Sjálfbærni

1 SJÁLFBÆRNI

2

3 Sjálfbærni er lykilorð um okkar daga og alla framtíð. Síðustu aldir hefur mannkyn allt stórbætt eigin hag. Okkur hefur lánast að nýta auðævi jarðar í ríkari mæli en formæðrum okkar og forfeðrum tókst kynslóð fram af kynslóð, öld eftir öld, árþúsund eftir árþúsund. Við virkjuðum vatnsafl betur en áður. Við fórum að nýta gufuafl og rafmagn, jarðefni og jarðhita. Við beisluðum kjarnorku, bjuggum til plast og önnur gerviefni og gengum inn í stafrænan heim. Við höfum bætt heilsu og aukið velmegun um víða veröld. Um leið höfum við eflt algild mannréttindi, málfrelsi og trúfrelsi, ferðafrelsi og ástfrelsi. Mannanna láni er þó misskipt. Sum okkar njóta allra lífsins gæða, önnur búa við sult og seyru, harðstjórn og harðneskju. Og við höfum gengið nærri móður náttúru. Búskapur okkar á jörðinni er orðinn ósjálfbær, hann hefur leitt yfir okkur loftslagsvá og nú stefnir í óefni ef ekkert er að gert. Sjálfbærni mun ekki leysa allan okkar vanda en án sjálfbærni í orði og verki er voðinn vís. Öll getum við lagt okkar af mörkum,

4 öll munum við njóta góðs af framþróun á þessu sviði. Og öll eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun göfug og góð. Í markmiði 4 er sjónum beint að menntun fyrir alla, að öllum verði tryggður að- gangur að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi. Í lið 4.7 er vikið að sambandi sjálfbærni og menntunar. Að því er stefnt að fyrir árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífs- stíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mann- réttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar. Ég hvet ykkur öll til að fræðast um sjálfbært samfélag og sjálfbæran lífsstíl. Ekkert okkar er fullkomið, öll getum við alltaf gert betur, en ef við leggjum okkur fram er ótrúlegt hversu miklu fólk fær áorkað, hvert um sig og ekki síður í krafti fjöldans. Kveðja forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar

5 SJÁLFBÆR MENNTUN FYRIR ALLA Sjálfbærni er stærsta verkefni samtímans. Það felst í því að stuðla að sjálfbæru lífi á okkar litlu Jörð, þéttsetinni fólki og öðrum lífverum. Verkefnið snýst ekki um að finna leiðir til að margir geti komist af heldur að skapa aðstæður svo allar manneskjur geti lifað góðu lífi. Það snýst ekki um að viðhalda því hvernig fólk lifir í dag, við upphaf 21. aldarinnar, heldur snýst það um að skapa nýjan heim þar sem allt fólk fær tækifæri til að blómstra. Þetta markmið mun einungis nást ef við, mannfólkið, lærum að lifa farsællega hvert með öðru og með öðrum dýrum og náttúrunni í heild. Þegar sagt er að sjálfbært líf sé markmiðið, þá er ekki verið að tilgreina eitthvert vel skilgreint markmið. Sannleikurinn er sá að enginn veit hvernig sjálfbær heimur við upphaf 21. aldar lítur út. Enginn hefur kynnst slíkum heimi. Verkefnið framundan er að uppgötva nýja möguleika, læra að lifa og njóta með nýjum hætti, og um leið að aflæra margt sem okkur þykir bæði sjálfsagt og eðlilegt. Sem verkefni á sviði menntunar felur sjálfbærni í sér áskoranir sem menntakerfi og kennarar hafa aldrei áður staðið frammi fyrir. Í hefðbundinni menntun hefur hlutverk kennara verið að veita svör, miðla þekkingu hinna fullorðnu til nýrra kynslóða og temja hinum ungu siði og gildi þess samfélags sem hinir eldri hafa mótað. Í þessu hlutverki hafa kennarar verið dyggilega studdir af margvíslegu kennslu- efni, sem oftar en ekki er fullt af svörum. Nú hefur vefurinn bæst við sem nánast óþrjótandi brunnur svara (sem eru reyndar af misjöfnum gæðum og sum alveg út í hött). Núna stöndum við frammi fyrir því að hin hefðbundnu svör duga ekki lengur. Auðugu ríkin á Vestur- löndum, með sín frábæru menntakerfi, eru þau lönd Jarðarinnar sem valda loftslagi og vistkerfum heimsins hvað mestum skaða. Þetta eru líka ríkin sem viðhalda hvað dyggilegast misskiptingu í heiminum. Af þessu er ljóst að menntakerfi Vesturlanda verða að taka grundvallar- breytingum.

6 Árið 1966 skrifaði hagfræðingurinn, friðarsinninn, skólamaðurinn og heimspekingurinn Kenneth Ewart Boulding (1910–1993) grein sem hann kallaði „Hagfræði fyrir geimskipið Jörð“ þar sem hann gerði greinarmun á tvennskonar kerfum, opnum og lokuðum. Í opnu kerfi streyma hlutir og orka óhindrað inn í kerfið frá óskilgreindum ytri veruleika, og svo er líka eitthvað ytra svæði sem tekur endalaust við úrgangi frá kerfinu. Í lokuðu kerfi er ekkert slíkt inntak eða úttak; í hvert sinn sem einhverju er hent út úr slíku kerfi þá kemur það til baka eins og búmerang. Í fortíðinni komst fólk upp með að líta á Jörðina sem opið kerfi, Boulding kallaði það kerfi kúrekans sem var táknrænn fyrir óendanlegar sléttur og ábyrgðarleysi, arðrán og ofbeldi. Ef myndlíkingin um kúrekann hljómar skringilega hér á landi þá er lítið mál að tala um landnemann í staðinn, t.d. víkinginn sem sigldi með lið sitt yfir úthafið í leit að rostungum og stórselum. Þá hafði slíkum skepnum þegar verið útrýmt í heimalandinu og á næstu veiðilendum. Ekki leið á löngu uns rostungnum hafði verið HIN LITLA JÖRÐ

