Risastórar smásögur 2023 2023
ISBN 978-9979-0-2851-2 © Texti, höfundar sagna, sjá efnisyfirlit © Teikningar, höfundar teikninga, sjá sögurnar Ljósmyndir bls. 51 og 63 Shutterstock Dómnefnd: Melkorka Gunborg Briansdóttir, Rut Ragnarsdóttir, Sigríður Wöhler og Sunna Björk Þórarinsdóttir Ritun formála: Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur Ritstjórn MMS: Sigríður Wöhler, Guðbjörg Rut Þórisdóttir Málfarslestur: Ingólfur Steinsson Hönnun og umbrot: Menntamálastofnun og Margrét Lóa Stefánsdóttir Útgefið 2023 Menntamálastofnun Kópavogi Öll réttindi áskilin Prentun: Litlaprent ehf. 2023
Efnisyfirlit Formáli 5 Arndís Þórarinsdóttir Óli sem datt óvart inn í heim 7 Týr Fenger Ólafsson, 7 ára Máni fer til tunglsins 8 Jakob Máni Danielsson Kolár, 8 ára Tölvuleikjaheimurinn 11 Rakel Eva Hrólfsdóttir, 9 ára Grísasaga 13 Steinar Áki Davíðsson, 6 ára „Kriss, krass, klipp og klapp“ 15 Júlía Rós Guðbjartsdóttir, 8 ára Draugarnir þrír 17 Kristín Diljá Ástþórsdóttir, 9 ára Álög og eldar 18 Óttar Benedikt Davíðsson, 8 ára Furðulega fjölskyldan 20 Unnur Mist Stefánsdóttir, 9 ára María og nammilandið 22 Laufey Ósk Ævarsdóttir, 7 ára Hefndin 25 Ingibjörg Mathilda Arnórsdóttir, 9 ára Smásaga ársins í flokki 2023 6 til 9 ára
Baunin undir prinsessunni 31 Tobias Auffenberg, 12 ára Óvænt afmælisveisla 34 Haukur Darri Björnsson, 11 ára Ása Tvist 36 Jóhanna Sigurlilja Sigurðardóttir, 12 ára Soffía kynnist nýju fólki: Stelpan í lyftunni 39 Járngerður Þórgnýsdóttir Thoroddsen, 11 ára 87 ár aftur í tímann 46 Gunnar Draupnir Bendikz, 12 ára Goðafræða-Ormurinn 50 Aron Samuelsson Perrella, 11 ára Afi gítarsmiður 52 Einar Þór Sævarsson, 10 ára Dularfulli nágranninn 55 Kría Kristjónsdóttir, 11 ára Óveðrið 57 Ragna Egilsdóttir, 12 ára Hálsmenið 59 Lísa Laxdal, 11 ára Smásaga ársins í flokki 2023 10 til 12 ára
5 Í þessu safni má lesa sögur eftir tuttugu rithöfunda. Í bókinni sjáum við hvað þeim liggur á hjarta, hvað þeim finnst spennandi og hvað þeim finnst fyndið. Við sjáum hvað þeim finnst skipta máli og hvað þeir eru að hugsa um. Við lesendurnir fáum að sjá heiminn frá tuttugu mismunandi sjónarhornum. En ég meina ekki bara að þetta sé ægilega menntandi og þroskandi fyrir okkur lesendurna – nei, nei, nei! Engar áhyggjur. Þetta eru skemmtilegar sögur. Tölvuleikir, fjölskyldur, galdrar, glæpir, ofurhetjur, svín, geimferðir, tímaflakk, leyndarmál, ferðalög, einelti, draugar og ævintýri lifna við á síðum bókarinnar. Sögur sem voru ekki til fyrr en höfundar þeirra fönguðu þær. Engir aðrir en einmitt þessir höfundar hefðu getað skrifað einmitt þessar sögur. Þess vegna er svo gaman að lesa þær. Oft þegar er rætt um sögur eftir unga höfunda eru þeir kallaðir rithöfundar framtíðarinnar. Það finnst mér rangnefni. Í þessari bók birtast ekki sögur eftir rithöfunda framtíðarinnar. Þau eru rithöfundar nútíðarinnar sem hafa þegar stigið fram á sviðið. Góða skemmtun. Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur Formáli
6
7 Óli sem datt óvart inn í heim Týr Fenger Ólafsson, 7 ára Það var einu sinni strákur sem hét Óli. Óli fór út í búð að kaupa epli fyrir mömmu sína. Þegar hann ætlaði að fara inn í búðina fór hann óvart inn í annan heim. Þessi heimur var eins og klipptur út úr ímyndunarafli Óla! Allt sem hann hugsaði um birtist í heiminum. Hann hugsaði um ís og það birtust ísar sem flugu. Hann hugsaði um uppvakning og allt í einu var uppvakningur að elta hann. Hann hugsaði um holu og uppvakningurinn datt ofan í holu. Óli fann takka og ýtti á hann, þá var heimurinn breyttur og Óli var kominn í búðina. Óli vissi ekki hvort hann hefði verið að dagdreyma eða hvort heimurinn hefði verið raunverulegur. Óli keypti eplin og fór heim með þau.
8 Máni fer til tunglsins Jakob Máni Danielsson Kolár, 8 ára Einu sinni var maður sem hét Máni. Hann var mjög hrifinn af alheiminum og spurði geimfara hvort hann mætti fara út í geiminn með þeim og þeir sögðu já. Máni var svo glaður. Hann fékk geimbúning og fór inn í geimflaugina sem var á leiðinni til tunglsins. Þegar geimflaugin lenti fór Máni strax út úr henni og steig sitt fyrsta skref á tunglinu. Þegar hann var búinn að skoða sig um hringdi hann í mömmu sína í gegnum gervihnattasíma og sagði henni frá því hvernig ferðin gekk. Þegar hann var búinn að tala við mömmu sína komu hinir geimfararnir og báðu Mána um að spila með sér fótbolta. Þeir spiluðu bara einn leik því það var mjög erfitt að spila fótbolta í geimfarabúningnum en það var samt líka mjög skemmtilegt. Eftir fótboltaleikinn þurftu geimfararnir að taka myndir af tunglinu og taka sýni úr jarðveginum til að rannsaka tunglið betur þegar þeir kæmu aftur til jarðarinnar. Geimfararnir spurðu Mána hvort hann vildi fá mynd af sér á tunglinu og hann var sko til í það og fékk fána til að setja á tunglið til að sýna að þeir hefðu verið þar. Þó Mána hafi fundist mjög skemmtilegt að vera á tunglinu var hann líka glaður þegar það var kominn tími til að fara aftur heim. Smásaga ársins í flokki 2023 6 til 9 ára
9 Máni og geimfararnir fóru aftur í geimskipið og lögðu af stað til jarðarinnar. En á heimleiðinni gerðist svolítið svakalegt. Geimflaugin varð eldsneytislaus á miðri leið! Geimfararnir urðu allir mjög hræddir en Máni fékk góða hugmynd. Hann fann fallhlífar og fékk alla til að stökkva út úr geimflauginni og þeir dýfðu sér niður til jarðarinnar. Um leið og þeir nálguðust jörðina opnuðu þeir fallhlífarnar sínar og svifu niður þangað til þeir lentu örugglega þar sem fullt af fólki tók á móti þeim. Lögreglubílar, sjúkrabílar og slökkviliðsbílar voru út um allt, fréttamenn tóku myndbönd og viðtöl við Mána og geimfarana en Máni var glaðastur þegar hann sá mömmu sína hlaupa í gegnum hóp af fólki til að knúsa hann. Geimflaugin brotlenti á túni rétt hjá þeim en sem betur fer slasaðist enginn og slökkviliðsmennirnir slökktu eldinn fljótt og örugglega. Máni var svo feginn að hafa komist öruggur heim og ákvað að þó að ferðin hefði verið mjög skemmtileg þá myndi hann í framtíðinni skoða alheiminn í bókum og með kíki.
