68 æfingar í heimspeki

31 68 ÆFINGAR Í HEIMSPEKI – Menntamálastofnun 2014 – 40596 Æfing 21: Mótað í leir Gögn: Blöð, skriffæri, leir, ljósmyndir. Markmið: Að láta huga og hönd vinna saman, hugtakagreining. Aldur: Allur aldur. Lýsing: Allir fá leir og byrja á því að hnoða hann í höndunum. Síðan fá allir ljósmynd t.d. ljósmynd úr tímariti, dagblaði, af netinu eða sem stjórnandi hefur tekið. Engir tveir fá sömu myndina. Þátttakendur skoða vel myndina sem þeir fengu og búa til eitthvað úr leirnum sem er undir áhrifum frá myndinni. Þátttakendur skrifa niður hvað þeir gerðu og finna hugtak sem þeim finnst passa við verk sitt. Þegar allir hafa lokið við sín verk og skráð niður hugtak færa allir sig yfir í annað sæti. Þar skoða þátttakendur það verk og ljósmynd semþar er fyrir og finna hugtak sem þeim finnst passa við og skrá á það blað sem þar er. Að því loknu fara allir aftur í sín fyrri sæti og komast að því hvaða hugtak hafði verið skrifað um þeirra verk. Hver og einn skrifar niður mat um sitt verk í ljósi þeirra tveggja hugtaka sem fram hafa komið um þau. Passa hugtökin bæði jafn vel við verkið? Er annað hugtakið betra en hitt? Hver er niðurstaðan? Þátttakendur rökstyðja afstöðu sína. Þátttakendur kynna niðurstöðurnar og ræða. Æfing 22: Hvað er það skrítnasta sem þú hefur borðað? Gögn: Blað og skriffæri. Markmið: Sjálfsskoðun, kynnast mismunandi menningarupplifunum, greina hugtakið skrítið . Aldur: Miðstig og eldri. Lýsing: Þátttakendur skrifa niður það skrítnasta sem þeir hafa borðað. Hvað þeir telja skrítið er undir þeim sjálfum komið. Ef þeir hafa borðað margt skrítið má skrifa það allt niður eða bara það allra skrítnasta. Þátttakendur gefa ekki upp hvað þeir skrifuðu að svo stöddu. Þegar allir hafa skrifað það skrítnasta sem þeir hafa borðað brjóta þeir miðana saman og leiðbeinandi safnar þeim saman. Að því búnu fá þátttakendur að draga einn miða hver af þeim sem voru skrifaðir. Hver og einn les nú upp það sem stóð á miðanum sem hann dró og giskar á hver skrifaði á miðann sem dreginn var. Aðrir þátttakendur geta aðstoðað við ágiskanirnar. Rökræður. Í rökræðum má spyrja út í einstakar upplýsingar sem fram koma, s.s. hvar viðkomandi borðaði matinn. Hvað var svona skrítið við hann? Var maturinn góður eða vondur? Finnst öðrum umræddur matur skrítinn? Hvað þýðir hugtakið skrítið ? o.s.frv. Má finna eitthvað sameiginlegt með þeim tegundum matar sem talað var um?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=