7 útrýmt svo gersamlega við strendur Íslands að ekkert var eftir annað en nokkur örnefni. Þá var bara haldið lengra, lengra, lengra. En svo tók þetta „lengra“ enda. Það var komið að endimörkum og þá beið ekkert nema hrunið eins og Bergsveinn Birgisson lýsir í bókinni Leitin að svarta víkingnum. Andstætt hinu opna kerfi kúrekans er hugmyndin um lokað kerfi geim- skipsins. Samkvæmt þessari hugmynd er litið á Jörðina sem takmarkað geimskip og þar eru auðlindirnar ekki óendanlegar, hvorki sem upp- sprettur gæða né sem botnlaus hlandfor sem alltaf getur tekið við meiri úrgangi. Boulding segir að í slíku kerfi verði mannfólk að finna sér stað í hringrásarhagkerfi sem er sífellt að endurskapa efni. Munurinn á þessum tvenns konar kerfum verður mest áberandi í við- horfinu til neyslu. Í kerfi kúrekans er litið á neyslu og framleiðslu sem eitthvað gott og árangur kerfisins er mældur í magni. Spurningin sem brennur á vörum stjórnenda samfélagsins er: Hvernig getum við framleitt meira? Íbúum samfélagsins er kennt að spyrja í sífellu: Hvernig get ég eignast meira? Í kerfi geimskipsins er árangur ekki mældur í framleiðslumagni. Þvert á móti er litið á framleiðslu sem eitthvað sem ætti að reyna að lágmarka. Spurningin verður: Hvernig getum við framleitt minna? Í staðinn fyrir að leggja áherslu á að auka magn framleiðslunnar er það eðli, umfang og margbreytileiki þeirra gæða sem koma fyrir í kerfinu sem skipta máli. Jörðin er ekki óendanlega stór heldur í raun frekar lítil, og mannfólkið verður að hugsa um líf sitt í samræmi við það. Þetta var byltingarkennd hugsun en eins og títt er um slíka hugsun var hún alls ekki ný. Hana má finna hjá Forn-Grikkjum, sem litu svo á að öll vísindi og fræði hefðu það markmið að finna mannfólkinu viðeigandi sess í jarðlífinu. Markmið vísindanna var að læra að þekkja eigin mörk, ekki að þenja sig án takmarkana yfir takmarkaðan heim. Við sjáum áþekka hugsun einnig í Hávamálum: Hjarðir það vitu, nær þær heim skulu, nær: hvenær og ganga þá af grasi; en ósviður maður ósviður: óvitur kann ævagi ævagi: aldrei síns um máls maga. um máls maga: magamál Nú er löngu tímabært að við lærum að miða langanir okkar við takmarkaða Jörð, í staðinn fyrir að reyna sífellt að pína þessa takmörkuðu Jörð til að uppfylla ótakmarkaðar langanir okkar. Kynslóð hinna fullorðnu, sem hefur komið sér fyrir í mestu makindunum, hefur í meira en hálfa öld komið sér hjá því að skilja þennan boðskap sem þó er mjög einfaldur.

8 Jörðin er ekki óendanlega stór og við verðum að temja okkur hófsemd í umgengni við hana. En hversu stór er hún? Það er lítið mál að fletta því upp að ummál hennar er um 40.000 km. Það er svo stór tala að hún segir fæstum nokkurn skapaðan hlut. Og þar fyrir utan þá er þessi fjöldi metra kannski ekki það sem mestu máli skiptir. Þegar spurt er hversu stór einhver íbúð er, þá skiptir meira máli hvað henni er ætlað að hýsa marga heldur en fjöldi fermetranna. Þannig er það líka með Jörðina. Það skiptir meira máli hversu vel Jörðin dugir, þ.e. hversu gjöful hún er miðað við hvers við ætlumst af henni. Líf okkar á Jörðinni er ferðalag þar sem einn hópur ferðalanga tekur við af öðrum – nýjar kynslóðir feta í fótspor þeirra sem á undan hafa farið. Hversu vel dugir Jörðin til að nesta okkur fyrir þetta ferðalag? Leggur hún okkur til nesti um ókomna tíð, þ.e. er neysla okkar innan þeirra marka sem Jörðin getur endurskapað á hverju ári, eða fer neyslan fram úr því sem Jörðin getur skapað á hverju ári þannig að á endan- um mun einhver kynslóðin sitja uppi nestislaus? Ef við notum þennan mælikvarða til að meta stærð Jarðarinnar og miðum við raunverulega neyslu mannkyns, þá kemur í ljós að Jörðin er ekki einungis lítil, heldur pínulítil. Árið 2020 tæmdu Jarðarbúar nestisboxið um mánaðarmótin júlí-ágúst. Þetta er kallað „earth overshoot day“ á ensku. Á íslensku getum við kallað þetta „þurrðardag NESTI FYRIR FERÐALAG Jarðar“. Þetta er dagurinn þegar árleg framleiðsla Jarðarinnar gengur til þurrðar, klárast. Þetta er dagurinn þegar við höfum étið upp það sem hefði þurft að endast alla 12 mánuði ársins. Þegar kemur fram yfir þennan dag, þá byrjum við sem nú lifum að borða frá komandi kynslóðum. Á undanförnum 50 árum hefur mannkyn farið frá því að lifa innan marka Jarðarinnar til þess að þurfa tvær Jarðir fyrir neyslu sína. Ef við hugsum um stærð Jarðarinnar á þennan hátt sjáum við að hún er líkari litlu geimskipi sem svífur um í geimnum heldur en óendan- legum sléttum kúrekans. Þetta þýðir að mannfólkið verður ekki einungis að umgangast sjálfa Jörðina af hófsemi, það verður einnig að gæta að hegðun sinni hvert gagnvart öðru því samfélag án jafnréttis, friðar og mannréttinda er ekki sjálfbært.

9 Fólk horfir gjarnan vonaraugum til menntakerfisins þegar krísur steðja að, hvort sem þær eru samfélagslegar, t.d. stríð og annað ofbeldi, eða varða umhverfið, eins og hamfarahlýnun. Fólk segir: Menntun er lausnin! En hingað til hefur menntunin líka verið hluti af vandanum. Ef við notum heldur þurrðardag Jarðar sem mælikvarðar á menntakerfin horfir myndin öðruvísi við. Það er nefnilega misjafnt hvenær þjóðir heims byrja að borða frá komandi kynslóðum. Árið 2020 byrjuðu Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar að borða frá komandi kynslóðum í kringum mánaðarmótin mars-apríl. Þurrðardagur Íslands var líklega um mánuði fyrr, í lok febrúar eða byrjun mars. Menntun fyrir alla verður að miðast við allar manneskjur á Jörðinni sem og komandi kynslóðir. Nú verður að taka af skarið. Það sem við höfum lært er að þeir lifnaðarhættir sem hafa tíðkast, sú þekking sem við höfum hampað, þau gildi sem við höfum haft í hávegum, duga ekki lengur. Í sameiningu verða nemendur og kennarar að finna út hvert ferðinni er heitið. FRAMTÍÐIN OG MENNTAKERFIÐ

10 MENNINGARLEG FJÖLBREYTNI 1

11 Stundum er talað um að heimurinn sem við búum í sé að verða sífellt minni eða samtengdari, en hvað þýðir það? Varla hefur hann minnkað að flatarmáli? Tæknin tengir okkur við aðra hluta heimsins og gerir okkur auðveldara að fylgjast með fréttum og viðburðum utan úr heimi. En tæknin er ekki það eina sem tengir okkur saman. Við tengjumst líka í gegnum samfélög, náttúru og sameiginlegt efnahagskerfi. Þetta þýðir að flestar þær breytingar sem eiga sér stað í heiminum snerta okkur öll sem búum í honum en þó með misjöfnum hætti. Út frá slíkum hugleiðingum kom fram hugtakið hnattræn borgaravitund en árið 2012 lagði þáverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna það hugtak til sem eitt af aðalmarkmiðum menntunar til viðbótar við jafnt aðgengi að menntun og gæði menntunar. Með þessu skrefi vildi hann leggja áherslu á að menntun ætti, umfram allt, að styðja við ungt fólk til þess að tengjast heiminum og uppgötva leiðir til að gera hann að betri stað. MENNINGARLEG FJÖLBREYTNI HNATTRÆN BORGARAVITUND

