68 æfingar í heimspeki

24 68 ÆFINGAR Í HEIMSPEKI – Menntamálastofnun 2020 – 40596 Æfing 15: Hver er besta og hver er versta spurningin? Gögn: Kveikja úr æfingu 14 ásamt meðfylgjandi spurningum. Markmið: Að þátttakendur greini góðar spurningar frá slæmum. Aldur: Unglingastig og eldri. Sömu æfingu má gera með yngri þátttakendum ef notaður er léttari texti. Lýsing: Í æfingunni er sama kveikja notuð og í æfingu númer 14 þar sem þátttakendur settu sig í þær stellingar að hafa hlýtt á fyrirlestur sem endaði á þessum orðum: Af hverju geta þessir listamenn ekki bara farið að vinna og komið sér í eðlilega vinnu eins og allt venjulegt fólk? Í stað þess að búa til spurningar eins og í fyrri æfingu þá skoða þeir spurningar sem leiðbeinandi kemur með og áður hafa komið fram í öðrum hópum. Leiðbeinandi hefur allar spurningarnar prentaðar út á miðum, ein spurning á hvern miða. Hver þátttakandi eða hver hópur dregur eina spurningu. Athugasemd : Í tveimur tilvikum er ekki um spurningu að ræða. Er það vísvitandi gert til þess að kanna hvort þátttakendur átti sig á að svo sé. Brýnt er að gæta þess að þátttakendur fái ekki vitneskju um þessa „gildru“ fyrr en að lokinni æfingunni. Spurningarnar eru: • Af hverju getur þú ekki fengið þér eðlilega vinnu? • Hvað telur þú að það yrðu margir listamenn eftir á Íslandi ef þeir þyrftu að lifa á því sem verk þeirra seldust fyrir? • Af hverju getur venjulegt fólk ekki orðið að listamönnum? • Alltaf jákvætt þegar stjórnmálaflokkar minna fólk reglulega á fyrir hvers konar afturhald og fordóma þeir standa fyrir. • Hvað þarf marga listamenn í eðlilegri vinnu til að greiða sjálfum sér tugmilljónir í arð? • Hvað er merkilegra við þína vinnu en vinnu listamanns? • Hvað er eðlileg vinna? • Skilgreindu listamann. • Hvað er venjulegt fólk? • Leyfir samfélagið að verkamaðurinn leggi niður skóflu sína og ákveði að gerast listamaður? • Að vera listamaður er vinna og áhugamál, þannig að það er ekki hægt að segja að það að vera listamaður sé ekki vinna. • Af hverju lítur þú ekki á sjálfa(n) þig? • Af hverju þegir þú ekki? Þegar allir hafa dregið spurningu les hver þátttakandi/hópur þá spurningu sem dregin var og svarar því hvort hún sé góð eða slæm og færir rök fyrir máli sínu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=