76 Hafðu í huga Gott er að kennari lesi tilvikin upp fyrir hópinn. Eftirfarandi punkta má nota til að örva umræðu með nemendum um tilvikin: Afurð Kennari hefur val um tvær (eða fleiri) leiðir að afurð: + Hvað er skoðun, hvað er gagnrýni, hvað er hatursorðræða. Af hverju? Hvar liggja mörkin? + Hvaða skoðanir, gagnrýni eða orðræðu á að leyfa? Af hverju? + Ætti að banna ákveðnar skoðanir, hugmyndir, gagnrýni eða orðræðu? Af hverju? Af hverju ekki? + Hvenær er rétt að setja tjáningarfrelsinu hömlur og hvernig má koma í veg fyrir ritskoðun? + Skiptir máli hvort það er almenningur eða stjórnvöld sem beita sér þegar ummæli eða hegðun gengur fram af þeim? A. Bekkjarumræður. Kennari getur notað tilvikin í þessu verkefni sem undirstöðu fyrir samræður í kennslustund. Gott er að nemendur sitji saman í hring og er hægt að fara í gegnum hvert atriði fyrir sig. Hægt er að lesa eitt tilvik, heyra hugmyndir nemenda um það og hvaða afleiðingar þeim þættu eðlilegar. Lesa svo afleiðingarnar og heyra hvað nemendum finnst um þær og gera þeim að endingu grein fyrir viðbrögðunum. Þá má nýta umræðupunktana úr Hafðu í huga. B. Umræðuhópar. Kennari les upp eitt tilvik í einu fyrir bekkinn og nemendur ræða það í minni hópum út frá umræðupunktunum. Hóparnir gera grein fyrir niðurstöðum sínum. C. Höfuð – hjarta – samviska. Nemendur geta gert stutta ritun eða tekið upp munnlega ígrundun um valin tilvik með eftirfarandi kveikjur í huga: + Höfuð: Hvaða pælingar vöknuðu upp hjá þér? Hvaða spurningar hefur þú? + Hjarta: Hvaða tilfinningar vöknuðu hjá þér? Hvað stendur upp úr hjá þér? + Samviska: Vöknuðu spurningar um réttlæti og ranglæti hjá þér?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=