Sjálfbærni

21 Tungumálið er ein mikilvægasta leiðin til tjáningar en þegar margbreytileikinn eykst er einnig mikilvægt að muna að við getum stuðst við ýmsar aðrar leiðir. Til dæmis fara samskipti ungs fólk mikið fram á netinu eða í gegnum samfélagsmiðla þar sem hljóð- og myndefni skipar stóran sess í tjáningu og samskiptum. Kannski er ein leið til þess að skapa tengsl og vináttu við þau sem tala ekki sama tungumál og við sjálf í gegnum myndir, tónlist, myndbönd eða samfélagsmiðla. Mynd getur jú sagt meira en þúsund orð! Læra má ýmislegt af þeim sem ferðast um heimsins höf og lönd og kynnast ólíkum lífsháttum og alls konar fólki. Oft má greina af samantekt þeirra á reynslu sinni að það sé svo undarlegt að mannfólkið sé í grunninn eins, hvert sem komið er og hverjar sem aðstæður þess eru. Menningarlegur margbreytileiki þýðir líklega þegar upp er staðið að við erum á sama tíma öll eins og öll ólík. Við höfum öll það sem þarf til að mynda góð tengsl okkar á milli sem byggjast á virðingu hvert fyrir sérkennum annars. Að kynnast og jafnvel eignast vini felur ekki í sér að einhver þurfi að laga sig að öðrum og breytast heldur einmitt að allir fái að njóta sín til jafns út frá sínum sérkennum og sérstöku sögu. Þegar við kynnumst sögu og sérkennum annarra lærum við svo margt hvert af öðru og skiljum sjálf okkur og aðra betur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=