðra. Í kjarna okkar býr meðfædd þekking sem við bætum við í gegnum líkamlega reynslu okkar. Þessa þekkingu getum við treyst á. Megináhersla handbókarinnar liggur þarna. Að hjálpa nemandanum að átta sig á því hvers hann er megnugur. Að hann sé nóg. Að hann búi yfir þekkingu og reynslu sem hann getur nýtt í sköpun sinni. Að hann fái tækifæri til þess að tengja námsefnið við eigin reynslu þannig að það verði honum merkingabært. Til þess þarf kennarinn að vera meðvitaður um mikilvægi fundinnar skynjunar innra með nemandanum en þar býr þekking hans og reynsla. Kennarinn þarf að leiðbeina nemandanum í að virkja allan líkamann og sjá hann sem eina heild. Líkaminn er aðalverkfærið í dansi og nám í dansi fer fram í gegnum hann. Það að hreyfa sig, hlusta, skynja og ígrunda gefur nemendum færi á að dýpka skilning sinn á dansi. Þeir gætu ekki notað líkamann á þennan hátt ef það væri ekki fyrir samband hugar og líkama. Í skapandi dansi er nauðsynlegt fyrir nemendur að skilja þau hugtök sem beitt er með líkamanum í heild sinni; með líkama, huga og sál. Í skapandi dansi þarf kennarinn að gefa nemendum frelsi til þess að skapa innan ákveðins ramma sem hann setur þeim þannig að þeir fái tækifæri til að uppgötva námsefnið í gegnum persónulega reynslu. Dans er margslungin listgrein og nemendur í dansi geta öðlast margs konar færni. Í dansi geta þeir upplifað persónulegan vöxt og uppgötvað ýmislegt nýtt um sjálfa sig, jafnvel eitthvað sem þá hefði ekki órað fyrir. Í dansi gefst nemendum færi á að nýta ímyndunaraflið og sköpunarkraftinn sem í þeim býr. Hver nemandi kemur með eigin séreinkenni að borðinu og er hluti af sköpuninni í dansi. Það mætti segja að þeir væru sjálft sköpunarverkið. Skapandi dans er afar gagnlegt verkfæri í dansnámi sem gefur nemendum færi á að öðlast dýpri skilning á sjálfum sér og umhverfi sínu, sjá og skilja aðra og upplifa samkennd. Í skapandi dansi læra nemendur fyrst og fremst í gegnum eigin líkama þannig að tengsl þeirra við námsefnið verða sterk og skilningur á því eflist á áhrifaríkan hátt. Það ætti að nýta skapandi dans í mun meira mæli í námi allra barna.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=