Skapandi dans - Handbók fyrir kennara

119 Að skapa sinn eigin dans Aldursstig: 1.–10. bekkur. Markmið æfingarinnar er að auka: − leikni og skilning nemenda að taka þátt í skapandi ferli. − hæfni nemenda til að skapa sjálfir. − skapandi hugsun og notkun ímyndunaraflsins. − leikni nemenda í að nýta sér ólík verkfæri í sköpun. Að semja dans vefst oft fyrir mörgum og margar spurningar vakna. „Hvernig á ég að byrja? Hvað á ég að gera? Hvaðan fæ ég innblástur? Hvaða hreyfingar á ég að nota? Hvernig er uppbygging í dansverki? Eru einhverjar reglur sem þarf að fylgja?“ Ef nemendur fá frjálsar hendur til þess að skapa á eigin forsendum eru í raun engin fyrirmæli sem þarf að fylgja og hafa þeir því vald til að gera hvað sem er. Stundum er gott að hugsa um góða sögu eða bíómynd til þess að gera nemendum það skiljanlegt að gott er að hugsa um upphaf, miðju og endi í verkinu sjálfu. Hægt er að endurtaka upp- röðunina og leika sér með dramatúrgíuna. Sumum finnst auðveldara að hafa rauðan þráð eða þema sem gengur í gegnum allt verkið og gefur því heildrænan svip. Þetta fer samt alfarið eftir listamanninum. Nokkur dæmi sem gætu veitt nemendum innblástur til þess að skapa sinn eigin dans: — að skoða önnur listaverk; málverk, ljóð, lagatexta, tónlist o.s.frv. — að semja dans við uppáhaldslagið sitt. — að semja dans út frá eigin ljóði. — að nýta sér frjálsan spuna og leyfa líkamanum að hugsa og finna nýtt hreyfimynstur. — að setja sjálfum sér ákveðin fyrirmæli sem á að fylgja (spuna-reglur). — að taka sjálfa/n sig upp og nýta hreyfingar. — að búa til eigin sögu og segja frá henni í hreyfingu. — að nota leikmuni til þess að skapa hreyfingar. Nemendur gætu nýtt sér persónulega hluti og tengslin við þá sem innblástur. — að vinna í samstarfi við aðra nemendur. Nemendur geta til dæmis skipst á að sýna hver öðrum hreyfingar sem hægt væri að setja í dans. Einn gæti tekið að sér að vera danshöfundurinn og væri því ábyrgur fyrir því að púsla hreyfingunum saman. — að nota dans sem maður kann nú þegar og breyta eiginleikum hreyfinga og uppröðuninni. — að fylgjast með fólki hreyfa sig og fá hreyfingar þess að láni. Möguleikarnir eru í raun endalausir.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=