10
11 Tölvuleikjaheimurinn Rakel Eva Hrólfsdóttir, 9 ára Solla sat og horfði á sjónvarpið þegar auglýsing birtist á skjánum: NÝR TÖLVULEIKUR Í TÖLVUKAUP! Þennan leik varð hún að fá. Það var eitt eintak eftir þegar hún kom í búðina. Solla ætlaði að fara að borga en þá hvíslaði afgreiðslukonan: „Ég faldi tölvuleikinn til þess að ÞÚ gætir fengið hann.“ Solla þakkaði fyrir sig, frekar hissa. Um leið og Solla kom heim kveikti hún á tölvuleiknum og ætlaði að byrja að spila þegar það heyrðist undarlegt hljóð og allt fór að snúast í hringi. Einhver sagði: „Velkomin í TÖLVULEIKJAHEIMINN!“ „Hver er þetta?“ spurði Solla. „Þetta er ég, TÖLVULEIKJAANDINN!“ sagði röddin. „Bíddu nú við, er ég inni í tölvuleiknum mínum?“ spurði Solla og klóraði sér í kollinum. Andinn svaraði: „Ja, það má segja það. Þú komst í gegnum hann en þú ert ekki inni í honum. Þú ert hérna til að hjálpa okkur með stórt vandamál í tölvuleikjaheiminum.“ Andinn hélt áfram. „Þannig er að það er komið nýtt app, GOTT og GAMAN. Öllum tölvuleikjabúðum í heiminum verður skipt út fyrir búðir sem selja bara GOTT og GAMAN dót, allir munu henda tölvuleikjunum sínum og þá hverfum við sem búum í Tölvuleikjaheiminum.“
12 „Hvernig get ég hjálpað?“ sagði Solla. Andinn sagði: „Þú verður að setja vírus inn í Gott og Gaman appið. Þú þarft að laumast inn á skrifstofu GOTT og GAMAN og setja þennan vírus í appelsínugula kubbinn sem þar er.“ Andinn rétti henni fjólubláan vírus. Svo galdraði hann á hana vængi og sagði henni að fljúga í vestur. Solla tók við vírusnum og setti hann í úlpuvasann og flaug af stað. Eftir nokkrar mínútur var hún komin að stóru húsi. Solla flaug inn um gluggann og sá appelsínugula kubbinn, þvílík heppni! Hún tók upp vírusinn og ætlaði að stinga honum í kubbinn þegar viðvörunarbjöllur fóru í gang. Allt í einu sá hún vélmenni með rauð augu. Vélmennið teygði sig eftir vírusnum og ætlaði að ráðast á Sollu sem missti vírusinn. Bæði Solla og vélmennið stungu sér í átt að vírusnum, Solla var aðeins fljótari og tróð honum í appelsínugula kubbinn. Vélmennið sem hafði ætlað sér að ráðast aftur á Sollu hvarf, svo hvarf húsið og Solla birtist aftur heima hjá sér. Hún hugsaði með sér hvort þetta hefði verið draumur en þá leit hún á sjónvarpið og sá tölvuleikjaandann sem vinkaði og hvarf.
13 Grísasaga Steinar Áki Davíðsson, 6 ára Ég féll niður á engi og mér leið svolítið skringilega af því það var allt furðulegt í kringum mig. Ég sá tré og ég sá eitthvað bleikt hreyfast á bak við það. Ég sá svín. Ég var með gulrót í vasanum sem átti að vera nesti fyrir mig en ég hugsaði aðeins og þá kastaði ég gulrótinni til svínsins. Svínið greip gulrótina og smjattaði. „Er það svín sem fær gulrót til sín?“ sagði ég. Þetta var fyndið en satt. En allavega, þetta var svona rím-grín-svín. „Svínið getur orðið vinur minn!“ Ég fór á bak á því og það þaut svo hratt að moldin þeyttist út um allt. Við fórum saman á ströndina og fórum í langt sumarfrí. Ég og svínið að eilífu.
14
15 „Kriss, krass, klipp og klapp“ Júlía Rós Guðbjartsdóttir, 8 ára Antonía var fimm ára stelpa sem bjó í litlum bæ úti á landi. Hún var mjög myrkfælin og á hverju kvöldi áður en hún fór að sofa var hún mjög hrædd. Eftir kvöldmatinn var hún vön að læsa dyrunum fram á gang áður en hún háttaði sig inni í herbergi. Þetta kvöld var mamma hennar inni hjá henni að hjálpa henni í náttfötin og fylgdi Antoníu á klósettið fyrir svefninn. „Antonía mín, þú þarft ekki að læsa dyrunum. Það er ekkert að óttast, við erum hérna heima hjá þér,“ sagði mamma hennar. Hún las fyrir hana sögu fyrir svefninn og bauð henni góða nótt. Pabbi hennar Antoníu kom líka til þess að bjóða henni góða nótt. Þá sagði Antonía: „Knús og kossar pabbi“ og hann sagði það sama á móti. Þá vildi Antonía líka fá að segja það sama við mömmu sína, hún kom og Antonía sagði: „Knús og kossar mamma“ og vildi svo aftur fá að tala við pabba sinn. Þá sagði mamma hennar að þetta væri komið nóg, að hún yrði að fara að sofa. Antonía var bara svo hrædd að hún vildi ekki vera ein. Þegar foreldrar hennar fóru út úr herberginu og það var alveg hljótt þá heyrði Antonía hljóð: „Kriss, krass, klipp og klapp!“ Hún varð mjög hrædd!
