Skali 3b kennarabók
V Um Skala Með námsefninu Skala leitast höfundar við að skapa nemendum tækifæri til að læra stærðfræði á fjölbreytilegan og uppbyggilegan hátt. Námsefnið byggist bæði á samvinnunámi og einstaklingsmiðuðu námi. Höfundar telja að margbreytilegar aðferðir muni hvetja fleiri nemendur til virkrar þátttöku í eigin stærðfræðinámi. Stærðfræði er skapandi grein, byggð á fræðilegu og ströngu kerfi; jafnframt er hún rökrétt og innihaldsrík. Til að vera góður í stærðfræði þarf maður að geta rökrætt, íhugað, deilt hugmyndum með öðrum, séð hið almenna í hinu sérstaka og farið frá hinu þekkta til hins óþekkta. Stærðfræði er hagnýt fræðigrein sem gefur færi á mismunandi túlkunum; hún er því í stöðugri þróun: Nýjar kenningar bætast við og eru teknar í notkun en gömlu kenningarnar halda samt sem áður gildi sínu. Nýju kenningarnar eru viðbætur og koma ekki í stað þess sem fyrir er. Stærðfræði fjallar um mynstur, tengsl og kerfi og býr yfir mjög öguðu tungutaki. Í Skala er lögð sérstök áhersla á þrjú atriði: • Að nemendur fáist við fjölbreytileg og hagnýt verkefni þar sem tækifæri gefst til að rannsaka og skapa. • Að nemendur öðlist sameiginlega námsreynslu sem feli jafnframt í sér einstaklingsmiðað nám. • Að grundvallarleikni og fagleg framvinda námsins séu höfð að leiðarljósi í samræmi við námskrá. Í námsefninu Skala myndast, eftir því sem á líður, brú frá hinu hagnýta, rannsakandi og skapandi starfi yfir í meiri áherslu á hið sértæka námsefni. Námsþættirnir eru oftast kynntir til sögunnar á hlutbundinn hátt en sjónum er síðan smám saman beint meira að hinu óhlutbundna og formlega. Uppbygging námsefnisins, þar sem skiptast á hlutbundin verkefni annars vegar og æfingar í staðreyndaþekkingu og leikni hins vegar draga vel fram tengslin milli faglegs skilnings, leikni í faginu og notkunar þess. Hlutbundnu verkefnin auka skilning nemenda á helstu námsþáttum, sem kaflarnir fjalla um, og jafnframt upplifa nemendur að þeir geta notað stærðfræðilega þekkingu sína og leikni við hvers- dagslegar aðstæður.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=