12 „Ein leið til að líta á hnattræna borgaravitund felst í því að leggja áherslu á að við lærum að koma auga á það sem tengir okkur saman þvert á lönd og landamæri. Að við séum með- vituð um að fólk er hvert öðru háð í félagslegu, menningarlegu, efnahagslegu og pólitísku tilliti og að hið staðbundna, þjóðlega og alþjóðlega sé samtvinnað.“ Þýðing, Ólafur Páll Jónsson

13 Þetta er góð og gild nálgun enda skiptir máli að skilja bæði eigin stöðu í samfélaginu og annarra. En er nóg að hugsa um allt það sem sameinar okkar eða ættum við líka að geta komið auga á og öðlast skilning á þeim ótal þáttum sem móta okkur með ólíkum hætti og gera okkur einstök? Menntun getur eflt getu nemenda til aðgerða, gefið þeim tilfinningu fyrir því að það skiptir máli hvað þeim finnst og að hægt sé að haga sér í samræmi við eigin sannfæringu og breyta hlutum. Auk þess getur menntun líka stuðlað að gagnrýninni afstöðu til sam- félagsins, kennt nemendum að ekki sé hægt að treysta því að allt sé réttlátt og að allir hafi jafnan aðgang að lýðræðislegum vett- vangi, heldur þurfi að sjá til þess að svo sé, jafnvel með töluverðri fyrirhöfn (Grunnþættir menntunar: lýðræði og mannréttindi, bls. 30). + Hvernig myndir þú vilja hafa heiminn í framtíðinni? + Hvernig heimur er góður heimur í þínum augum?

14 Raunin er sú að eitt helsta einkenni nútímasamfélaga er menningarlegur margbreytileiki. Menningarlegur margbreytileiki snýst bæði um það sem sameinar okkur og það sem gerir okkur ólík. Þess vegna skiptir það ekki síður máli að tengjast og kynnast alls konar fólki og læra að þekkja heima sem eru frábrugðnir okkar. Það skiptir máli að hlusta á ólíkar sögur sem endurspegla ólíkar upp- lifanir og reynslu fólks. Það er raunveruleg hætta í því að byggja þekk- ingu okkar og skilning á einsleitum sögum eða einfölduðum hug- myndum um heiminn og fólkið sem í honum býr. Til þess að skilja þetta betur er mikilvægt að leggja sig fram um að setja sig í spor annarra. Í því felst að átta sig á að til eru ólík sjónarhorn sem kalla á mismunandi viðbrögð og tilfinningar við sömu aðstæðum. Við lifum öll í sama heimi en sjáum hann og upplifum með ólíkum hætti, sama hvort við búum í sama nærumhverfi eða fjarri hvert öðru. MENNINGARLEGUR MARGBREYTILEIKI Þrátt fyrir að sjónarhornin séu fjölmörg fá ekki alltaf öll að njóta sín. Sumum reynist auðvelt að tjá sig og koma hugmyndum sínum á fram- færi á meðan aðrir fá til þess mun færri tækifæri. Í hefðbundnu skólastarfi getur verið erfitt fyrir þau sem t.d. tala ekki tungumálið sem notast er við í kennslunni, að tjá skoðanir sínar. Hvernig myndir þú segja þína eigin sögu? Hver væru aðalatriðin, hvernig myndir þú lýsa þér sem manneskju, hvaða reynsla eða bakgrunnur hefur mótað þig? Eru þetta þættir sem eru sameiginlegir eða ólíkir reynslu, siðum og menningu annars fólks? Hvernig gæti saga annarra í bekknum þínum hljómað? Þekkir þú ólíkar sögur þeirra? Eru allir í bekknum þínum í jafnri stöðu til að segja sína sögu eða deila sjónarhorni sínu á eigin forsendum?

15 Sjónarhorn Snorra og Einars: Félagarnir Snorri og Einar vinna verkefnið saman og ákveða strax að sniðugast sé að taka viðtal við Malih sem hafði flúið með fjölskyldu sinni frá Sýrlandi. Þeim finnst líklegt að Malih verði stoltur að fá að segja frá reynslu sinni. Snorri rifjar upp að þegar Malih kom fyrst hafi umsjónarkennarinn beðið hann og Einar að aðstoða Malih, sýna honum skólann, til dæmis hvar matsalurinn og íþróttasalurinn væri. Snorri man einnig að allir í bekknum tóku vel á móti Malih en fljótlega hafi hann og Jan, sem er frá Póllandi, svo orðið góðir vinir. Sjónarhorn Malih: Malih er enn að laga sig að skólanum. Hann hefur kynnst einum bekkjarfélaga sínum ágætlega en aðeins spjallað stuttlega við aðra eins og Snorra og Einar og verður því hissa þegar þeir sýna áhuga á því hvernig hann kom til landsins. Strákarnir virðast spenntir en Malih þykir þessi athygli óþægileg. Strákarnir höfðu ekki sýnt neinn áhuga á að kynnast honum fyrr en nú við gerð verkefnisins. Þetta finnst Malih undarlegt og hann langar ekki að taka þátt í verkefninu á þennan hátt. Tökum tilbúið dæmi um mismunandi skilning og viðbrögð nemenda sem vinna skólaverkefni: „Í samfélagsfræði í 9. bekk á að vinna hóp- verkefni um veruleika flóttafólks og kynna svo fyrir bekknum. Einn hópurinn gerir verkefnið með því að taka viðtal við bekkjar- félaga sem kom frá Sýrlandi sem flótta- maður ásamt fjölskyldu sinni og verið í bekknum í fimm mánuði.“ DÆMI

16 Á hvaða hátt er sjónarhorn strákanna tveggja og Malih ólíkt? Áhugi Snorra og Einars á reynslu flóttafólks er eðlilegur og það er jákvætt að vilja gera hana sýnilegri til að auka eigin skilning og annarra. Það má samt ekki gera ráð fyrir því fyrir fram að Malih kjósi að tala fyrir hönd alls flóttafólks eða vera í sviðsljósi bekkjarins með reynslu sína. Malih langar ekki að taka þátt í verkefninu sem viðmælandi en gæti kannski langað til að vera með á einhvern annan hátt. Hvaða aðrir möguleikar eru til staðar þannig að hann geti tekið þátt? Svo virðist sem Snorri og Einar telji að Malih sé vel settur með vini sínum Jan og að hann hafi ekki áhuga á að kynnast öðrum í bekknum líka. Ætli það sé rétt? Getur verið að Malih langi til að kynnast þremenn- ingunum og ef til vill eignast þá að vinum? Snorri og Einar voru vingjarnlegir við Malih þegar hann kom fyrst og fannst sjálfsagt að sýna honum skólann líkt og kennarinn bað þá um. Þeir hugleiddu kannski ekki að gefa Malih meiri gaum, að gefa sjálfum sér og honum tækifæri til að kynnast. Ef til vill fundu þeir til óöryggis og fannst Malih hljóta að vera allt öðruvísi en þeir. Eðlilegt er að finna til óöryggis gagnvart því sem er ókunnugt. Það getur samt borgað sig að kanna málið því oftar en ekki komumst við að því að við eigum svo margt sameiginlegt. Við getum líka lært ýmislegt nýtt, kynnst öðrum siðum og venjum eða annarri sýn á lífið og tilveruna. Færa má rök fyrir því að flest viljum við tilheyra hópi og samsama okkur þeim hópi. Ákveðinn félagslegur samanburður fer fram þegar við tökum ákvörðun, meðvitað eða ómeðvitað, um það hverjum við tilheyrum. Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin getur verið erfitt að slíta sig frá þeim hópum sem við tilheyrum eða bjóða öðrum sem standa utan hans að vera með. + Óttuðust Snorri og Einar að aðrir í bekknum misstu álit á þeim ef þeir yrðu vinir Malih? + Er jafn líklegt að Snorri og Einar myndu eignast nýjan vin ef þeir legðu sig fram um að kynnast Malih, áhugamálum hans og persónu? + Hvernig gætu Snorri og Einar sýnt gott fordæmi og verið fyrir- mynd í samskiptum sínum við Malih?

