Skapandi dans - Handbók fyrir kennara

106 Taktur Til er jafn og óreglulegur taktur. Hægt er að finna hvort takturinn sé jafn eða óreglulegur til dæmis með því að taka púlsinn okkar. Í raun erum við alltaf að halda takti því hjarta okkar er alltaf að dragast saman og fyllast af blóði til skiptis og það köllum við hjartslátt. Við erum því gangandi taktur. Taktur í dansi er mynstur hreyfinga og getur verið á mismunandi hraða. Algengt er að talið sé frá einum og upp í átta í dansi, og kallast það átta. Gagnlegt er að kynna nemendur fyrir hugtakinu og leyfa þeim að æfa sig til dæmis með því að semja spor fyrir hvern takt, átta ólík spor. Kennarinn getur líka beðið nemendur að semja lengri dans sem er til dæmis sex áttur. Nemendur telja þá: „1-2-3-4-5-6- 7-8, 2-2-3-4-5-6-7-8, 3-2-3-4-5-6-7-8, 4-2-3-4-5-6-7-8, 5-2- 3-4-5-6-7-8, 6-2-3-4-5-6-7-8“. Fyrsta talan sem nefnd er í hverri áttu gefur til kynna á hvaða áttu nemendur eru komnir og auðveldar þeim að fylgjast með. Þegar nemendur hafa náð tökum á þessu getur kennarinn farið að kynna nemendur fyrir flóknari og ólíkum talningum. Kennarinn getur til dæmis gert það með því að kynna nemendum fyrir fjölbreyttri tónlist með ólíkan rytma. Tónlist getur verið allskonar og það gæti verið ráðlagt fyrir nemendur að hlusta og telja taktinn í tónlistinni ef þeir ætla að semja við ákveðið lag. Kennarinn getur einnig leyft nemendum að spila á hljóðfæri þar sem þeir skapa sinn eigin takt og kennt nemendum ýmsar útfærslur af kroppaklappi. Annars geta nemendur líka hlustað og dansað við sinn eigin andardrátt og skapað eigin hljóð í staðinn fyrir að nota tölur til þess að skapa takt.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=