16 Þá kom hljóðið aftur: „Kriss, krass, klipp og klapp!“ Hún fór og vakti pabba sinn og sagði honum að það væri einhver inni í herberginu sínu að segja: „Kriss, krass, klipp og klapp!“ Pabbi hennar bað hana um að hætta þessari ímyndun, að hún væri bara hrædd við myrkrið en það væri ekkert í myrkrinu. Antonía var alveg viss um að einhver hefði komið inn í herbergið því það var ekki læst. Það endaði með því að pabbi hennar leyfði henni að sofa uppi í rúmi hjá þeim. Hann ákveður að sofa þá í rúminu hennar Antoníu. Seinna um nóttina vaknar hann við hljóð, hann hlustar betur og heyrir: „Kriss, krass, klipp og klapp.“ Hann sækir Antoníu sem var enn vakandi og segir henni að koma með sér út og athuga hvaðan hljóðið kæmi. Þau fóru að læknum sem var fyrir utan húsið og lögðust í grasið og þá rann upp fyrir Antoníu hvaðan hljóðið kom. Það heyrðist „kriss, krass“ í laufblöðunum, „klipp“ í spætunni sem hjó í tréð og „klapp“ í fiskunum sem hoppuðu í vatninu. Það var nú ekkert svo hræðilegt. „Kriss, krass, klipp og klapp.“
17 Draugarnir þrír Kristín Diljá Ástþórsdóttir, 9 ára Einu sinni var stelpa sem hét Hildur. Hún var æðisleg stelpa en hún var sjúklega hrædd við drauga. Kvöld eitt var hún úti að labba í skóginum með þremur vinkonum. Þær voru að labba til ömmu þar sem þær fengu að borða. Þær voru að labba heim aftur þegar að ein stelpan hvarf skyndilega þegar þær fóru fram hjá risastóru tré. Hinar stelpurnar urðu hissa en héldu áfram. Síðan týndist ein í viðbót þegar þær löbbuðu fram hjá mús. Þær heyrðu tíst, tíst og héldu áfram en þá hvarf síðasta stelpan inn í risastóran stein. Hildur varð hrædd og hljóp af stað heim en áður en hún vissi af voru þær allar komnar aftur. Þegar þær voru allar komnar fóru þær heim til Hildar. Mamma Hildar spurði: „Við hverja ertu að tala Hildur?“ „Ég er að tala við vinkonur mínar. Ein heitir Vala, önnur Anna og sú síðasta heitir Nadía. Við fórum í gegnum skóginn áðan, heim til ömmu og fengum að borða. Þegar við vorum á leiðinni til baka hurfu stelpurnar. Vala hvarf inn í stórt tré, Anna hvarf inn í mús og Nadía hvarf inn í risastóran stein en nú eru þær komnar aftur.“ Mamma Hildar varð skrýtin á svipinn og sagði „Hildur mín, amma þín býr í borginni, hér er enginn skógur og þú ert ein í herberginu.“
18 Álög og eldar Óttar Benedikt Davíðsson, 8 ára Seiðkarlinn Vökull var á heimili sínu að reyna að finna galdur til að búa til skip úr álagakrafti. Hann þurfti að komast á Hauskúpueyju til að stöðva illa galdrakarlinn Brenni. Á meðan Vökull var að reyna að finna galdur, var Brennir í helli sínum að reyna að búa til galdur sem ómögulegt væri að stöðva. Vökull var niðursokkinn þegar Skipsflak sjóræningi ryðst allt í einu inn og segir að Brennir hafi brennt skipið hans. Vökli brá mjög mikið. Hann sagði að hann vissi um galdur sem gæti endurnýjað hluti. Skipsflak varð mjög þakklátur og sagði að hann gerði hvað sem væri til að endurgjalda greiða hans. Vökull sagði að hann vildi fá skipið hans lánað. Hann vissi að hellirinn hans Brennis væri á eyju sem kallast Hauskúpueyja. Vökull lagaði skipið og þeir sigldu af stað og fundu Hauskúpueyju. Þessi eyja hét Hauskúpueyja af því að það var stór klettur á henni sem var í laginu eins og hauskúpa. Þeir gengu að hauskúpuklettinum. Þegar þeir gengu að munni klettsins, steig Skipsflak óvart á reipi. Jörðin hristist ógurlega mikið. Risastór inngangur opnaðist eins og munnur í hauskúpu- klettinum.
19 Þeir gengu inn og í miðjum hellinum var Brennir við seiðpottinn enn þá að reyna að finna galdur. Þá gekk Vökull að honum, tók krukku úr vasanum með stórri, blárri rafmagnskúlu innan í. Hann tók hana upp úr krukkunni og tautaði einhverja galdraþulu. Kúlan sveif upp í loft og skaust beint á Brenni. Hann fraus. Vökull blés galdradufti á hann sem snérist í kringum hann og hann minnkaði. Vökull tók Brenni og setti hann í vasann og fór og færði hann galdralögreglunni sem hafði leitað að honum árum saman. Vökull blés duftinu aftur á hann. Nú snerist það í hringi í hina áttina. Brennir stækkaði. Galdralögreglan setti hann inn í fangaklefa sem var ónæmur fyrir göldrum. Vökull smellti fingrum og það skutust rauðir hringir í spíral frá þeim. Um leið þiðnaði Brennir. Vökull fór aftur heim til sín og Skipsflak aftur á skipið sitt.
20 Furðulega fjölskyldan Unnur Mist Stefánsdóttir, 9 ára Ég ætla að kynna ykkur fyrir klikkuðu fjölskyldunni minni. Pabbi minn er alveg brjálaður í kaffi. Þið eruð örugglega að hugsa: „Það er nú ekkert skrítið við þennan pabba,“ en hann er sko miklu kaffisjúkari en venjulegir pabbar. Þá er komið að mömmu. Segjum bara að hún sé mjög pirrandi en hún heldur að hún sé svakalega umhyggjusöm. Þið munuð skilja hvað ég á við ef þið lesið áfram. Og svo er það bróðir minn hann Robbi. Honum finnast nærbuxur mikilvægasti fatnaður í heimi. Svona er fjölskyldan mín. Einu sinni ákváðum við að fara í frí til Ítalíu en þegar mamma og pabbi voru að panta flug rifust þau svo mikið um hvar við ættum að sitja, því pabbi vildi sæti þar sem flugfreyjurnar koma oftast, svo hann geti fengið kaffi hjá þeim því hann segist ekki geta lifað án þess að fá tíu kaffibolla á dag. Mamma vildi að við sætum öll saman svo hún gæti knúsað okkur og kysst, þannig að á endanum urðu öll sætin uppseld. Ég varð mjög leið, því ég hafði verið spennt að losna úr skólanum þar sem Bella og hin hrekkjusvínin voru. Sem betur fer átti vinur mömmu eldgamla flugvél sem hann skutlaði okkur á.
21 Þegar við komum til Ítalíu fór mamma upp í íbúð að skoða gamlar myndir af okkur, pabbi fór í búð sem heitir CoffeeCoffee, Robbi í búð sem heitir Nærbuxnahöllin og ég í ilmvatnsbúð. Þegar ég var að skoða ilmvötn heyrði ég einhvern segja: „Hún þarf að kaupa sér ilmvatn til að fela svitafýluna.“ Ég sneri mér við og þar voru Bella hrekkjusvín og gengið hennar. Ég ákvað að hætta við og fara heim en þær eltu mig og náðu mér að lokum. Þær tóku af mér bakpokann og byrjuðu að kasta honum á milli sín. Það eina í stöðunni var að hafa samband við mömmu, ég laumaðist til að senda henni skilaboðin: HJÁLP!!! Þegar Bella og gengið voru alveg að fara að hella kóki í bakpokann fékk Bella eitthvað í hausinn, það voru NÆRBUXUR! og fyrir aftan hana stóðu Robbi og mamma. Bellu og genginu brá og ætluðu að hlaupa í burtu með bakpokann en þá stökk pabbi út úr runna og stoppaði stelpurnar. Hann var svo snöggur eftir að hafa þambað svona mikið kaffi síðustu daga að hann náði að hrifsa bakpokann af stelpunum og kasta honum til mömmu. Stelpurnar hlupu æpandi í burtu og mamma knúsaði okkur öll í klessu. Kannski er fjölskyldan mín ekki svo slæm eftir allt saman.
22 María og nammilandið Laufey Ósk Ævarsdóttir, 7 ára María lá í rúminu sínu og gat ekki sofnað. Hún spilaði uppáhalds vögguvísuna sína. Allt í einu sá hún eitthvað sem var bleikt og hvítt. Þetta var kandíflosskisa sem sagði: „Viltu koma með María?“ María sagði: „Já, en hvert?“ „Kemur í ljós,“ sagði kisan. Kandíflosskisan tók í puttann á henni og þær lyftust upp. Þær flugu fram hjá fullt af eyjum en allt í einu lentu þær. Þetta var Nammiland. Þegar hún leit til baka var kisan horfin. Hún labbaði af stað og kom að skógi. Hún hljóp í gegnum skóginn þar til hún sá piparkökuhús. María fór inn í piparkökuþorpið og hitti piparkökukarl og kandíflosskisuna sem sótti hana. „Hvernig kemst ég heim?“ spurði María. „Spurðu kónginn,“ svöruðu þau. „Hvar finn ég kónginn?“ spurði María. „Við vitum ekki en spurðu þorpsbúana,“ sagði piparkökukarlinn. Kandíflosskisan sagði: „Ég skal hjálpa þér.“ Þær bönkuðu hjá fyrsta húsinu. Gúmmíkarl kom til dyra. „Hæ, veist þú hvar kóngurinn er?“ sagði María. „Uuummmm, spurðu Ævar, hann veit um kónginn,“ svaraði gúmmíkarlinn. Þær kvöddu, gengu að næsta húsi og börðu að dyrum. Súkkulaðimaður kom til dyra.