17 Oft er talað um að til séu margar tegundir menningar. Þá má segja að hver þjóð eigi sér ákveðna menningu og að hægt sé að sjá mun á menn- ingu einnar þjóðar og annarrar. Hægt er að skilgreina menningu sem samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp. Þar með teljast listir og bókmenntir en einnig lífsstíll, sambúðarform, mannleg gildi, hefðir og skoðanir. Það er eðlilegt að vera stolt af eigin uppruna og þjóð en það þýðir ekki að gera megi lítið úr menningu og siðum annarra. Þegar fólk metur aðra menningarheima einungis með hliðsjón af eigin menningu og lítur svo á að hún sé betri eða réttari en önnur kallast það þjóðhverfa. Stundum erum við ómeðvituð um hvernig gjörðir okkar snerta aðra til dæmis þegar við höldum á lofti gildi eigin menningar eða viðurkennum ekki menningu sem er ólík okkar. Slíkt gerist auðveldlega við jólahald og ýmsa mikilvæga viðburði eða hefðir sem eru vinsælar og samþykktar í ákveðnu samfélagi en ekki endilega viðeigandi í öðrum samfélögum. MENNING, FJÖLMENNING OG FORDÓMAR

18 Menning er ávallt ólík og fjölbreytt og mótast af öllu því fólki sem tekur þátt í samfélagi eða myndar þjóð. Einnig getur myndast ákveðin og fjölbreytt menning í minni hópum innan og utan stærri samfélaga og þjóða. + Hvað gæti til dæmis einkennt unglingamenningu? + Fylgja unglingar sem hópur gildum, skoðunum og hefðum sem saman skapa menningu þeirra eða er til margskonar unglinga- menning? Það eru góðar líkur á að þú eigir fjölbreyttari og ólíkari vinahóp en foreldrar þínir eða afi þinn og amma áttu á sínum yngri árum enda eru langflest samfélög í dag fjölmenningarleg samfélög þar sem fólk af ólíku þjóðerni, menningar- og landsvæðum kemur saman. Fjölmenn- ing er auðvitað ekki ný af nálinni og í gegnum tíðina hefur fólk haft ýmsar ástæður til þess að flytjast á milli ólíkra landa og menningar- heima. Yfirleitt er fólk að sækja sér vinnu eða framfærslu, ýmsir leggja land undir fót til þess að stunda nám eða koma á betri tengslum við fjölskyldumeðlimi og vini. Slíka flutninga mætti túlka sem frjálsa fólksflutninga þó svo að skilin séu ekki alltaf mjög skörp á milli þess hvenær við ferðumst af fúsum og frjálsum vilja og hvenær við neyðumst til að færa okkur um set. Á undanförnum árum hafa þvingaðir fólksflutningar aukist umtalsvert þar sem stríð og pólitískur óstöðugleiki í mörgum löndum hefur leitt til þess að fleira fólk en áður neyðist til að flýja heimkynni sín. Við lok ársins 2020 voru 82.4 milljónir manna, þar af meirihluti börn og ungmenni, á flótta í heiminum. Til að læra meira um flóttafólk getur þú skoðað heimasíðu Rauða Krossins eða Amnesty International á Íslandi.

19 Eitt er víst að samfélag okkar er og mun ávallt verða samsett af fólki úr afar ólíkum áttum með mismunandi bakgrunn og reynslu. Í fjöl- menningarlegu samfélagi skiptir máli hvernig við bregðumst við fjölbreytileikanum. Þ.e. hvernig við eigum í samskiptum við, sköpum tengsl og finnum til ábyrgðar með þeim sem eru ólíkir okkur sjálfum. Gjarnan höfum við ákveðnar fyrir fram gefnar hugmyndir um fólk sem er ólíkt okkur sjálfum jafnvel þó svo að við þekkjum ekki til sögu þess eða aðstæðna. Slíkt gæti verið dæmi um fljótadóma. Fljótadómar eru fordómar sem við grípum öll til á einhverjum tíma. Fljótadómar byggja á ómótuðum eða fyrirfram gefnum hugmyndum um ákveðin málefni. Það kemur fyrir okkur öll að grípa til þess konar staðalímynda endurtekninga eða fyrirsagna ef við þekkjum ekki sjálf nægilega vel til málefna sem við erum beðin um að taka afstöðu til. Flóttafólk og innflytjendur verða mjög oft fyrir slíkum fordómum. Ef við skoðum orðið fordómar felur það einmitt í sér að einhver fellir dóm án þess að kynna sér mál af sanngirni. Þar sem nánast er ómögulegt að kynna sér alltaf öll mál nákvæmlega áður en tekin er afstaða til þeirra hljóta flestir, ef ekki allir, að grípa einhvern tímann til fordóma. Í tengslum við staðalímyndir, fordóma og fljótadóma er mikilvægt að skoða frekari af- leiðingar sem geta verið sársaukafullar og alvarlegar fyrir þá sem verða fyrir þeim. Þar má nefna öráreitni sem líkja má við flugnabit og er einmitt útskýrt vel hér. Öráreitni getur verið hversdagsleg athugasemd líkt og þegar einstaklingur sem hefur annars konar yfirbragð, kannski dekkra hörund og hár, en meiri- hluti íbúa landsins er margsinnis spurður hvaðan hann eða hún sé eða hvort snerta megi hárið eða húðina.

