RISAstórar smáSögur 2025

130 „Drífum okkur,“ segir Lilja og hleypur af stað. Ég ætla að spretta á eftir henni þegar ég sé mömmu í dyrunum. En ég er með hugmynd. Ég tek upp nestisboxið, tek bita af samlokunni og kasta út í loftið. „Fyrir fuglana,“ segi ég. Ég hleyp svo lengra, kasta öðrum bita, sulla djúsi og spretti eins hratt og ég get til Lilju. „Tjöldum,“ segir Lilja og sturtar úr bakpokanum. Hún er með FULLT af dóti: tjald, sjónauka, áttavita, talstöðvar, svefnpoka, vasaljós og meira að segja ísöxi. „Maður veit aldrei hvað gerist í svona leiðöngrum!“ segir Lilja sposk á svip. Við tjöldum og læðumst svo af stað. Við leggjumst í grasið og bíðum í smá stund. Þegar við erum búin að liggja í grasinu í svolítinn tíma segir Lilja: „Ég fer hinum megin við og kíki, tölum saman í talstöðvunum.“ Þegar hún er komin hálfa leið keyrir bíllinn að … ó … nei! „LILJA BEYGÐU ÞIG NIÐUR NÚNA, BÍLLINN ER AÐ KOMA!“ Sem betur fer heyrir hún í mér og kastar sér í grasið. Fólkið fer út úr bílnum, það er með svartar grímur fyrir andlitunum og í svörtum fötum, alveg eins og í bíómyndum. Það gerir eitthvað sem við sjáum ekki og fer svo aftur í bílinn. Þá sprettum við að bílnum og klifrum upp í skottið, hljóðlega. Í bílnum er grafarþögn. Bílferðin tekur svona tíu mínútur, en þetta eru lengstu tíu mínútur sem ég hef upplifað. Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn rosalega hræddur og ég sé að meira að segja Lilja er orðin smá hrædd. Loksins stoppar bíllinn.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=