23
24 „Veist þú hvar Ævar er að finna?“ sagði María. Súkkulaðimaðurinn svaraði: „Hann býr í húsi númer 7.“ Þær fóru þangað, bönkuðu og Ævar kom til dyra. „Veist þú hvar kóngurinn er?“ sagði María. „Já, eltið mig,“ sagði Ævar og þau lögðu af stað. Þau gengu í gegnum skóginn og komu að á. Þar var hvorki bátur né brú þannig að María spurði: „Hvernig komumst við yfir?“ Ævar svaraði: „Ég lyfti ykkur yfir. Þið verðið að fara einar.“ Þegar þær voru komnar yfir ána komu þær að kökukastala. Það var ekkert hlið á hallarveggnum en María fékk hugmynd. María spurði: „Kandíflosskisa, getur þú flogið með reipi upp á hallarvegginn ef ég get búið það til?“ „Já,“ sagði kandíflosskisan „prófaðu karamelluspýturnar úr nammitrénu.“ María brýtur greinar, tengir þær saman á rifna endanum og tyggur svo þær festist. Hún tengir saman margar greinar þangað til hún er komin með mjög langt reipi. Kandíflosskisan flaug upp með reipið. María klifraði upp og niður hinum megin. Þær fóru inn í kökukastalann og sáu lakkrísálfaverði. Verðirnir sögðu: „Velkomin, kóngurinn bíður.“ Þær gengu inn í herbergi og fundu kónginn. Kóngurinn var jólasveinninn! María spurði jólasveininn hvernig hún kæmist heim. Jólasveininn svaraði: „Komdu með mér á sleðanum mínum heim til þín.“ Það var aðfangadagskvöld og hún fékk að velja hvaða pakka hún fengi í sokkinn.
25 Hefndin Ingibjörg Mathilda Arnórsdóttir, 9 ára „Hvað eigum við að gera?“ spyr Klara. „Ég veit það ekki,“ svarar Wiktoria. Stelpurnar tvær sitja á hótelherberginu sínu og horfa á YouTube. Þær eru í sumarfríi í London og einar vegna þess að foreldrar Wiktoriu fóru í bíó. „Eigum við kannski að koma á bókasafnið á fjórðu hæð?“ spyr Wiktoria. „Já, já,“ svarar Klara. Þær klæða sig í vesti og fara út á gang. „Bíddu,“ segir Klara, „ég þarf að læsa.“ Þegar Klara er komin út hlaupa þær að lyftunni. Klara er á undan og hoppar inn. Wiktoria ýtir á takkann og lyftan fer að hreyfast upp. Þegar þær eru komnar á fjórðu hæð opnast dyrnar og þar taka á móti þeim RISASTÓRIR veggir fullir af bókum af öllum stærðum og gerðum. Klara labbar að borði og spyr á ensku: „Do you have any books about animals?“ „Yes, they should be on shelf 462, letters ANI, good luck!“ svarar konan við borðið. „Æ, Klara, þú kannt allt um dýr, lesum eitthvað annað.“ „Do you have any mystery books?“ spyr Wiktoria. „Shelf 278, letters MY.“ „Sko,“ segir Wiktoria og fer að leita.
26 Stuttu síðar setjast þær upp í sófa og lesa um Sherlock Holmes. „Ég nenni ekki lengur að lesa,“ segir Klara eftir nokkrar mínútur, lokar bókinni og fer að skila henni í hilluna. En þegar hún setur bókina í hilluna tekur hún eftir rauðum takka á hillunni. Hún setur höndina varlega á takkann og ýtir. Þá fara hillurnar að hreyfast og bak við þær liggja dimm göng. „Wiktoria, komdu og sjáðu,“ segir Klara án þess að hætta að horfa á göngin. „Vá!“ svarar Wiktoria með undrun í röddinni, svo gengur hún inn í göngin. „Bíddu!“ kallar Klara á eftir vinkonu sinni og hleypur á eftir henni. Þær ganga í smá stund og skyndilega standa þær inni á rannsóknarstofu og beint fyrir framan þær stendur doktor Watson. „Góðan dag, stúlkur,“ segir djúp rödd fyrir aftan stelpurnar á ensku. Þær snúa sér við og þar stendur Sherlock sjálfur og fyrir aftan hann stendur stelpa á aldrinum 18–24. „Watson, varst það þú sem bauðst þeim inn?“ spyr Sherlock. „Nei, en mér sýnist þær geta hjálpað okkur,“ svarar Watson. Sherlock snýr sér að stelpunum og spyr: „Hvað heitið þið, stúlkur?“ „Ég heiti Klara og þetta er Wiktoria.“ „Flott, skiptið um föt, svo skal ég útskýra.“ Þegar stelpurnar eru komnar í föt frá því í gamla daga útskýrir Sherlock og konan, sem heitir Tea Wilson, hvernig þau höfðu verið að rannsaka morð á Bill Rackhel og þau hefðu
27 komist að því að morðinginn eigi að vera á balli sem Lord Rackhel ætlar að halda til að kveðja Bill í síðasta skipti. „Og þið komið með í dulargervi, Wiktoria og Klara Mickman,“ klárar Tea frásögnina. Klukkan akkúrat 19:00 stígur fjölskyldan Mickman (Tea, Sherlock, Klara og Wiktoria í dulargervi) inn um dyrnar á Londonstræti 573. „Ég þarf að fara á klósettið,“ tilkynnir Klara þegar þau koma inn í sal. „Ég líka,“ lýgur Wiktoria. „Allt í lagi en drífið ykkur,” segir Tea. Wiktoria hleypur á eftir vinkonu sinni. Hún nær Klöru við baðherbergisdyrnar, þar sem Klara stendur og glápir á dyrnar. „Er allt í lagi?“ spyr Wiktoria. „Farðu og sæktu Sherlock eða lögregluna eða Teu. Gerðu það, drífðu þig!“ svarar Klara. Wiktoria hleypur aftur inn í salinn og fer að leita að Sherlock. Hún finnur hann loks við risastórt hlaðborð. „Komdu, drífðu þig. Klara sagði að ég ætti að sækja þig.“ „Já, ég kem,“ stynur Sherlock og fylgir Wiktoriu aftur að baðherbergisdyrunum. En þar er enginn. Dyrnar eru svolítið skakkar og frá þeim heyrist lágt hvvviiisss og svo verður allt hljótt. Þá tekur Sherlock ákvörðun og æðir beint inn á klósettið. Hann ræðst á veru með poka á höfðinu. Veran undir pokanum stynur: „Afsakið. Ég er fastur, takið bara pokann, mér er sama.“ „Nú jæja, við skulum uppfylla ósk þína,“ segir Sherlock
28 og tekur í band sem var í kringum opið á pokanum og tekur pokann af. Þar er enginn annar en … Bill Rackhel! „Hvað ert þú að gera hér?“ segja Wiktoria og Sherlock í kór. „Átt þú ekki að vera dauður?“ spyr Wiktoria hissa. „Nei, eða jú, ég er draugur, eða … æ, ég þarf víst að byrja á byrjuninni,“ segir Bill og fer að útskýra. „Ég hafði fyrir löngu fengið nóg af því að pabbi vildi ráða öllu um framtíð mína og ég ákvað að hefna mín á pabba. Áætlunin byrjaði með því að ég þóttist vera dauður og ef planið gengi upp ætlaði ég að drepa hann í kvöld. En það mistókst, þannig að þið megið setja mig í fangelsi. Ég er búinn að reyna það sem ég ætlaði alltaf að gera.“ segir hann og horfir á alla í herberginu. „En hvað með Klöru?“ spyr Wiktoria skelkuð. „Ég er hér!“ kallar Klara.
