RISAstórar smáSÖGUR

36 Köngulóarævintýrið Það er ósköp venjulegur laugardagur og ég og Embla erum að leika í herberginu mínu eins og við gerum mjög oft. Mamma og pabbi fóru með systur mína til Reykjavíkur og þess vegna er ég ein heima. Við erum í mjög skemmtilegum leik í Lego friends þegar ég tek skyndilega eftir því að eitthvað lítið og svart skríður upp vegginn. Ég verð strax svolítið hrædd af því ég veit ekki alveg hvað þetta er. Ég ákveð samt að vera hugrökk og fara nær til að sjá þetta betur. Um leið og ég kem að veggnum sé ég hvað þetta er. Þetta er KÖNGULÓ! Sú allra ljótasta og ógeðslegasta könguló sem ég hef á ævi minni séð. Hún er kolsvört með rauðar línur á bakinu, mjög loðnar lappir og gul útstæð augu. Ég hrekk við og bakka ósjálfrátt frá um leið og ég fæ svakalegustu gæsahúð sem ég hef á ævi minni fengið. Embla veit ekkert hvað er í gangi en hún sér hvað ég er skelfingu lostin og verður sjálfkrafa hrædd líka. Ég er hálf stjörf af ótta og kem ekki upp einu orði en ég bendi með hægri vísifingri í átt að skordýrinu á veggnum. Embla áttar sig fljótt og bakkar eins hratt og hún getur út í horn.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=