68 æfingar í heimspeki
11 68 ÆFINGAR Í HEIMSPEKI – Menntamálastofnun 2014 – 40596 B . Skerpt á skynfærunum – Að taka eftir því sem birtist Æfing 8: Hvað sérðu? Gögn: Myndir (ljósmyndir, teikningar eða málverk), skriffæri, blöð. Reynst hefur vel að nota myndir teknar úti í náttúrunni sem hafa möguleika á mismunandi túlkunum. Mögulegt er að sjá ýmis form t.d. af skýjamyndum, myndum af samspili fjalla, fossa og himins og einnig í abstrakt málverkum. Nokkrar myndir fylgja með æfingunni. Markmið: Að rannsaka það sem birtist, fanga það sem birtist með hugtaki, undrast og upp- lifa og deila upplifunum sínum, samræða. Aldur: Allur aldur. Lýsing: Stjórnandi hefur nokkrar myndir, a.m.k. eina mynd fyrir hvern þátttakanda og eru allar myndir merktar með númerum. Þátttakendur velja sér númer og skrifa númerið sem valið er niður á blað (það er gert til þess að þeir skipti ekki um skoðun eftir að æfingin er hafin). Einn byrjar á að segja frá því númeri sem hann valdi. Stjórnandi getur staldrað við þegar hér er komið sögu og spurt hvers vegna viðkomandi valdi það númer sem valið var. Þátttakandi fær mynd með því númeri sem var valið. Nú fær næsti að segja frá sínu númeri og svo koll af kolli uns allir hafa fengið mynd. Ef einhverjir tveir eða fleiri hafa valið sama númerið er tilvalið að biðja þann sem er með númer á mynd sem annar hefur fengið að finna lausn á málinu. Það má gera t.d. með því að spyrja: Hvað viltu gera í því að annar er með þá mynd sem þú valdir? Stundum segir viðkomandi að hann sé til í að velja sér annað númer, stundum segir hann að hann vilji fá þá mynd sem annar er þegar með og þá má rökræða þann möguleika hvort sá sem var kominn með myndina eigi að láta hana af hendi. Það er um að gera að flýta sér hægt og nota tækifærið ef upp kemur möguleiki á að staldra við og rökræða einstaka mál. Þegar allir hafa fengið myndir skoðar hver sína mynd vel og svarar tveimur spurn- ingum skriflega og deilir ekki upplifun sinni með öðrum að svo stöddu: 1) Hvað sérðu á myndinni? Þátttakendum er frjálst að skrifa það sem þeir sjá. 2) Hvaða hugtak finnst þér einkenna myndina sem þú ert með? Veldu eitt hugtak. Þegar allir hafa lokið við að skoða myndirnar og velja hugtök safnar stjórnandi myndunum saman og dreifir þeim af handahófi til þátttakenda þannig að allir fá aðra mynd en þeir voru með. Nú er verkefnið endurtekið á sama hátt og áður, þ.e. allir skoða þær myndir sem þeir fengu, skrifa niður það sem þeir sáu og velja eitt hugtak sem einkennir myndina. Bæta má við spurningu t.d.: Hvaða tilfinningu vekur myndin hjá þér? Þegar þessu er lokið er reynslunni deilt. Nú fær hópurinn að heyra það sem hver og einn sá og hvaða hugtök voru valin og er borið saman hvort þeir tveir sem voru með sömu mynd hafi séð það sama á myndunum og valið sama hugtak eða hvort þeir hafi séð mismunandi hluti og valið mismunandi hugtök.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=