RISAstórar smáSögur 2025

30 „Pabbi, Sokka er búin að eignast lamb!“ kallaði hún. Hún klappaði Sokku og óskaði henni til hamingju, svo strauk hún lambinu og tók það varlega upp. Lambið var svart eins og kol, með eina snjóhvíta stjörnu á enninu. „Ég ætla að kalla þig Doppu,“ hvíslaði hún. María sat allan daginn með Sokku og Doppu og var svo ánægð og glöð. Doppa var mjög vinaleg eins og mamma sín. 2. KAFLI María vaknaði snemma næsta morgun og hljóp strax út í fjárhús. Það var dimmt og kalt inni í fjárhúsinu. María hélt að Doppa væri horfin en allt í einu sá hún litlu hvítu stjörnuna hennar Doppu undir garðabandinu. Doppu brá og hljóp til mömmu sinnar. Sokka stóð á fætur og Doppa fékk sér mjólkursopa. Pabbi kom inn í fjárhúsin. „María það er frostlaust og fallegt veður, eigum við að setja Sokku og lambið hennar út?“ spurði pabbi. „Já, það væri gaman,“ svaraði María. Hún tók Doppu upp og rölti út með Sokku á hælunum. Sokka skokkaði út á tún. María setti Doppu niður í grasið við hliðina á Sokku. Doppa tók munnfylli af safaríku grasi og jórtraði. Doppa hélt áfram að bíta bragðgott grasið þar til hún var alveg að springa. Hún labbaði að móður sinni og þær kúrðu saman í sólinni. Doppa varð að hvíla sig, hún lokaði augunum og sofnaði.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=