Skapandi dans - Handbók fyrir kennara

5 Gilbert byggir kennslufræðilega nálgun sína einnig á John Dewey og kenningum hans um það að læra í gegnum eigin reynslu. Nám á sér stað þegar nemandinn er virkur og prófar af sjálfsdáðum. Gilbert leitar jafnframt í smiðju Maxine Greens, heimspekings í kennslufræðum, og Lev Vygotskys, sálfræðings og kennara sem setti fram kenninguna um svæði mögulegs þroska (e: Zone of Proximal Development ) sem fjallar um samhengi milli náms og þroska barna. Gilbert fékk þar að auki inn- blástur frá Irmgard Bartenieff, fyrrum nemanda Labans, en hún er upp- hafsmaður sómatískrar tækni sem kallast Bartenieff ℠ (BF), og frá Bonnie Bainbridge Cohen, sem skapaði Body, mind, centering® (BMC), en það er einnig sómatísk tækni (Aubrey og Riley, 2016; Gilbert, 2019). Sóma- tískar 1 aðferðir fjalla um að vinna út frá færni líkamans og skynja innra landaslag hans, ásamt því að auka líkamsmeðvitund. Gilbert er einnig þekkt fyrir að vera upphafsmanneskja svokallaðs hugardans ( e: BrainDance ), sem hún byggir á sómatískri tækni. Hugar- dans er upphitunaræfing sem byggist á þeim átta hreyfimynstrum sem barn fer í gegnum á fyrstu árumævi sinnar. Gilbert leggur áherslu á mikil- vægi sambands hugar og líkama en í hugardansi er allur líkaminn hitaður upp sem og heilinn. Hún vill að nemendur virki bæði skynjunar- og rök- hugsunarhluta heilans í kennslustundum sínum (Gilbert, 2019; Lobel og Brodie, 2006). Gilbert segir skapandi dans vera dansform þar sem áhersla er lögð á hreyfingu sem tjáningu þar sem nemandinn fær frelsi til þess að nálgast námsefnið út frá eigin færni. Hún leggur líka áherslu á mikilvægi kennarans og að kennsla sé ákveðið listform. Kennarinn þarf að skapa aðstæður til náms sem heldur öllum nemendum við efnið. Gilbert talar um að besta leiðin til að læra skapandi dans sé í gegnum hugtakavinnu og það að líkamna hugtökin. Hún leggur áherslu á orðforða í dansi svo nemendur geti orðað hugsanir sínar og tjáð sig um það sem þeir eru að gera. Hún talar einnig um mikilvægi þess að nemendur læri með öðrum og í gegnum aðra. Þeir eiga að sjá hver annan, snerta, á viðeigandi hátt, og tala saman. Gilbert leggur mikið upp úr því að nemendur noti skyn- færin, en þá eigi meira nám sér stað og dýpri skilningur myndist á efninu. Gilbert segir ígrundun mikilvæga meðan á kennslu stendur og hún fari fram munnlega, með því að horfa, hlusta og sýna/gera hreyfingu. Hún leggur áherslu á uppbyggilega gagnrýni, hrós og að kennarinn lýsi því sem hann sér. Hann getur notað myndrænar útskýringar og orðaspjöld með hreyfihugtökunum í kennslustundum til þess að ná til sem flestra nemenda. Fyrirmyndarkennarann telur hún vera leitandi og stöðugt tilbúinn til að læra eitthvað nýtt (Gilbert, 2015; Joyce, 1980). 1 Sómatísk fræði eru ekki til opinberlega í íslensku máli en í þessu samhengi er átt við fræði sem einblína á líkamann, reynslu hans og innri líkamlega skynjun. Áhersla er lögð á að vinna út frá færni líkamans og auka líkamsmeðvitund einstaklings (Lobel og Brodie, 2006, bls. 69).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=