102 Í þessum kafla verður fjallað um ósjálfbæra framleiðslu og neyslu. Farið verður yfir þær breytingar sem hafa átt sér stað á líferni okkar frá iðnbyltingunni og hvernig þær breytingar hafa áhrif á okkur í dag. Sögulegt samhengi neyslu og framleiðslu Framleiðsla og neysla í heiminum hefur breyst mikið á síðustu 200 árum. Breytingarnar má rekja til iðnbyltingarinnar, þegar fólk flutti úr sveitum í borgir og tækniframfarir voru gífurlegar. Á þessum tíma fór mannkynið að nota jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa í auknum mæli. Á stuttum tíma hefur meðal ævilengd manna í heiminum lengst um rúmlega 20 ár og dánartíðni barna hefur lækkað mikið. Auk þess lifa mun fleiri við velsæld nú en áður. Nú á dögum er mun auðveldara að nálgast allt sem hugurinn girnist og kröfur okkar hafa aldrei verið meiri. Á síðustu áratugum höfum við aukið framleiðslu og neyslu okkar óskaplega. Í þessari þróun hefur mannkynið gengið skarpt á auðlindir jarðar með ofnýtingu og mengun. Afleiðingar iðnbyltingarinnar á umhverfið og mannfólkið voru fæstum fyrirsjáanlegar á þeim tíma sem hún byrjaði en þær hafa á síðustu áratugum orðið æ sýnilegri (sjá kafla um loftslagsbreytingar). AÐ TAKA, BÚA TIL, NOTA OG HENDA Ósjálfbær neysla og framleiðsla haldast í hendur. Krafa um hagnað hefur knúið áfram ósjálfbærar aðferðir við framleiðslu. Framleiðendur velja gjarnan ódýrustu leiðina og því miður er hún oftast ekki sú sjálfbæra. Neysla fólks fyrr á tímum uppfyllti aðallega grunnþarfir eins og mat, drykk, húsnæði, klæði, svefnaðstöðu og læknisþjónustu. Í dag hafa flest okkar í ríku löndunum aðgang að öllum þessum grunnþörfum. Neyslan litast því meira af öðrum löngunum okkar, sem tengjast oftar en ekki áherslu samfélagsins á hagnað og ofneyslu. Það eru óraunhæfar kröfur til lengri tíma. Ósjálfbærar framleiðsluaðferðir og ofneysla valda loftslagshamförum, tapi á líffræðilegum fjölbreytileika og mengun. Tólfta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun gengur út á að við lærum af mistökum okkar og tryggjum ábyrga neyslu og framleiðslu sem fyrst. Með markmiðinu er ætlunin að fara betur með náttúruauðlindir jarðar, minnka matarsóun og efnamengun, stuðla að sjálfbærri starfsemi fyrirtækja og auka meðvitund fólks um það hvernig það getur lifað í sátt við náttúruna. Mikil áhersla er lögð á að rík lönd, eins og Ísland og hin Norðurlöndin, séu í fararbroddi breytinganna. Öll rík lönd í heiminum bera mikla ábyrgð á loftslags- vandanum vegna þess að þau menga langmest.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=