20 + Af hvaða rótum skyldu slíkar athugasemdir eða spurningar vera runnar? + Hvaðan sprettur til dæmis sú þörf að draga athygli að útlitslegum mun fólks? Þess konar spurningar virðast sakleysislegar en þegar þær safnast saman getur einstaklingurinn sem fyrir þeim verður smám saman talið sig óvelkominn í samfélaginu, fundist erfitt að tilheyra á sama hátt og aðrir og upplifað sig óvelkominn. Öllu alvarlegra er þegar fólki er mismunað á grundvelli kyns, uppruna, trúar, kynhneigðar, fötlunar eða annarra viðlíka þátta. Í þessu felst að komið er verr fram við ein- staklinginn eða jafnvel að staða hans gagnvart stofnunum er lakari en annarra. Slíkt er kallað stofnanabundin mismunun. Oft má rekja mismunun til fljótadóma eða fordóma þar sem fyrirfram gefnar hugmyndir um þekkingu, getu og hæfni einstaklinga eru bundnar neikvæðum staðalímyndum. Til dæmis er of oft litið svo á að nemendur sem geti ekki talað tungumál meirihlutans í skólanum hljóti að eiga í erfiðleik- um með að læra eða hafi ekki mikilvæga þekkingu fram að færa í skóla- samfélaginu. Þannig er nemendum af erlendum uppruna, sem tala annað tungumál en það sem notast er við í skólum þeirra, gjarnan mismunað um jöfn tækifæri til tjáningar og athafna innan skólasamfélagsins. MENNING, FJÖLMENNING & FORDÓMAR

21 Tungumálið er ein mikilvægasta leiðin til tjáningar en þegar margbreytileikinn eykst er einnig mikilvægt að muna að við getum stuðst við ýmsar aðrar leiðir. Til dæmis fara samskipti ungs fólk mikið fram á netinu eða í gegnum samfélagsmiðla þar sem hljóð- og myndefni skipar stóran sess í tjáningu og samskiptum. Kannski er ein leið til þess að skapa tengsl og vináttu við þau sem tala ekki sama tungumál og við sjálf í gegnum myndir, tónlist, myndbönd eða samfélagsmiðla. Mynd getur jú sagt meira en þúsund orð! Læra má ýmislegt af þeim sem ferðast um heimsins höf og lönd og kynnast ólíkum lífsháttum og alls konar fólki. Oft má greina af samantekt þeirra á reynslu sinni að það sé svo undarlegt að mannfólkið sé í grunninn eins, hvert sem komið er og hverjar sem aðstæður þess eru. Menningarlegur margbreytileiki þýðir líklega þegar upp er staðið að við erum á sama tíma öll eins og öll ólík. Við höfum öll það sem þarf til að mynda góð tengsl okkar á milli sem byggjast á virðingu hvert fyrir sérkennum annars. Að kynnast og jafnvel eignast vini felur ekki í sér að einhver þurfi að laga sig að öðrum og breytast heldur einmitt að allir fái að njóta sín til jafns út frá sínum sérkennum og sérstöku sögu. Þegar við kynnumst sögu og sérkennum annarra lærum við svo margt hvert af öðru og skiljum sjálf okkur og aðra betur.

22 JAFNRÉTTI KYNJA 2

23 Við búum í heimi þar sem mannréttindi eru ekki sjálfsögð réttindi eins og þau ættu að vera. Sums staðar njóta konur ekki sömu réttinda og karlar og annars staðar er hinsegin fólk sett í fangelsi og jafnvel tekið af lífi fyrir að vera trans eða fyrir að hafa elskað manneskju af sama kyni. Sums staðar eru réttindi barna fótum troðin og annars staðar njóta þau sem búa við fötlun ekki sjálfsagðra réttinda. Sums staðar eru réttindi háð því hvort við séum rík eða fátæk og annars staðar því hvaða þjóðerni eða trúarhóp við tilheyrum. Mannréttindi og jafnrétti eru ekki sjálfsögð, heldur þurfum við að berjast fyrir þeim og standa vörð um þau svo að þau glatist ekki. Í þessum kafla lærum við að þrátt fyrir að við höfum náð langt í að tryggja kynjajafnrétti og réttindi kvenna á Íslandi, þá eigum við langt eftir til að tryggja sömu réttindi á heimsvísu. Í löndum þar sem lagaleg réttindi hafa verið tryggð, er ekki víst að framkvæmd þessara laga tryggi öllum þau réttindi. Samfélög geta haft fullkomna löggjöf til að tryggja réttindi allra borgara en mismunað samt fólki vegna fordóma og van- virðingar á lagalegum réttindum. Ávallt verður að hafa í huga að mannréttindi eru ekki sjálfsögð. Ef við pössum ekki upp JAFNRÉTTI KYNJA JAFNRÉTTI KYNJA

24 á að tryggja mannréttindi, þá gæti fólk verið kosið til valda sem afnemur réttindi okkar. Í heiminum hefur gengið illa að tryggja kvenréttindi og jafna stöðu kvenna og kvára í samfélaginu. Konum er mismunað í öllum ríkjum heims, hvort sem litið er til heilsu, efnahags, stjórnmála, menntunar eða vinnumarkaðar. Síðustu áratugina hafa femínistar, baráttufólk fyrir kynja- jafnrétti, unnið ötullega að kvenréttindum og jafnri stöðu kynja um allan heim. Barátta þeirra hefur náð miklum árangri en hvergi hefur okkur enn tekist að skapa samfélag sem byggir á fullkomnu jafnrétti kynjanna. Misskipting gæða á milli kynjanna er enn mikil, karlar hafa mun fleiri tækifæri en önnur kyn og þeir hafa mun meiri völd. Árið 2015 settu Sameinuðu þjóðirnar sér heimsmarkmið um sjálfbæra þróun sem eiga að leiða til betra lífs, lífsskilyrða og umhverfis árið 2030. Markmiðin eru sautján talsins og eitt þeirra er að tryggja jafnrétti kynjanna. Konur eru helmingur mannkynsins og án þeirra og án þess að tryggja kynjajafn- rétti, getum við ekki tryggt sjálfbæra framtíð.

25 Í öllum samfélögum heims má finna hugmyndir um á hvaða hátt kynin eru ólík, og hafa samfélög smíðað sér reglur um hvernig hvernig ólík kyn eiga að líta út, hegða sér eða klæða sig. Þessar óskrifuðu reglur köllum við kynjakerfið. Í þessum kafla lærir þú um kynjakerfi, hvernig það virkar, hvaða fólk passar ekki inn í ramma kynjakerfisins, hvernig kynjakerfið elur á fordómum og kvenfyrirlitningu og hvernig kynjakerfið gefur sumu fólki for- réttindi í samfélaginu. Kynjakerfið byggir á einfaldri tvíhyggju, að einungis séu til tvö kyn, konur og karlar. Kynjakerfið segir að þessi tvö kyn eru svo ólík að þau séu í raun andstæður hvort annars og einnig að þau laðist undantekningarlaust hvort að öðru en ekki að fólki af sama kyni. Í kynjakerfinu er útilokaður fjölbreytileiki mannkynsins og samkynhneigt fólk, tvíkynhneigt fólk, pankynhneigt fólk, eikynhneigt fólk, trans fólk, intersex fólk og kynsegin fólk passar ekki í kerfið. Hugmyndir eins og þessar byggja á staðalmyndum um kynin þar sem allir „alvöru karlar“ og allar „alvöru konur“ búa yfir ákveðnum eiginleikum. Þar er ekki gerður greinarmunur á annars vegar KYNJAKERFIÐ