29 Hún kemur fram úr einu af hornunum á baðherberginu. „Mig bara langaði að gá hvað væri í gangi og svo hvarf ég.“ Það var akkúrat það sem gerðist. Þær hurfu og allt í einu gengu þær aftur út úr göngunum á bókasafninu á hótelinu í London. EFTIRMÁLI Wiktoria fór og sótti nokkrar bækur og fór til konunnar í afgreiðslunni til að fá þær lánaðar. „I will borrow these books, please,“ sagði hún og lagði bækurnar á borðið. Konan tók bækurnar og skráði þær í tölvuna. „Name or social security number?” „My name is Wiktoria Þorgrímsdóttir.“ „Ok, see you later,“ svaraði konan og glotti til okkar á leiðinni út.
30
31 Baunin undir prinsessunni Tobias Auffenberg, 12 ára Hæ, ég heiti Bubbi og er baun. Eins og hjá hverri baun er minn innsti draumur að verða borðaður í rosa fínni matarveislu. Þessi saga byrjar þegar ég var í leit að einmitt svona matarveislu. Ég hugsaði með mér að konungsfjölskyldur héldu örugglega fullt af fínum matarveislum. Þess vegna ákvað ég að leita að konungshöll. Á leiðinni hitti ég úlf, ég varð mjög hræddur. „Vinsamlegast ekki éta mig,“ sagði ég með titrandi röddu við úlfinn. „Ég? Éta þig?“ svaraði hann grimmúðlegur og þóttist ekki skilja baun. „Ég er ekki grænmetisæta,“ bætti hann síðan við. Ég andaði léttar. „En ég er samt svangur, hefur þú séð stelpu með rauða hettu?“ spurði úlfurinn. „Ég þekki stelpuna en veit ekki hvar hún er. Þarna býr amma hennar, þú getur kannski spurt hana,“ svaraði ég og bætti síðan við: „En veist þú hvar er næsta konungshöll?“ „Já, þú þarft að fara yfir brúna og til hægri, þá sérð þú höllina. En passaðu þig, konungurinn er mjög tortrygginn!“ Ég lagði af stað í átt að höllinni. Þegar ég var kominn nær sá ég hvað höllin var stór, dyrnar voru læstar en ég náði að laumast inn í gegnum skráargatið. Inni í höllinni voru alls staðar verðir. Smásaga ársins í flokki 2023 10 til 12 ára
32 Ég var hræddur um að þeir myndu sjá mig en ég er svo lítill að þeir gátu ekki séð mig. Þá sá ég mann með kórónu og risabumbu: Þessi maður hlýtur að vera konungurinn, hann lítur út eins og hann elski að borða, vonandi borðar hann líka baunir. Ég safnaði kjarki og spurði hann: „Ég heiti Bubbi og er baun, viljið þér borða mig?“ „Hmmmm … Fyrst þarft þú að sanna að þú sért alvöru baun,“ svaraði konungurinn með djúpri röddu. „Hvernig geri ég það?“ spurði ég, frekar ruglaður á svip. „Það er nú ósköp einfalt“ sagði hann. „Við erum með prinsessu í heimsókn. Við látum þig undir dýnuna hennar á meðan hún sefur. Ef hún verður með bakverki morguninn eftir, þá vitum við að þú ert baun.“ Það sem konungurinn sagði varð að veruleika. Um kvöldið lá ég undir dýnum í þúsunda tali (núna var ég kannski að ýkja smá) og með eina rosa þunga prinsessu ofan á. Það var mjög þröngt undir dýnunni. Mér leið eins og það væru þúsund kíló liggjandi ofan á mér; en stundum verður maður að fórna einhverju til þess að láta drauma sína rætast. Allan næsta dag var prinsessan nöldrandi yfir því að hún væri með bakverki, sem þýddi að ég væri í alvörunni baun! Fyrir tilviljun var brúðkaup prinsessunnar þann dag og ég mátti vera með í hátíðarmálsverðinum. Í forrétt var baunasúpa. Og engin önnur en prinsessan át mig og draumur minn varð að veruleika!
33 GRÆN BAUNASÚPA 600 gr grænar baunir ½ lítri grænmetissoð 200 ml matreiðslurjómi 90 gr sýrður rjómi 1 laukur 1 msk. olía Múskat, salt og pipar 1. Saxið laukinn fínt niður. 2. Látið laukinn krauma í potti með olíunni þar til hann er glær. 3. Hellið grænmetissoðinu yfir laukinn ásamt matreiðslurjómanum, bætið frosnu baununum og múskati við. 4. Látið baunirnar sjóða í 8–9 mínútur. 5. Takið pottinn af hitanum og maukið baunirnar með töfrasprota eða matvinnslu- vél þar til súpan verður mjúk og jöfn. 6. Hitið aftur upp að suðu. 7. Saltið og piprið eftir smekk. 8. Skreytið súpuna með sýrðum rjóma.
34 Óvænt afmælisveisla Haukur Darri Björnsson, 11 ára Ég er að koma heim af fótboltaæfingu. Ég opna húsið og tek eftir því að það er allt hljótt í íbúðinni. Mamma og pabbi ættu að vera heima núna, hugsa ég með mér. Ég kalla „MAMMA“ – „PABBI“ en ég fæ ekkert svar. Ég hringi í þau en ekkert svar þar heldur. Ég kíki á SMS og sé raddskilaboð frá mömmu og pabba. Þetta heyrist í skilaboðunum: „Hæ, Aron minn, okkur var rænt og við erum núna í byggingunni þar sem gamli bankinn var, þessi sem er búinn að vera lokaður í nokkur ár. Komdu og hjálpaðu okkur.“ Mömmu og pabba hefur þá verið rænt, hugsa ég með mér og á sjálfan afmælisdaginn minn. Ég verð að bjarga þeim hvað sem það kostar. Ég gríp úlpuna, klæði mig í kuldaskó og set brodda undir. Það er komin hálka svo það er betra að hafa brodda undir skónum. Það tekur mig 15 mínútur að labba að strætóstoppistöðinni þar sem ég tek strætó númer 6. Ég geng svo í 25 mínútur þaðan sem strætóinn stoppar og að byggingunni þar sem mamma og pabbi eru. Þarna er gamli bankinn sem eyðilagðist næstum því í jarðskjálfta. Húsið er fjórar hæðir. Ég tek lyftuna og fer á fyrstu hæð, þar eru tvennar dyr. Ég opna fyrri dyrnar. Engin mamma og pabbi þar.
