Saman gegn matarsóun
8 Saman gegn matarsóun • Kolefnisspor – er mælikvarði á magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar út í andrúms- loftið við mannlegar athafnir. Það vísar, með öðrum orðum, til þess magns koltvísýrings sem losað er, beint eða óbeint, vegna daglegra athafna, s.s. samgangna, neyslu, heimilis- halds, matarsóunar og annars. Lífsstíll hefur því mikil áhrif á stærð kolefnisspors hvers og eins. Til að jafna út kolefnisspor sitt má græða land eða planta trjám sem binda sambæri- legt magn kolefnis og losunin segir til um. Góð leið til að minnka kolefnisspor sitt er að minnka neyslu (t.d. keyra og fljúga minna og kaupa minna). • Vistspor – er annar mælikvarði á þau áhrif sem mannfólkið hefur á jörðina. Kolefnisspor er ólíkt vistspori að því leyti að kolefnisspor mælir eingöngu áhrif lífsstíls á magn kolefnis í andrúmslofti á meðan vistsporið tekur til mun fleiri þátta. Vistspor er mælikvarði á hve mikið af gæðum jarðar fólk nýtir við neyslu sína og hve miklum úrgangi eða mengun það skilar frá sér. Því meiri sem neyslan er því stærra er vistsporið. • Loftslagshamfarir af mannavöldum – Þegar gróðurhúsaáhrif eru aukin, þ.e. þegar meira af gróðurhúsalofttegundum er dælt út í andrúmsloftið m.a. við bruna á kolum og olíu, iðnað, landeyðingu og matarsóun, sleppur minni varmi út um lofthjúpinn. Varminn helst því innan lofthjúpsins með þeim afleiðingum að jörðin hlýnar. Þessi aukning er nú þegar farin að hafa í för með sér alvarlegar breytingar á jörðinni okkar, m.a. bráðnun jökla, hækkun sjávar, þurrka, stærri og hættulegri fellibylji. Þessar breytingar hafa hingað til verið kallaðar loftslagsbreytingar en það orð er ekki mjög lýsandi. Greta Thunberg, sem hratt af stað loftslagsverkföllum ungmenna um allan heim árið 2018, er á meðal þeirra sem bent hafa á að ekki ætti að nota orðið loftslagsbreytingar (á ensku: climate change) heldur meira lýsandi orð eins og t.d. loftslagshamfarir, hamfarahlýnun eða loftslagsvá (á ensku: climate crisis). Í þessu námsefni verður orðið loftslagshamfarir notað.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=