68 æfingar í heimspeki

8 68 ÆFINGAR Í HEIMSPEKI – Menntamálastofnun 2020 – 40596 A. Heimspekileikir (heimspekilegar upphitunaræfingar) Æfing 1: Að hugsa sér dýr Gögn: Engin. Markmið: Að hlusta á virkan hátt, safna upplýsingum, spyrja, samstarf, ályktunarhæfni. Aldur: Allur aldur. Lýsing: Setið er í hring eða hálfhring. Einn hugsar sér dýr. Farinn er hringur þar sem einn spyr í einu þann sem hugsaði sér dýrið. Sá sem hugsaði sér dýrið má aðeins svara játandi eða neitandi. Smátt og smátt verður hópurinn búinn að safna svo miklum upplýsingum að augljóst ætti að vera um hvaða dýr er að ræða. Æfing 2: Frá hinu smæsta til hins stærsta Gögn: Engin. Markmið: Að hlusta á virkan hátt, safna upplýsingum, spyrja, samstarf. Aldur: Allur aldur. Lýsing: Setið er í hring eða hálfhring. Einn hugsar sér smæsta dýr sem mögulegt er. Sá næsti sem situr við hlið hans hugsar sér aðeins stærra dýr, sá þriðji aðeins stærra en sá númer tvö og svo koll af kolli þar til ekki er hægt að hugsa sér stærra dýr. Einnig er mögulegt að byrja á að hugsa sér stærsta dýrið og fara að hinu smæsta. Ekki er heldur endilega nauðsynlegt að um dýr sé að ræða, hér má taka fyrir hvað sem er sem hugsa má um í stærðarhlutföllum. Æfing 3: Að spyrja og svara spurningu með spurningu Gögn: Engin. Markmið: Að hlusta á virkan hátt, að einbeita sér, efla hugmyndaflug, spyrja. Aldur: Allur aldur. Lýsing: Þátttakendur sitja í hring. Einn hefur leikinn með því að spyrja annan að einhverju. Sá sem fær spurninguna má ekki svara henni heldur svarar með því að varpa fram spurningu til einhvers annars. Ef einhver gleymir sér og svarar spurningunni fellur hann úr leik. Hér þarf leiðbeinandi að vera vakandi fyrir því að allir fái spurningu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=