35 Ég opna seinni dyrnar. Engin mamma eða pabbi þar heldur. Ég fer á aðra hæð. Þar eru bara einar dyr en ekki eru mamma og pabbi þar. Ég fer upp á þriðju hæð. Þar eru tvennar dyr en engin mamma og enginn pabbi þar. Ég fer upp á fjórðu og síðustu hæðina. Þar er ein hurð sem ég reyni að opna en hún er læst. Hurðin er læst! – Ég heyri foreldra mína hrópa : „HJÁLP“. Ég verð að bjarga þeim, hugsa ég með mér. Ég finn eitthvert lítið járn, það ætti að duga. Ég set járnið í skráargatið og klikk – hún opnast. Hurðin opnast! Ég hleyp inn, ljósin eru slökkt. Ég sé ekkert. Hvar eru mamma og pabbi hugsa ég en þá kvikna ljósin. „TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ, ARON MINN,“ segja mamma og pabbi í kór. „VÁ!“ segi ég. „Hérna er pakkinn til þín frá okkur pabba þínum,“ segir mamma. Ég opna pakkann, það er PLAYSTATION 5 „VÁ – takk mamma og pabbi! Þetta er besta afmælisveisla í heimi.“
36 Ása Tvist Jóhanna Sigurlilja Sigurðardóttir, 12 ára Ég hleyp út í garð í úlpu og vaðstígvélum. Það er loksins komið vor, ég finn sætu lyktina af grasinu eftir rigninguna sem var í morgun. Ég á leynistað í kofanum og þegar ég fer á leynistaðinn er ég orðin Ása Tvist sem er heimsfrægur meistarabakari. Ég opna gömlu tréhurðina sem er lokuð með bandi. Ég horfi í kringum mig og breytist í Ásu Tvist. Ég næ í boxin í hilluna og kem mér fyrir. Ég fer út og safna saman hráefni eins og mold, vatni, grasi, blómum, sandi, spýtum, mosa, steinum og könglum. Allt fer þetta sitt í hvert boxið. Þá er ég tilbúin. Áður en allir viðskiptavinirnir koma verð ég að búa til deigið. Ég bretti upp ermar og set smá mold ofan í skál, næ í ausu og set vatnið út í. Vatnið sest ofan á moldina. Ég set ermarnar upp á axlir og set hendurnar ofan í skálina. Snertingin er köld og þægileg, ég staldra aðeins við til að finna fingurna kólna. Þegar ég er búin að hnoða þetta vel bæti ég við sandi og laufi. Ég næ í pönnu og kveiki undir, set smá deig á pönnuna þannig að þrjár pönnukökur komast fyrir á henni. Meðan ég bíð kveiki ég á ofninum og ríf laufblöð í skreytingar. Ég horfi á laufblöðin rifna í sundur og sé hvernig þau eru lagskipt og mislit. Æðarnar í laufunum eru fíngerðar og áhugaverðar.
37 Ég tek pönnukökurnar og set þær á disk, geri aðra umferð af pönnukökum. Ég skreyti pönnukökurnar fallega með laufblöðum, steinum og blómum. Mosinn fylgir með í skál ásamt könglunum. Ég sé viðskiptavini nálgast og set pönnukökurnar fram á borðið. Þær seljast fljótt upp og viðskiptavinirnir eru glaðir og ánægðir. Enn og aftur hefur Ása Tvist slegið í gegn! „Stella,“ kallar mamma. „Það er kominn kvöldmatur.“ Ég hleyp inn og skil Ásu Tvist eftir í kofanum.
38
39 Soffía kynnist nýju fólki: Stelpan í lyftunni Járngerður Þórgnýsdóttir Thoroddsen, 11 ára Soffía er nýflutt í risastórt hús með mömmu sinni og pabba. Þetta er blokk með 12 hæðum, segir pabbi. Soffía horfir upp eftir þessu húsi sem er fullt af gluggum með alls kyns gardínum og blómum í gluggakistunum. Dálítið yfirþyrmandi, finnst henni. Hún fær sitt eigið herbergi sem er alveg ágætt en það verður dálítið einmanalegt að hafa engan að leika sér við. Mamma og pabbi eru mjög upptekin við allskonar verk. Þau mála, raða húsgögnum og ræða um hvar best sé að hafa sjónvarpið. Soffía hefur ekki séð neina krakka í þessu stóra húsi. Hún ákveður að skoða sig aðeins um og opnar dyrnar fram á gang. Þar er endalaus röð af hurðum en engin mannvera. Ein hurðin er öðruvísi en hinar. Hún er silfurlit og það eru takkar á veggnum við hliðina á henni. Soffía stendur og skoðar þessa skrýtnu hurð. Allt í einu heyrist hljóð og dyrnar opnast, ekki eins og venjulegar dyr enda er enginn húnn á hurðinni, heldur opnast eins og gat á vegginn. Út um dyrnar kemur kona með innkaupapoka. Hún heilsar Soffíu og kinkar kolli. Svo lokast gatið aftur. Þetta er aldeilis skrýtið.
40 Soffía ákveður að rannsaka málið betur og sest á ganginn og bíður. Nú gerist eitthvað á bak við þessa skrýtnu hurð. Eins og eitthvað renni til og nú sér hún að það er ljós hjá tökkunum, sem er eins og ör í laginu. Og nú opnast dyrnar aftur og gamall karl með staf kemur út úr þessu furðulega herbergi sem leynist á bak við hurðina. Soffía herðir upp hugann og fer inn um opnar dyrnar. Þá lokast þær aftur og þetta herbergi fer af stað. Þetta er lyfta. Hér ætla ég að eiga heima, segir hún upphátt við sjálfa sig. Inni í lyftunni er allt glansandi og silfurlitað, fullt af tökkum og fleira skrýtið. Soffía sest á gólfið og horfir í kringum sig. Það er ekkert inni í lyftunni, ekki stóll eða borð eða neitt. Hún finnur hvernig lyftan fer niður. Dyrnar opnast og inn kemur kona með fallegan hatt. – Hvað ert þú að gera hér, vinan? Ertu villt? spyr konan. – Nei, nei, ég veit alveg hvar ég er. Þetta er herbergið mitt. Konan ýtir á takka númer 6 og horfir upp í loftið. Hún fer út þegar lyftan stoppar. Þegar lyftan stoppar næst kemur maður inn með stóran hund. Soffíu bregður dálítið og horfir á þá, manninn og hundinn. – Hæ, segir maðurinn. Soffía kinkar kolli og virðir fyrir sér hundinn. – Hann heitir Kolur, af því hann er svo kolsvartur, segir maðurinn. Það finnst Soffíu mjög gott nafn á svartan hund.
41 – Hann er bara í heimsókn hérna af því að hundar eru bannaðir í þessu húsi. – Er hann góður hundur? – Já, hann er það. Hann er svona hundur sem leitar að týndu fólki uppi á fjöllum og þannig. – Vá, það er sko góður hundur. Má klappa honum? – Auðvitað! Soffía klappar hundinum á kollinn og hundurinn dillar rófunni eins og það sé takki á hausnum á honum sem setur skottið af stað. Soffíu finnst það skemmtilegt og klappar aftur á kollinn. Skottið fer af stað aftur, Soffía hlær, hahaha! Svo fara maðurinn og hundurinn út úr lyftunni. Bless, segir maðurinn en hundurinn segir ekki neitt. Nú fer lyftan af stað aftur og þegar dyrnar opnast kemur gamli karlinn með stafinn inn, sem Soffía sá áðan. – Má ég setjast hjá þér smástund? spyr hann. – Já, gjörðu svo vel. – Mér er svo illt í fótunum og svo er ég svo leiður líka, segir karlinn. Ég heiti Haraldur, sæl og blessuð, bætir hann við. – Ég heiti Soffía. Af hverju ertu leiður? – Æi, mér leiðist svo af því að ég bý einn. – Mér leiðist líka dálítið en ég á samt bæði mömmu og pabba. Þau eru mjög upptekin af því við vorum að flytja. Núna er ég að prófa að eiga heima í lyftunni. Það er svolítið skemmtilegt af því ég hitti svo marga hérna, segir Soffía. – Mikið ertu skemmtileg stelpa. Viltu lakkrís?
