RISAstórar smáSögur 2025

136 Þegar Stína kemur auga á mig brosir hún sínu tannlausa brosi og spyr: „Sunna, hvar varst þú eiginlega? Við erum sko að leggja af stað á bókasafnið!“ Ég reyni að hunsa það hversu augljósan hlut Stína þurfti endilega að benda á og svara henni: „Æ, bíllinn bilaði svo við þurftum að labba í skólann.“ „Af hverju gat afi þinn eða amma ekki bara skutlað þér?“ þarf Stína endilega að spyrja. Hún getur verið svo hnýsin. „Æ, þau eru á Tene,“ segi ég. Þá þarf hún auðvitað að spyrja af hverju hinn afi minn og amma gátu ekki bara skutlað mér. Þá upplýsi ég Stínu um það hversu svakalega hnýsin hún sé sem ég hefði kannski ekki átt að gera því þá verður Stína bara pirruð og segir mér að ég sé bara algjör dóni og stormar í burtu. Þess vegna neyðist ég til að labba með Áróru á bókasafnið. Áróra er greinilega að stefna í að setja heimsmet í horáti miðað við allt þetta hor sem hún er búin að vera að háma í sig alla leiðina á bókasafnið og hafði þess vegna ekki neinn tíma til að spjalla við mig. Það sem ég skil samt ekki er hvernig nær hún öllu þessu hori úr nefinu sínu? Engin venjuleg manneskja getur verið með svona tonn af hori í nefinu sem alltaf kemur meira af. Hún ætti kannski að fara til læknis. Ég ákveð samt að vera ekkert að ráðleggja henni það því hún gæti kallað mig dóna og stormað í burtu eins og Stína.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=