Skapandi dans - Handbók fyrir kennara

133 Allir með Til þess að auka einbeitingu nemenda sem eru ekki vel stemmdir fyrir nám af einhverjum ástæðum er hægt skipa þeim í ákveðin hlutverk sem þeim ber að taka alvarlega og sinna af ábyrgð. Þannig má stuðla að því að þeim finnist þeir skipta máli í hópnum og verði virkari þátttakendur í kennslustundinni. Hér koma hugmyndir að nokkrum slíkum hlutverkum. Plötusnúður aðstoðar kennarann við að stjórna tónlistinni í kennslu- stundinni. Hlutverk hans gæti verið að kveikja á henni og slökkva, velja lög eða setja saman óskalagalista hópsins. Vitni fylgist með kennslustundinni. Hann fær það hlutverk að skrifa niður eða teikna það sem honum þykir áhugavert. Það má segja að hann verði augu og eyru hópsins. Í lok kennslustundar deilir hann því sem hann komst að með kennara og/eða samnemendum. Þúsundþjalasmiður er aðstoðarmaður kennarans. Hann aðstoðar t.d. við að undirbúa rýmið fyrir kennslu, raða stólum og færa borð eða sækja gögn. Kennarinn getur kallað hann til aðstoðar eftir þörfum. Regluvörður sinnir því hlutverki að fylgast með hvort nemendur fylgi sameiginlegum reglum hópsins, Manífestóinu (sjá bls. 35), á meðan á kennslustund stendur. Regluvörðurinn fær í hendur þrjú spjöld: grænt, gult og rautt sem hann heldur uppi þegar við á. Grænt merkir að öllum reglum sé fylgt, gult er viðvörun um að einhver sé á gráu svæði og rautt merkir að regla hafi verið brotin. Ef rauða spjaldið fer upp getur kennarinn annaðhvort stoppað kennslustundina og spurt hvað sé í gangi eða beðið regluvörðinn að skrifa athugasemd niður á blað. Kennarinn getur síðan minnst á athugasemdina í lok tímans eða upphafi þess næsta ef þurfa þykir. Tímavörður fær það hlutverk að fylgjast með tímanum. Hann getur tekið tímann á einstökum æfingum og/eða látið vita þegar kennslustund fer að ljúka, til dæmis þegar fimm mínútur eru eftir og tími er kominn fyrir slökun.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=