26 KYNJABOXIN Þrátt fyrir að vera flest flokkuð í stráka- eða stelpubox við fæðingu, þá búum við öll yfir einkennum sem passa ekki svo vel við staðalmyndir um konur og karla. Hvaða eiginleika, hæfileika, áhugamál eða viðhorf hefur þú sem passa ekki í kynjaboxin? kyni, sem er það líffræðilega kyn sem einstaklingi var úthlutað við fæðingu, og svo kyngervi, en það er hvernig samfélagið býst við að einstaklingur hagi sér út frá þessu líffræðilega úthlutaða kyni. Staðalmyndir kynjakerfisins fela í sér að fólk eigi að uppfylla ákveðin kynhlutverk þar sem útlit, hegðun og hugsun karla og kvenna eiga að vera gjörólík, svo sem að karlar eigi að vera stórir, sterkir og beita kaldri rökhugsun á meðan konur eigi að vera smágerðar, mjúkar tilfinningaverur. Kynjakerfið er oft kallað feðraveldi en í slíku kynjakerfi gegna karlar flestum valdastöðum og það sem er tengt körlum og karlmennsku er hærra skrifað en það sem er tengt konum og kvenleika. Nafnið á feðraveldi hefur ekkert með pabba að gera heldur vísar nafnið til þess að á árum áður voru feður höfuð fjölskyld- unnar og stjórnuðu þeim sem tilheyrðu henni. Fjölskyldan var þannig í raun eign föðurins. Samfélagið, stofnanir þess, reglur og venjur voru skipulögð af valdamiklum körlum og tóku því fyrst og fremst mið af þörfum þeirra og hugmyndum. Frá þessu fyrirkomulagi sprettur kvenfyrirlitning þar sem konur geta aldrei verið jafn mikilvægar og karlar og þar sem karlar og það sem þeir gera þykir mun merkilegra en það sem önnur kyn gera.

27 Kvenfyrirlitningin þróast stundum út í kvenhatur þar sem allt sem er kvenlegt er talið óæðra og ef konur reyna að taka meira pláss í samfélaginu þá er þeim mætt af hörku. Í þessum aðstæðum er beitt þöggun en það er þegar raddir og skoðanir valdaminni eða jaðarsettra hópa eru hunsaðar eða gert lítið úr þeim. Þrátt fyrir að samfélagið hafi breyst mikið frá því að karlar réðu langflestu, hafa karlar enn þá forréttindi á mörgum sviðum miðað við önnur kyn en þó ekki á öllum sviðum. Forréttindi karla geta birst til dæmis í því að þeir eru síður dæmdir fyrir útlit sitt, það er líklegra að öryggis- búnaður sé búinn til með líkamsbyggingu þeirra í huga og þeir eru líklegri til finna fyrirmyndir af eigin kyni á skjánum. Það er heldur ekki þannig að allir karlar séu alltaf í betri stöðu en konur og kvár. Kyn eitt og sér er ekki það eina sem skilgreinir stöðu fólks í samfélaginu. Þannig geta aðrir þættir eins og stétt, kynhneigð, menningar- legur bakgrunnur, litarhaft, fötlun, líkamsstærð, aldur og annað haft áhrif á hvort fólk mæti fordómum og mismunun en almennt séð hefur kyn karla minni áhrif á það hvort þeir mæti mótlæti miðað við einstak- linga sem tilheyra öðrum kynjum. Yfirleitt er það þannig að ef einstaklingar tilheyra hópnum sem býr við ákveðin forréttindi þá taka þeir ekki eftir þeim fyrr en þeir missa þau. Það er kallað forréttindablinda.

28 Síðustu áratugina höfum við náð langt í að tryggja kynjajafnrétti, þó enn eigum við langt í land. Við eigum þennan árangur að þakka aldalangri baráttu kvennahreyfingarinnar, baráttu femínista út um allan heim fyrir kvenréttindum og kynjajafnrétti. Í þessum kafla lærir þú um femínísma og um sögu femínísku hreyfingarinnar, allt frá baráttu- konunum fyrir kosningarétti kvenna á 19. öld til baráttufólks 21. aldar sem berst fyrir réttindum fólks af öllum kynjum. Femínismi er pólitísk hugmyndafræði. Femínistar trúa því að fólk af öllum kynjum sé jafnt og eigi að hafa jöfn réttindi, jöfn tækifæri og jafnan aðgang að allri þjónustu samfélagsins. Femínisminn á rætur sínar að rekja til pólitískrar baráttu sem hófst á 19. öld þegar konur í Bandaríkjunum og Evrópu fóru að berjast fyrir borgaralegum rétt- indum kvenna, svo sem kosningarétti, eignarrétti og rétti til náms og starfa. Með tímanum hafa baráttumál femínismans breyst eftir því sem samfélagið hefur breyst. Oft er talað um fjórar bylgjur í kvenréttindabaráttunni. Fyrsta bylgjan miðar við 19. öld og fyrstu áratugi þeirrar tuttugustu, önnur bylgjan hófst um 1960 og stóð fram eftir 9. áratugnum og þriðja bylgjan SAGA FEMÍNISMANS hófst á 10. áratug síðustu aldar. Mörg segja að við upplifum einmitt núna nýja bylgju femínisma, sem er þá sú fjórða. Hver bylgja hefur ákveðin sérkenni og í næsta kafla vörpum við ljósi á þessa þróun. Fyrsta bylgjan: Baráttan fyrir borgaralegum réttindum Lengi höfðu konur á Vesturlöndum minni lagaleg réttindi en karlar og færri möguleika á að njóta gæða samfélagsins. Á Íslandi höfðu konur ekki sama rétt og karlar til að erfa eignir foreldra sinna fyrr en árið 1850; jafnan kosningarétt og möguleika til að bjóða sig fram til embætta í sveitarstjórnum öðluðust konur ekki fyrr en árið 1908. Réttur kvenna til náms og starfa var ekki tryggður fyrr en árið 1911 og konur fengu ekki almennan kosningarétt fyrr en árið 1915. Barátta kvenna á Vestur- löndum til að tryggja formleg borgaraleg réttindi sín hefur oft verið kölluð fyrsta bylgja femínismans og konurnar sem börðust fyrir þessum réttindum kallaðar súffragettur. Mörg vilja rekja upphaf skipulagðrar kvenréttindabaráttu til Seneca Falls ráðstefnunnar sem haldin var í júlí 1848 í New York. Mörg þau sem börðust fyrir kvenréttindum börðust einnig fyrir afnámi þrælahalds. Sojourner Truth sem fæddist í þrældómi hvatti súffragettur 19.

29 aldar til að berjast ekki einungis fyrir réttindum hvítra kvenna heldur fyrir réttindum allra kvenna. Bríet Bjarnhéðinsdóttir var sú kona sem við eigum mest að þakka að konur á Íslandi fengu jöfn réttindi á við karla. Árið 1887 hélt Bríet, þá 21 árs gömul, fyrirlestur í Reykjavík um kvenréttindi, í fyrsta skipti sem kona á Íslandi hélt opinberan fyrirlestur. Árið 1907 stofnaði hún Kvenréttindafélag Íslands og einnig kvennaframboð sem bauð fram í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík 1908. Flokkur Bríetar vann mikinn kosningasigur, fjórar konur voru kosnar í bæjarstjórn Reykjavíkur og voru þær stærsti flokkurinn. Konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis árið 1915 og árið 1922 var Ingibjörg H. Bjarnason kjörin á þing, fyrst kvenna til að sitja á Alþingi. Önnur bylgjan: Kvennasamstaðan Kvenréttindabaráttan fór í lægð eftir að konur fengu kosningarétt. Ekki vegna þess að konur hefðu náð jafnrétti, heldur vegna þess að kreppan mikla og seinni heimsstyrjöldin (1939-1945) setti samfélagið á hliðina. Önnur bylgja femínismans er oft talin hefjast um miðbik tuttugustu aldarinnar, þegar Vesturlönd voru í mikilli uppbyggingu og fólk tókst á um ýmsar ólíkar hugmyndir um hvernig bæri að skipuleggja samfélög okkar og stjórnmál. Ýmsir hópar femínista komu fram á sjónarsviðið, hver með sína hugmynd um hvernig best væri að ná jafnrétti. Sumir femínistar vildu