42 – Já, takk. Lakkrís er uppáhalds nammið mitt. Þau sitja saman á gólfinu og borða lakkrís og brosa. Það er svo gott að borða saman nammi og brosa. – Jæja, nú verð ég að fara og þá versnar nú í því. Þá þarf ég nefnilega að standa upp og það er sko erfitt. – Ég skal hjálpa þér, segir Soffía. Ég ýti bara á rassinn á þér og rétti þér stafinn. Þegar karlinn er farinn út gerist ekkert lengi. Soffía situr og hugsar um hvað fólkið sem hún hefur hitt, er margskonar. Fína konan mátti ekkert vera að því að tala við hana og Soffía öfundaði dálítið manninn með hundinn af því hundurinn var svo fallegur og góður. Það væri örugglega skemmtilegt að eiga hund. Verst þótti henni hvað gamli karlinn var leiður; kannski myndi hún hitta hann aftur seinna. Þá ætlar hún að segja honum sögu til að skemmta honum dálítið. Loks fer lyftan af stað og dyrnar opnast. Ó ó ó, inn kemur stór strákur með allt of stóra fætur og hendur og gott ef nefið á honum er ekki líka aðeins of stórt fyrir andlitið. Soffíu er ekki alveg sama, því hún hugsar að hann hljóti að vera unglingur. Hún hefur heyrt að unglingar séu stórhættulegir, með læti. Strákurinn horfir á Soffíu. – Hvar er mamma þín? Hvað ertu að gera hérna? – Ég á heima hérna í lyftunni núna. – Vá, það er kúl. Má ég sitja hjá þér? Ég heiti Kalli. – Já, já. Soffía þorir ekki annað en að leyfa honum það. Ég heiti Soffía, segir hún og brosir feimnislega. – Ég var að heimsækja ömmu mína, segir strákurinn.
43 Hún er alltaf alein heima. Hm, þetta passar nú ekki alveg við það sem Soffía hefur heyrt um unglinga. – Ég fer í búðina fyrir hana og ryksuga stundum líka. Hún bakar alveg rosalega marínósköku. – Marínós? Meinarðu Marengsköku? – Ömmu finnst allt í lagi þó ég komi stundum í heimsókn og fái að vera hjá henni smástund, reyndar stundum lengi. Mér finnst svo leiðinlegt í skólanum af því að maður þarf alltaf að vera svo töff og svoleiðis. Ég nenni því nefnilega ekki. Þá fer ég til ömmu. Kalli fer margar bunur upp og niður í lyftunni með Soffíu á meðan þau spjalla saman. Kalli er bara ágætur þótt hann sé svona sláni í rifnum gallabuxum og bol með mynd af trommukjuðum. Soffíu finnst aðalatriðið að hann er svo skemmtilegur og segir líka brandara, til dæmis þennan: Af hverju læðast Hafnfirðingar alltaf fram hjá apótekum? Það er til þess að vekja ekki svefnpillurnar! Hahaha, Soffía hló og hló. – Jæja, ég verð að fara núna, segir Kalli. Ég þarf að sækja litla bróður minn á leikskólann sko. Mamma er alltaf að vinna. Nú er Soffía eiginlega orðin dálítið svöng. En nú vandast málið því hún getur ómögulega munað á hvaða hæð hún kom inn í lyftuna. Þótt hún stoppi á hverri hæð til að gá, þá eru allir gangarnir eins og allar hurðarnar eins.
44 Á einni hæðinni hittir hún stelpu á svipuðum aldri og hún sjálf. Vá, það var nú aldeilis heppilegt. Soffía verður mjög glöð og býður stelpunni inn í lyftuna sína. – Gjörðu svo vel, ég á heima hérna í lyftunni, segir hún. Ég heiti Soffía, en þú? – Vigdís, en ég er kölluð Vigga. Mér finnst nú skrýtið að eiga heima í lyftu, bætir hún við. – Fáðu þér sæti, segir Soffía, fullorðinslega. Þær setjast á gólfið í lyftunni og Vigga segir Soffíu að hún eigi heima í þessu stóra húsi. Soffía verður svo glöð að hún kyssir Viggu á kinnina. – Eigum við að verða vinkonur, kannski? spyr Soffía. Þær halda áfram að ræða málin en verða loks sammála um að nú þurfi þær að fara að finna sér eitthvað að borða. Að finna réttu leiðina heim til mömmu og pabba Soffíu er samt enn þá vandamál. – Hvernig finnum við eiginlega út úr því? spyr Soffía, sem er alls ekki vön því að eiga heima í húsi þar sem eru margar hæðir og allar eins. – Sko, niðri í anddyrinu er tafla þar sem er fullt af nöfnum og númerum, segir Vigga. Þetta var nú aldeilis gott ráð. Þar sem þær standa við töfluna reyna þær að finna út úr þessu í sameiningu. Vigga er veraldarvön og kann að lesa út úr öllum þessum nöfnum. Það er nú líka dálítill vandi því Soffía kann bara nokkra stafi en kann ekki að lesa eins og stóru krakkarnir. Hún þekkir samt S sem er hennar stafur. Vigga er aðeins betri
45 í lestrinum og saman komast þær að því að Soffía eigi heima hjá foreldrum sínum í íbúð númer 704. Þær fara saman að lyftunni og ýta á takka númer 7. Þá er bara að finna hurð sem er merkt 704. Og viti menn: þar standa mamma og pabbi alveg steinhissa þegar þau opna dyrnar. Þau höfðu ekkert tekið eftir því að Soffía hefði farið út. Mamma býður þeim snúð með súkkulaði ofan á og pabbi hitar kakó. Soffía og Vigga eru svo glaðar að hafa fundið hvor aðra og ætla að leika sér saman á morgun og hinn og hinn. Bara alltaf. Það getur ýmislegt skrýtið og skemmtilegt gerst þegar maður á vinkonu.
46 87 ár aftur í tímann Gunnar Draupnir Bendikz, 12 ára Ég heiti Draupnir og ég er 11 ára. Alveg að verða 12. Mér finnst gaman að ferðast með mömmu, pabba og Hildigunni systur minni. Mamma vildi ferðast um Strandasýslu því mamma hennar er fædd þar. Það er hún amma mín, hún amma Inga. Við ætlum ekki með flugvél heldur keyra á bílnum okkar. Fara um Kollafjörð og sjá hvar amma Inga fæddist. Ég hef komið þangað áður en þá var ég svo lítill að ég man ekkert eftir því. Amma býr núna í Sóltúni. Við stoppum í Kollafirði þar sem amma Inga fæddist og bjó með foreldrum sínum og systkinum. „Jæja, væri ekki gott að setjast hér niður og fá okkur nesti?“ segir mamma og horfir upp að túni. „Hérna var LitlaFjarðarhorn, bærinn hans afa míns og ömmu. Og hér fæddist amma þín og bjó með langafa og langömmu og systkinum sínum.“ Við löbbum um svæðið. Þarna er enginn bær lengur. Ekkert sem minnir á sveitarbæ langafa míns og langömmu, nema veggir af húsi sem hefur hrunið. Mamma segir að það hafi verið fjárhús. Eftir að hafa skoðað okkur um, setjumst við niður og fáum okkur að borða. Ég er mjög svangur og borða mikið. Eftir nestið leggst ég niður í grasið og horfi upp í himininn.
