Skapandi dans - Handbók fyrir kennara

132 Hópaskipting Ýmsar leiðir eru færar til þess að skipta nemendum upp í hópa. Hér koma nokkrar hugmyndir. Töluleikur Nemendur ganga um rýmið. Kennari nefnir tölu og þá eiga nemendur að vera eins fljótir og þeir geta að mynda hópa með þeim fjölda sem nefndur var. Kennarinn getur notað mismunandi tölur eða sömu tölu oftar en einu sinni. Þetta má gera í nokkur skipti og ákveða síðan á einhverjum tíma- punkti að halda hópunum sem myndaðir voru í hópverkefni. Kennarinn þarf að vera búinn að reikna út hve margir geta verið í hóp þannig að enginn verði út undan. Gulur, rauður, grænn og blár Kennarinn réttir nemendum spjöld í mismunandi litum eða lætur þá draga. Þeir nemendur sem fá sama lit verða saman í hóp. Íspinnaprik Kennarinn skrifar nöfn nemenda á íspinnaprik eða á miða. Hann setur prikin í poka og dregur sjálfur hópa eða fær nemendur til þess. Prikin má einnig nota til þess að stjórna umræðum. Þá réttir kennarinn fram prik með nafni þess sem fær orðið eða þess sem á að svara ákveðinni spurn- ingu. Nemendur eiga að hafa möguleika á að segja pass.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=