Sjálfbærni - Rit um grunnþætti menntunar
SJÁLFBÆRNI 38 Sköpun Án sköpunargáfu sinnar og hæfileika til að breyta umhverfi sínu væru menn líklega enn í „aldingarðinum Eden“. Þegar fólk hætti að láta sér nægja það sem náttúran gefur en fór að rækta landið, móta það að þörfum sínum og skapa sér aðstæður að nokkru leyti, breyttust viðhorf fólks til náttúrunnar. Sumar lífverur urðu „vinir“ mannsins (húsdýr og nytjaplöntur) aðrar „óvinir“ (illgresi og rándýr). Afstaða manna til náttúru breyttist enn frekar við iðnbyltingu og stórborgarmyndun. Menn fjarlægðust náttúruna, hún varð þeim framandi ógn sem þyrfti jafnvel að sigrast á. Hugviti mannsins til vísindaafreka og tæknilausna sýnast engin takmörk sett. En sköpun í formi iðnþróunar hefur leitt mannkyn í öngstræti. Til að snúa af þeirri braut þarf fyrst og fremst að breyta afstöðu til náttúrunnar. Fólk verður að viðurkenna og skilja að það er hluti af náttúrunni. Það þýðir ekkert að ætla sér að sigrast á náttúrunni til að lifa heldur þarf fólk að sigrast á sjálfu sér og umgangast náttúruna með hófsemi og virðingu. Mannkyn nú þarf að beita sköpunargáfu sinni, hugviti og færni sem aldrei fyrr og finna út hvernig best megi vinna með náttúrunni og í takt við lögmál hennar, ekki síst lögmálið um takmarkaðan vöxt og endurnýtingu og endurvinnslu hringrása . Menntun til sjálfbærni þarf því ekki aðeins að leggja áherslu á þekkingu og skilning á viðfangsefnum og hæfni og færni til að leysa þau heldur þarf menntun til sjálfbærni ekki síst að breyta viðhorfi fólks til umhverfis síns og efla samkennd og væntumþykju til náttúru og samfélags.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=