30 rífa samfélagið, feðraveldið, upp með rótum, aðrir töldu verkalýðsbar- áttuna lykilinn að jafnrétti og enn aðrir femínistar einbeittu sér að lagalegu jafnrétti. Hér á Íslandi mörkum við upphaf annarrar bylgjunnar við 1. maí 1970 þegar konur fjölmenntu í kröfugöngu verkalýðshreyfingarinnar í Reykja- vík. Þær gengu niður Laugarveginn og báru stóra Venusarstyttu sem á stóð Manneskja, ekki markaðsvara. Þá um sumarið var Rauðsokka- hreyfingin formlega stofnuð. Þann 24. október 1975 lögðu konur á Íslandi niður störf í einn dag, í svokölluðu kvennafríi, til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna í samfélaginu. Þrátt fyrir að mikil gróska hafi verið í starfi femínísku hreyfingar- innar á Íslandi á 8. og 9. áratugnum, þá voru konur útilokaðar úr stjórnmálunum. Konur stofnuðu sérstakan stjórnmálaflokk, Kvennalistann, árið 1983 og buðu fram til Alþingis. Kvennalistinn starfaði á Alþingi allt fram til ársins 1999 og hafði mikil áhrif á allt stjórnmálastarf. Þriðja bylgjan: Fjölbreytileikinn Þriðja bylgja femínismans hófst á 10. áratug síðustu aldar. Í henni var lögð áhersla á fjölbreytni og frelsi einstaklingsins. Femínistar gagnrýndu fyrri bylgjur femínismans og sögðu þær einsleitar, að hvítar millistéttar- konur hefðu verið áberandi í baráttunni og að konur sem tilheyrðu minnihlutahópum, líkt og svartar konur eða samkynhneigðar eða fatlaðar konur, væru útilokaðar úr samtalinu. Femínistar bentu á að það væri ekki aðeins kyn sem hefði áhrif á stöðu kvenna í samfélaginu, heldur einnig aðrir þættir líkt og uppruni, kyn- hneigð, stétt, líkamsgerð, fötlun og svo framvegis. Í þriðju bylgjunni fóru femínistar að afbyggja kynjakerfið sjálft, þá hugmynd að aðeins séu til tvö kyn – karl og kona. Fólk fór að átta sig á að kyn væri flóknara en hægt væri að einfalda í þessa tvo flokka. Kynvitund vísar til þeirrar upplifunar sem manneskja hefur af eigin kyni. Kynvitund getur bæði samsvarað eða verið andstæð því kyni sem manneskju var úthlutað við fæðingu. Flest fólk efast aldrei um kyn sitt, það fæðist í líkama með kyneinkenni sem samsvara upplifðu kyni og þá tölum við um að það fólk sé sískynja. Trans fólk fæðist hins vegar með kyneinkenni sem eru andstæð þeirra upplifun. Sumt fólk upp- lifir sig hvorki sem karl eða konur og er þá kynsegin og kallað kvár (samanber kona og karl).

31 Á Íslandi voru samþykkt lög um kynrænt sjálfræði árið 2019 sem kveða á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt. Í þeim lögum er lagaleg skilgreining hugtaksins kyns opnuð þannig að nú er hægt að skrá sig sem konu, karl eða kynsegin/annað. Lagalega eru kynin ekki lengur bara tvö heldur geta þau verið fjölmörg. Fjórða bylgjan: Samfélagsmiðlabyltingin? Mörg vilja nú meina að við séum stödd í hringiðu fjórðu bylgju femín- ismans, enn er fólk ekki sammála um nákvæmlega hvað einkennir þessa byltingu. Fjórða bylgja femínismans hefur oft verið tengd við samfélagsmiðla. Ein- staklingar og hópar nýta sér samfélagsmiðla og internetið til þess að vekja athygli á málefnum og stofna umræðuhópa þeirra sem vilja sjá breytingar í átt að jafnrétti. Eitt af einkennum fjórðu bylgjunnar eru allskyns myllumerkjaherferðir, eins og #metoo, #églíka og #höfumhátt. En einnig hefur fjórða bylgjan einkennst af dýpri skilningi okkar á fjölbreytileikanum. Það er ekki nóg að leggja áherslu á fjölbreyti- leika ef við breytum ekki samfélaginu öllu svo það taki tillit til þarfa ólíkra hópa og gefi öllu fólki á Íslandi sömu tækifæri á öllum sviðum samfélagsins. Í dag er talað um að nú séum við í fjórðu bylgju femínismans. Hvaða baráttumál hefur þú tekið eftir sem má flokka undir fjórðu bylgju femínismans?

32 Hér á Íslandi og á Norðurlöndunum erum við komin langt í að tryggja jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi en þó er enn langt í land að við náum fullkomnu jafnrétti. Áskoranirnar sem bíða okkar eru stórar. Við þurfum að uppræta kyn- bundið kjaramisrétti, að konur fái borguð lægri laun fyrir störf sín en karlar. Við þurfum að uppræta kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn kon- um. Við þurfum að tryggja að fjölbreytileikinn njóti sín í samfélaginu, að fólk með ólíka líkama, ólíkan húðlit, ólíkan uppruna, ólíka kynhneigð, ólíka kynvitund, ólíka kyntjáningu, ólíkar skoðanir, að við fáum öll að taka fullan og óskertan þátt í samfélagsumræðunni og að okkur sé ekki mismunað á neinn hátt. Í þessum kafla verður staða jafnréttisbaráttunnar í dag skoðuð. Kjaramisrétti Árið 2021 höfðu konur á Íslandi að meðaltali 23,5% lægri atvinnutekjur í hverjum mánuði en karlar. Í þessum kafla lærir þú um helstu ástæður að baki kynbundnum launamun og hvaða verkfæri stjórnvöld og fyrirtæki hafa til að bregðast við þessu óréttlæti. HELSTU ÁSKORANIRNAR Á ÍSLANDI