47 Hér er svo rólegt. Engin umferð eða hávaði. „Hvur liggur þarna? Hvað ert þú að gera hér? Ertu drengurinn af næsta bæ?“ Ég hrekk upp. Ég hafði sofnað eftir nestið. Ég sé mömmu, pabba og Hildigunni hvergi. Það eina sem ég sé er maður með hrífu. Hann er með dökkar augabrúnir. Ég kannast við hann. „Heyrirðu ekki í mér, drengur? Ertu sofandi á vinnutíma? Hér er nóg að gera. Sendi Einar þig?“ Maðurinn heldur greinilega að ég sé vinnumaður og ég er of hissa til að mótmæla. Hver er þetta? Ég kannast svo við hann. Ég elti hann og hann réttir mér hrífu. Hann vill að ég snúi heyi því hann er einn og hefur kallað eftir aðstoð frá næsta bæ til að klára vinnuna. Sem betur fer kann ég að nota hrífu og byrja bara að vinna. „Þórður minn! Ég er komin með kaffi og brauð handa þér.“ segir kona sem kemur labbandi. Þá átta ég mig á því hvaða fólk þetta er. Þórður er langafi minn. Afi mömmu og þarna er langamma mín, hún langamma Inga. Ég er staddur í LitlaFjarðarhorni þegar þau voru bændur þar. En þarna er ekki fjárhúsið sem ég sá áður en ég sofnaði. Þarna er bara lítill torfbær. Þá man ég eftir sögu sem mamma sagði mér. Amma mín fæddist í torfbæ og bjó þar fyrstu mánuðina en svo brann bærinn. Allir sluppu lifandi vegna þess að amma mín grét svo hátt og vakti alla þegar eldurinn hafði kviknað. Ég sé núna að langamma mín, er ólétt. Hún er með stóran maga og mun eignast barn bráðum.
48 Ætti ég að segja þeim að þetta litla barn sem hún gengur með muni láta þau vita af brunanum? Ég hef ekki tíma til að hugsa þetta til enda því ég verð að raka saman heyi og snúa því svo það þorni rétt og langafi minn geti notað það fyrir kindurnar. Þetta er mjög skrítið. Hvað varð um hin? Mömmu, pabba og systur mína? Sé ég þau aftur? Verð ég alltaf hér í Litla-Fjarðarhorni? Amma mín fæddist 1935 svo ég er staddur á Íslandi fyrir 87 árum. Og eftir nokkra mánuði verða þau í lífshættu vegna þess að það kviknar í bænum þeirra. Ég verð að láta þau vita og vara þau við. „Draupnir minn, viltu meira brauð?“ Ég vakna við að mamma potar í mig og réttir mér nesti. Ég er ekki svangur. Ég er bara mjög hissa. Var mig að dreyma? Var langafi minn ekki hérna rétt áðan? Og amma Inga alveg að fæðast? Hvað var að gerast? Við leggjum af stað aftur að bílnum okkar og höldum áfram ferðalaginu um sveitina hennar ömmu. Á leiðinni heim segir mamma mér söguna af brunanum í torfbænum og hvernig amma bjargaði fjölskyldunni með því að gráta. Mamma heldur að það hafi verið einhver verndarengill sem fylgdist með ömmu minni og fjölskyldunni þessa nótt og bjargaði þeim. Ég held það hafi verið verndarengill. Eða vinnumaður sem birtist óvænt og hjálpaði langafa við heyskapinn og fylgdist með fjölskyldunni þarna í nokkrar vikur.
49
50 Goðafræða-Ormurinn Aron Samuelsson Perrella, 11 ára Dag einn var Alex að fara út í geim. Þegar hann var kominn út í geim sá hann eitthvað langt og stórt hverfa og birtast fram og til baka, það var eins og geimskrímsli. Það kom nær og nær og þegar það var svona 10 kílómetra frá honum sá hann að þetta var ormurinn úr goðafræðinni. Goðafræðin sagði að þessi ormur væri mjög heimskur en samt mjög sterkur. Ormurinn kom nær og nær og þegar hann var kominn mjög nálægt tók Alex í stýrið og brunaði af stað. En það sem Alex vissi ekki var að ormurinn var miklu stærri en hann hélt. Ormurinn var kominn svo nálægt honum að Alex var næstum því étinn. En þá fékk Alex hugmynd: Að láta orminn éta sig og svo myndi hann svo skera sig út úr orminum! Þá gæti hann farið fram fyrir orminn. Þegar ormurinn át Alex og geimskipið þá gerði hann það sem hann hafði hugsað. Það gerðist ekki eins og hann hélt. Hann komst ekki út, af því að inni í orminum fór allt í hringi. Það var eins og ormurinn væri búinn að éta öll geimskip sem hefðu farið út í geim. Það hefur þá verið lygi að fólk kæmi til baka úr geimnum, hugsaði Alex. Hann ákvað að fara lengra inn í orminn. Allt í einu byrjaði allt að hristast.
51 Allt þaut fram og til baka. Inni í orminum var eitt stórt geimskip. Alex fór nær geimskipinu og fór inn í það. Hann sá 10 menn að tala og þegar hann nálgaðist steig hann á eitthvað slím og það heyrðist svo mikið að allir mennirnir byrjuðu að koma nær og nær og Alex var fastur. Svo sá Alex skuggann af þeim og hann gat séð að þeir voru allir með geislabyssur. Þeir sáu Alex og tóku hann og festu hann við stól og byrjuðu að spyrja hann spurninga. Svo fór Alex að spyrja nokkurra spurninga og þeir byrjuðu að vera vinir og slepptu Alex. Svo spurði Alex af hverju þeir væru inni í orminum. Þeir sögðust hafa orðið bensínlausir. Þá föttuðu þeir að þeir voru með geimbúninga og sögðu að þeir gætu notað bensínið úr vélinni hjá Alex til þess að sleppa. Þeir gætu fest geimskipið hans við sitt og farið út úr orminum. Þeir gerðu það. Alex fór í geimbúning og fór að tæma tankinn í geimskipinu sínu. Þegar Alex var kominn með bensínið fylltu þeir á stóra skipið og brunuðu af stað út úr orminum. Þeir fóru beint til einhvers lítils lands sem þeir sögðu að væri mjög friðsælt land sem héti Ísland og lifðu þar að eilífu og núna sérðu stundum orminn blikkandi á himninum.
52 Afi gítarsmiður Einar Þór Sævarsson, 10 ára Ég man svo vel eftir deginum sem ég fékk fyrst að kíkja inn í bílskúr hjá afa gítarsmið. Afi minn er ekkert venjulegur afi, hann er ungur og hress og alltaf tilbúinn að búa til góðar stundir með mér og aðstoða mig. Afi var alinn upp á eyju í Breiðafirðinum, hann var eina barnið á eyjunni og þurfti því að vera duglegur að finna sér eitthvað að gera. Hann vann húsverk með mömmu sinni og sinnti dýrunum á bænum. Afi var aðeins 10 ára gamall þegar hann fann fjársjóð undir stiganum á bænum. Þetta var frekar stór kistill sem hann tók með sér upp í herbergið sitt. Í kistlinum fann hann tvo gítara og ýmis verkfæri. Afi prófaði að glamra aðeins á annan gítarinn og fannst hljómurinn mjög fallegur. Hann var greini- lega með gott tóneyra því fljótlega var hann farinn að spila lög. VERKFÆRIN SEM BREYTTU ÖLLU Afi sagði mér frá deginum sem hann fékk þá frábæru hugmynd að smíða sinn eigin gítar. Hann hafði safnað rekavið úr fjörunni og var búinn að vera að þurrka viðinn í fjósinu. Það voru allir mjög pirraðir á öllum þessum rekaviði. Afi sagði mér að hann hefði prófað að saga út fallegt form sem líktist gítörunum hans. Svo hafi hann sótt verkfærin úr gamla kistlinum og að þau hafi einmitt verið til þess að smíða hljóðfæri. Eftir mikla
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=