Sjálfbærni - Rit um grunnþætti menntunar

SJÁLFBÆRNI 50 Kostnaður náttúrunnar Spurning: Við borgum peninga fyrir mat og hluti en hvað borgar náttúran fyrir það sem við notum? Framkvæmd: Valin einhver fæðutegund eða hlutur og ferill vörunnar rakinn og teiknaður í flæðiriti. Hvaðan kom varan, hvernig varð hún til, hverjir komu að framleiðslu hennar og pökkun, hvernig var varan flutt á áfangastað, jafnvel yfir hálfan hnöttinn? Flutningur vörunnar frá einum stað til annars er táknaður með striki. Flutningar fara fram með bílum, skipum eða flugvélum og þeim fylgir CO 2 -mengun. Farartæki með CO 2 -merki teiknað á hvert strik. Framleiðsla vöru, flutningur hennar og förgun hefur líka áhrif á umhverfi og náttúru og nemendur. Velta má fyrir sér námuvinnslu, vegum, flugvöllum, höfnum og ruslahaugum. (Hvaða áhrif hafa vegir og ruslahaugar til dæmis á villt dýr?) Síðan reynt að taka saman og meta áhrif framleiðslu og flutnings vörunnar á náttúru og umhverfi. Í fyrstu er gott að bekkurinn geri tiltölulega auðvelt verkefni saman og flæðiritið þá teiknað á töfluna. Síðan geta nemendur unnið verkefni saman í hópum, eða tveir og tveir, hver hópur með sína vöru. Orð sem koma fyrir: Framleiðandi, lífræn ræktun, mengun, koltvísýringur, CO 2 , verksmiðjur, umbúðir, milliliðir, heildsali, smásali og mörg fleiri. Dæmi: Hrísgrjón eru ræktuð á flæðiökrum í fjarlægum löndum svo að við vitum lítið um ræktunina, hvort hún er lífræn eða hvort bændur nota til dæmis tilbúinn áburð og skordýraeitur. Við vitum líka lítið um aðstæður bændanna sem sá grjónunum, hugsa um vöxt þeirra og safna uppskerunni. Hrísgrjónin eru með brúnu hýði en flestir vilja hafa þau hvít og glansandi. Svo að farið er með grjónin í verksmiðju þar sem þau eru hreinsuð og hýðið tekið af þeim. (Um leið tapast mikið af næringarefnum.) Flutningur vöru frá akri til verksmiðju er táknaður með striki og á því bíll með CO 2 merki. Kannski er grjónunum pakkað á sama stað en kannski eru þau flutt á annan vinnslustað þar sem þeim er pakkað. Að þeim stað koma þá umbúðir í bílum með CO 2 merki. Svo halda pökkuðu grjónin áfram til milliliða, heildsala sem selja þau til Evrópu og senda vöruna niður á bryggju. Þar er varan sett í skip sem siglir með hana í umskipunarhöfn, þá er hún keyrð aftur í vöruskemmu, keypt þaðan af íslensku fyrirtæki, keyrð aftur á bryggju, siglt til Íslands, enn keyrt í vöruskemmu og loks í búðir um allt land þar sem við kaupum hana. Förum við á bíl út í búð?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=