33 Ástæður fyrir því að konur hafa almennt lægri tekjur en karlar eru marg- víslegar. Stundum er um beina mismunun að ræða, þegar fyrirtæki borga konum lægri laun fyrir sömu eða sambærileg störf karla. Önnur ástæða er sú að konur vinna meiri ólaunaða vinnu, svo sem við heimilisstörf eða að sinna fjölskyldu og börnum en karlar og verja því að meðaltali styttri tíma við launaða vinnu í hverjum mánuði. Að lokum getum við sagt að ástæðan á bak við þetta kjaramisrétti sé sexismi, sú staðreynd að starfsgreinar þar sem konur eru í meirihluta eru almennt lægra launaðar heldur en starfsgreinar þar sem karlar eru í meirihluta. Hvað getum við gert til að uppræta launamun á milli kynjanna? Stjórnvöld á Íslandi hafa gripið til ýmissa aðgerða til að jafna launin og eru allar þessar aðgerðir mikilvægur þáttur í að vinna gegn kjaramisrétti. Til þess að uppræta beina mismunun á vinnustað höfum við sett í lög að íslenskir atvinnurekendur þurfa að gangast undir jafnlaunavottun á þriggja ára fresti. Þetta þýðir að íslensk fyrirtæki og stofnanir þurfa reglulega að sanna það að ekki sé verið að mismuna gegn neinum starfsmanni, hvort sem vegna kyns eða annarra þátta. Einnig höfum við sett í lög kynjakvóta, að konur verði að vera minnst 40% af stjórn- um fyrirtækja sem eru með fleiri en 50 starfsmenn. Annar stór þáttur í kjaramisrétti er að konur vinna almennt meiri ólaunaða vinnu við heimilisstörf og umönnun en karlar vinna fleiri launaðar vinnustundir. Til þess að uppræta þennan mun þurfum við að tryggja að karlar taki meiri ábyrgð inni á heimilinu en þeir gera í dag. Verkfæri sem stjórnvöld hafa til að jafna þennan mun eru til dæmis jafnt fæðingarorlof og ódýr dagvistun fyrir öll börn. Þetta eru verkfæri sem hvetja karla til að taka þátt í umönnun fjölskyldunnar og gerir konum kleift að snúa aftur inn á vinnumarkaðinn. Að lokum er það þriðji og stærsti þátturinn sem veldur launamun kynj- anna: skakkt verðmætamat samfélagsins. Konur á Íslandi vinna meira en karlar í störfum við þjónustu, umönnun og fræðslu, sem eru lægra launuð en störf í starfsgreinum þar sem karlar eru í meirihluta, eins og í framleiðslu eða byggingarstarfsemi. Enn sem komið er eru fá verkfæri sem við höfum til að uppræta þennan mun. Þessi ástæða afhjúpar kynjakerfið sjálft, þá staðreynd að kvennastörf eru minna metin en karlastörf.

34 Hvernig breytum við skökku verðmætamati? Sumt fólk telur bestu leiðina að hvetja karla til að fara í umönnunarstörf og konur í bygg- ingarstörf. Aðrir telja betra að endurmeta kvennastörf og hækka laun þeirra. Hvað finnst þér? Eitt er víst og það er að við eigum ekki eftir að ná kynjajafnrétti fyrr en konur fá greidd sömu laun og karlar fyrir sambærilega vinnu. Fjárhagslegt sjálfstæði kvenna er undirstaða kvenfrelsis í samfélaginu. Kynbundið ofbeldi Eitt mikilvægasta málefni jafnréttisbaráttunnar hefur verið kynfrelsi en í því felst frelsi hverrar manneskju til að ákveða hvort og hvenær hún vill taka þátt í kynferðislegum athöfnum en einnig rétturinn til þess að fræðast um og hafa vald yfir eigin líkama. Í þessum kafla lærir þú meira um kynbundið ofbeldi, drusluskömm, nauðgunarmenningu, stafrænt kynferðisofbeldi og #MeToo. Stór hluti af baráttu kvenna og kvára fyrir kynfrelsi hefur snúist um aðgang að getnaðarvörnum og að fólk megi njóta kynlífs á sínum eigin forsendum en ekki annarra. Það að ráða yfir sínum eigin líkama er að hafa rétt til að velja eða hafna þátttöku í kynlífi og að vera frjáls undan hvers kyns kynferðislegri misnotkun, svo sem nauðgunum, kynferðislegri áreitni og drusluskömm. Drusluskömm er áfellisdómur sem fólk verður fyrir vegna þess að það fellur á einhvern máta ekki undir væntingar samfélags- ins til kyn- eða kynlífshegðunar. Konur verða mun frekar fyrir

35 drusluskömm en karlar. Drusluskömm getur komið til vegna þess að einhverjum finnst kona klæða sig á óviðeigandi hátt, sýna mikið sjálfs- traust, hafa átt of marga bólfélaga eða hafa mikinn áhuga á kynlífi. Karlar sem sýna sömu hegðun verða ekki fyrir álíka drusluskömm. Drusluskömm er beitt til þess að niðurlægja fólk og er leið til þess að viðhalda ríkjandi hugmyndum um konur og kynlíf. Kynfrelsi stangast því miður oft á við hugmyndir sem fólk hefur um hvað sé góð, rétt og æskileg hegðun þegar kemur að kynlífi. Þannig hefur kynfræðsla í skólum oft verið takmörkuð og beinst meira að kynsjúkdómafræðslu og hvernig eigi að nota getnaðarvarnir fremur en að öllu öðru sem nauðsynlegt er að vita til þess að stunda kynlíf á eigin forsendum. Þetta þýðir að hinsegin fólk fær ekki viðeigandi fræðslu sem hefur áhrif á kynheilbrigði þeirra. Þegar kynfræðsluna skortir í skólanum leitar ungt fólk oft til internets- ins. Þar finnur það klám sem gefur brenglaða hugmynd um hvað sé ásættanleg eða eftirsóknarverð hegðun þegar kemur að kynlífi. Grunnstefin sem má finna í klámi eru þau að karlar séu þeir sem stjórna í kynlífi og að konur eigi að gera það sem þeir vilja, að konur njóti þess hreinlega að láta níðast á sér. Í þessum birtingarmyndum eru konur hlutgerðar, settar fram eins og viljalaus verkfæri, á meðan karlar eru gerendur sem nota þær. Þessi birtingarmynd á samskiptum kynj- anna í klámi er stór þáttur í því að skapa nauðgunarmenningu í samfélagi okkar.

36 Íslenskir strákar eiga Norðurlandamet í klámáhorfi. Hvaða áhrif heldur þú að klámáhorf hafi á samskipti kynjanna? Einkenni nauðgunarmenningar er að í henni er gert lítið úr kynferðislegu ofbeldi, að það sé talið léttvægt eða jafnleg eðlilegt og að hægt sé að afsaka það. Birtingarmyndir nauðgunarmenn- ingar geta verið margvíslegar, eins og til dæmis í nauðgunar- bröndurum, með því að umbera eða afsaka kynferðislega áreitni og með því að kenna þolendum um nauðgun með því að segja að ef þeir hefðu bara klætt sig öðruvísi eða hagað sér á annan máta hefði þeim ekki verið nauðgað. Þá er stór hluti af nauðgunarmenningu gerendameðvirkni. Gerenda- meðvirkni er það þegar fólk trúir ekki þolendum og reynir að útskýra eða afsaka hegðun gerenda. Þá hefur fólk meiri áhyggjur af því hvaða áhrif það hefur á gerendur að vera ásakaðir um ofbeldi en hvaða áhrif það hefur á fólk að vera nauðgað. Þessi viðhorf hafa haft þær afleiðingar að þolendur veigra sér við að stíga fram og leita réttar síns. Á Íslandi og í öllum ríkjum heims gengur illa að sækja til saka og sakfella fyrir kynferðisbrot. Í íslenskum lögum er kynbundið ofbeldi skilgreint sem svo: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=